15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, það er komið fram yfir fundartíma. Aðeins örfá orð vegna Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ég minnist þess að fyrst þegar ég leit ofan í þau plögg sýndist mér að hitaveitan réði ekki við sem svaraði um 5 millj. dollara. (EG: Já, það voru 5 millj. dollara.) Síðan í framhaldi af þessu tóku menn upp á að rannsaka alla stöðu fyrirtækisins og þá m.a. kemur í ljós að hitaveitan hafði ekki náð 20% af því sem áætlað hafði verið að markaður hennar næmi. Og svo andhælislegt er nú allt okkar skipulag að á sama tíma og þeir sem notuðu raforku til upphitunar á híbýlum sínum og til annarra þarfa neituðu að versla við þetta fyrirtæki, kaupa afurð þess og versla við það, borgaði hið opinbera stórlega niður raforku til þessara neytenda. Það var eitt af því sem ég vildi taka til sérstakrar athugunar að við hættum að gera vegna þess að auðvitað sjá menn í hendi sinni hversu öndvert þetta er. Það var enn eitt sem við ræddum, skuldbreytingar til lengri tíma. En hvernig sem á málið var litið, þótt markaðurinn næðist allur, þótt skuldbreytingar yrðu framkvæmdar, þótt taxtar yrðu hækkaðir, og það máttu þeir, það var möguleiki miðað við það eins og fyrst stóðu sakir þegar ég leit á þessi mál, en auðvitað eru takmörk fyrir því hvað hægt er að hækka þessa taxta, þrátt fyrir þetta var samt sem áður svo, og ég endurtek það, að hitaveitan mundi alls ekki verða í færum um það sjálf að axla þær byrðar sem á henni hvíldu, og því var það að ég lýsti þessu yfir, að ég hygði að hið opinbera yrði með einhverjum hætti að koma til skjalanna. Að ég hafi nefnt að ríkið tæki þessar 5 millj. dollara og legði þær fram er alveg óhugsandi. Þarna blanda menn saman yfirferð yfir stöðu fyrirtækisins. En ég sneri aldrei aftur með það að ríkið yrði að liðsinna fyrirtækinu með einhverjum hætti ef þess ætti að vera einhver von að það gæti náð vopnum sínum.

Umræðu frestað.