05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

94. mál, almannatryggingar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er áreiðanlega mál sem er í tíma talað. Ég hef verið umboðsmaður ýmissa sem hafa lent í því að tryggingalæknir hefur átt að úrskurða bætur þeim til handa og þeir telja í mörgum tilvikum að þeir hafi ekki náð rétti sínum þar. A.m.k. þegar slík mál koma upp verður að vera möguleiki á að vísa svona málum í úrskurð einhverra manna. Hvort þetta á endilega að vera í þessu formi getur verið umhugsunarvert, en a.m.k. er ekki hægt að líða öllu lengur að það sé aðeins einn maður sem metur þetta og þeim úrskurði sem hann gefur sé ekki hægt með neinu móti að hagga til. Það er ekki sæmandi að hafa þetta lengur á þann veg.

Ég segi þessi orð vegna þess að ég er nýbúinn að standa í máli fyrir mann sem lenti í slysi. Þess vegna vil ég mælast til þess að heilbr.- og trn. skoði þetta mál mjög vel. Og þó hún fallist ekki endilega á þetta frv. óbreytt, sem ég get ekki séð að gæti ekki alveg staðist, en auðvitað á að skoða fleiri hliðar á þessu máli, er umfram allt að hægt sé að áfrýja svona málum til einhvers úrskurðaraðila.