05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

94. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka þær umræður sem fram hafa farið um þetta mál og alveg sérstaklega undirtektir hæstv. heilbr.- og trmrh. Hún spurði að því hvort ég hefði flutt um þetta mál frv. þann tíma sem ég var heilbr.- og trmrh. Svarið er já. Það gerði ég. Hins vegar neita ég því ekki að í fyrstu varð mér litið þarna sérstaklega á ákvæði almannatryggingalaganna um tryggingadómstólinn. Ég velti því fyrir mér hvort það væri hugsanlegt að setja hann á laggirnar með þeim hætti að það skilaði árangri fyrir það fólk sem hér um ræðir. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri óþarflega brotamikið að setja upp tryggingadómstól til að fjalla um mál af þessu tagi og þess vegna flutti ég stjfrv. á árunum 1982-1983. Það var í fyrsta sinn sem frv. var flutt um þetta mál. Ég hafði þá líka velt því fyrir mér hvort það væri rétt að fela þetta tilteknum hópi manna innan stofnunarinnar. Í því skyni hlutaðist ég til um að Tryggingastofnun réð til sín félagsráðgjafa í störf á árinu 1981, ef ég man rétt. En ég get ekki neitað því að þó að ég beri fulla virðingu fyrir Tryggingastofnun ríkisins held ég að hún þurfi í þessu máli eins og öðrum stundum að eiga kost á utanaðkomandi ráðgjöf. Ég er ekki viss um að t.d. þessi túlkunardeila um greinina sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir vitnaði í áðan leystist á annan veg en hún gerir nú þó að málið væri sett í hendur starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins, yfirmanns lífeyrisdeildar og félagsráðgjafa ásamt tryggingayfirlækni eins og hún talaði um.

En allt um það. Í rauninni er þetta hreint aukaatriði. Mér finnst á umræðunni að við séum sammála um að á málinu þurfi að taka og best væri ef heilbr.- og trmrn. færi yfir þetta mál og semdi frv. sem yrði þá annaðhvort flutt hér eða færi til nefndarinnar sem breyting á þessu frv. eða hvernig sem menn vilja taka á því. Ég held að það sé hins vegar alveg ljóst að hægt er að leysa þetta mál með brotaminni hætti en þeim að setja upp tryggingadómstól og að Tryggingastofnun ríkisins þurfi á því að halda að fá ákveðna utanaðkomandi ráðgjöf í máli af þessu tagi. Það er a.m.k. mín skoðun. En höfuðmarkmið mitt er að koma hreyfingu á málið. Þess vegna hef ég verið að flytja þetta frv. Ég játa fúslega að ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var búinn að vera í heilbrrn. í eitt ár eða svo hvað þetta var í rauninni og er erfitt mál og hvað núverandi kerfi í þessum efnum er fráleitt og þar af leiðandi brýnt að breyta því. Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðh. og er reiðubúinn til að hjálpa til við að þoka máli af þessu tagi í gegnum þingið núna í vetur.