05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

94. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að afsaka að vegna anna hér frammi heyrði ég ekki framsöguræðu hv. 1. flm., en eins og þm. sjá er ég hér meðflm. En það sem rak mig nú upp í ræðustól er það að ég fagna því mjög hversu vel hæstv. ráðh. tekur í þetta mál. Að sumu leyti hefði ég kosið að tillaga þessi hefði verið meira í líkingu við þær tillögur sem við höfum áður flutt, en við vorum satt að segja uppgefin að reyna að fá það mál samþykkt. Það var í þá veru að ekki eingöngu tryggingayfirlæknir heldur einnig félagsráðgjafi stofnunarinnar og deildarstjóri lífeyrisdeildar stæðu að örorkumati. Við fluttum þá tillögu hvað eftir annað og hún var í raun og veru miklu skynsamlegri. Ég get tekið undir með ýmsum að það kann að vera vafasamt að skipta dómskerfinu upp í endalausa sérdómstóla. Þetta er gamalt og nýtt deilumál. En ég held reyndar að hér sé um tvö mál að ræða sem ætti að skoða bæði. Úr því að það er greinilegt á máli hæstv. ráðh. að hún vill bæta úr því ástandi sem nú ríkir í þessum málum vildi ég beina þeim tilmælum til hennar að skoða í sínu ráðuneyti tillögur þær sem við höfum flutt á síðustu árum um fyrirkomulag þessara mála því að ég bendi á að í 12. gr. almannatryggingalaga stendur í b-lið, með leyfi forseta, en þar er fjallað um hverjir eigi rétt til örorkulífeyris, þ.e. fulls lífeyris:

"...eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn“ - og nú bið ég menn að taka eftir - „í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa“.

Hver heilvita maður hlýtur að sjá að hér á ekki að vera um klínískt læknisfræðilegt mat að ræða heldur mat á aðstæðum manneskjunnar miðað við þann heilsubrest sem hún hefur orðið að þola og í samhengi við aðrar hennar aðstæður. Við könnumst öll við það, sem nærri þessum málum höfum komið, að fiskverkakona frá Siglufirði, sem verður veik og getur ekki lengur stundað sín störf, er metin til 50 eða 65% örorku og er sagt að hún geti fengið sér léttari störf, t.d. skrifstofustörf. Þetta er fjarri öllu lagi og um þetta hefur verið deilt í Tryggingastofnun eins lengi og ég hef þekkt þá stofnun. Auðvitað fer verkakonan á Siglufirði ekki inn á neina skrifstofu þar í bæ og vinnur fyrir eðlilegu kaupi. Það getur vel verið að hún gæti það suður í Reykjavík, en þar eru allt aðrar aðstæður. Við erum búin að berjast við það í mörg, mörg ár að fá einhverja skipan á þessi mál því að því hefur verið haldið til streitu í Tryggingastofnun ríkisins, sem ég tel mig þekkja harla vel sem minn gamla vinnustað, að þarna ætti að vera um læknisfræðilegt mat að ræða. Það á það að vera að vissu leyti, en hreint ekki öllu skv. lögum um almannatryggingar.

Ég skal ekki lengja mál mitt, herra forseti, en ég fagna því mjög að heyra orð hæstv. ráðh. Eðlilegasta afgreiðsla þessa máls væri auðvitað og æskilegust ef hæstv. ráðh. vildi skoða þessar tillögur okkar frá síðustu árum ásamt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Vel mætti vera að ástæða væri til að samþykkja eða ganga frá lagabreytingum með hliðsjón af báðum tillögunum. Og ég held að það væri mjög gott að skoða þessar tillögur í heild og best væri að þessi mál leystust sem allra best innan stofnunarinnar svo að allir mættu vel við una. Síðan er það álitamál hvort ástæða sé svo til að stofna til dómstóls eða örorkumatsnefndar. En best væri að hæstv. ráðherra vildi skoða tillögurnar og það mundi gleðja okkur flm. ef við sæjum stjfrv. á þessu þingi um þessi mál.