06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Sú till. sem ég mæli hér fyrir fjallar um þjóðaratkvæði um sameiginlegan lífeyrissjóð allra landsmanna. Þetta mál hefur oft komið til umfjöllunar áður. Og það er reyndar jafnt að vonum því ég leyfi mér að staðhæfa að lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er „kraðak“. Það eru starfandi 90 sjóðir. Þrátt fyrir það er talið að um 25 þúsund manns séu utan sjóðanna. Rétturinn í þessum sjóðum er mjög misjafn. Hann er oft mjög lítill og lélegur og glatast mönnum með ýmsum hætti, og fólkið í landinu er hætt að botna í því, kerfinu sjálfu, réttindum sínum eða réttindaleysi og er það ekki annað en menn geta búist við þegar menn búa við kerfi af þessu tagi.

Það eru dæmi um það í opinberum gögnum, sem eru rakin í grg. með frv. á bls. 19, að aðili hafi greitt í 25 ár í lífeyrissjóð og hafi upp úr því í lífeyri 290 kr. Ég hef rætt við marga um lífeyrissjóðamál að undanförnu og næstum því allir, sem ég hef rætt við, eru á því að það kerfi sem nú er við lýði geti ekki gengið og þeir botni ekki í því og þeir treysti því ekki. Og næstum því allir eru á því að langbesta lausnin sé að koma á einum sameiginlegum lífeyrissjóði allra landsmanna. En menn spyrja til baka: Þegar þetta liggur svona í augum uppi hvernig stendur þá á því að þetta er ekki gert? Og ég get ekki svarað öðru en því að menn hafi ekki náð höndum saman um það. Og í annan stað að það eru greinilega áhrifaaðilar í þjóðfélaginu sem standa í vegi fyrir því.

Þessi till. er um það að þjóðin sjálf fái að segja álit sitt á því hvort hún vilji að komið verði á einum sameiginlegum lífeyrissjóði. Hún er um þjóðaratkvæði um það efni. En þessi till. er ekki bara um það að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort koma skuli á einum sameiginlegum lífeyrissjóði allra landsmanna. Hún er líka um það hvernig sá lífeyrissjóður eigi að vera, hvernig réttindin í þeim lífeyrissjóði eigi að vera, því vitaskuld er nauðsynlegt ef gengið er til atkvæða um efni eins og þetta að menn fái að vita hvað það sé sem eigi að taka við.

En þessi þáltill. er reyndar ekki bara um það hvernig það kerfi eigi að vera, hún er líka um það hvernig við eigum að komast úr núverandi lífeyrissjóðakerfi yfir í hið nýja, hvernig eigi að fara að því að koma á einum sameiginlegum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Og ég staðhæfi það að þetta er vandaðasti tillöguflutningur sem hér hefur komið fram á seinustu árum um þetta mál, þar sem leitast er við að fara ofan í öli helstu atriði sem skipta máli í þessu sambandi. Og það er haft að leiðarljósi að enginn glati neinum þeim rétti sem hann nú nýtur í lífeyri. En jafnframt að öllum landsmönnum séu tryggð örugg réttindi.

Sumir segja: Ef við tökum upp sameiginlegan lífeyrissjóð þá verða allir að hafa sama lífeyri. Ég held að það sé ekki raunhæft að hugsa dæmið með þessum hætti. Ég hugsa dæmið heldur út frá því að menn séu að kaupa sér tryggingu og það sem menn fá í umbun í lífeyrisréttindum standi í hlutfalli við hvað þeir greiða mikið. Mér dettur heldur ekki í hug að það sé hægt að ganga fram hjá því að ýmsar stéttir í landinu, eins og opinberir starfsmenn, njóta nú meiri lífeyrisréttinda en hægt er að fullyrða að iðgjöld þeirra standi undir. Það sannast á því að í fjárlögum er lagt fé til þessa verkefnis. Þetta verður vitaskuld að viðurkenna. Þetta er hluti af kjörum þessara aðila núna. Á þessu vandamáli er líka tekið í þessari þáltill. og ætlast til þess að þetta sé viðurkennt og sé metið til kjara, en síðan sé það opinberra starfsmanna að ákveða hvernig þeir vilji að framhaldið verði. (Gripið fram í: Opinberra starfsmanna einna?) Í þeirra málum, að því er þeirra kjör varðar. Þetta er ekki stærsti hluti málsins, en ég nefni ásteytingarsteina af þessu tagi vegna þess að hér er verið að leita lausnar sem tryggi að fram geti komið það sem eftir er sótt um sameiginlegan lífeyrissjóð. Stærsta málið er vitaskuld að með þessum hætti yrði tryggt að allir nytu öruggra lífeyrisréttinda.

Eins og ég sagði er gert ráð fyrir að það fari þjóðaratkvæðagreiðsla fram um hvort koma skuli á lífeyrissjóði af þessu tagi. Það er gert ráð fyrir því að þetta þurfi aðdraganda og hinn nýi sjóður gæti ekki tekið til starfa fyrr en 1991. En þá greiddu líka allir launþegar og atvinnurekendur til sjóðsins og allir Íslendingar nytu framvegis réttar í sjóðnum í samræmi við greiðslur í hann.

Ég get í rauninni sagt að eins og staðan er núna í lífeyrissjóðamálum eigi Íslendingar þriggja kosta völ. Í fyrsta lagi að gera ekki neitt, í annan stað að ætla sér að samræma það lífeyriskerfi sem nú er við lýði og í þriðja lagi að taka upp einn sameiginlegan lífeyrissjóð. Mér finnst óhugsandi að við gerum ekki neitt, óréttlætið, réttleysið er svo mikið. Að samræma kerfið er það sem menn hafa verið að tala um, mér liggur við að segja áratugum saman, en árangurinn er ekki meiri en raun ber vitni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að langbesta lausnin er einn sameiginlegur lífeyrissjóður allra landsmanna. Þegar um einn sjóð er að ræða þarf enginn að velkjast í vafa um rétt sinn eða leita að honum, hann er á einum stað. Einn sjóður yrði sterkur og öflugur og áhættudreifing yrði mikil þannig að honum væri ekki hætt vegna áfalla. Og í þriðja lagi yrði rekstrarkostnaður af kerfinu langtum minni ef við hefðum einn sjóð.

Það hafa ýmsir þm. flutt till. um þetta efni, m.a. þm. sem sitja nú á þingi, eins og Guðmundur H. Garðarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Salome Þorkelsdóttir, Egill Jónsson, Þorvaldur Garðar Kristjánsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Hér er sem sagt tekið á málinu með nýjum hætti, en ég vænti liðsinnis þessara manna sem hafa séð að núverandi kerfi er óviðunandi.

Ég held að sú leið sem menn hafa verið að tala um, að samræma kerfið, muni ekki duga okkur neitt betur í framtíðinni en hún hefur dugað til þessa. Núverandi kerfi er svo ófullkomið og vanburða að sérhver endurskoðun þess bætir aðeins úr fáum göllum en fær aldrei staðist samanburð við kosti sameiginlegs sjóðs.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem hér er lýst er gert ráð fyrir að almannatryggingakerfið í núverandi mynd gegni áfram hlutverki sínu óbreyttu og greiði almennan lífeyri til allra án tillits til tekna. Í þessu felst vitaskuld framlag samfélagsins til jöfnunar á milli þjóðfélagshópa. Í annan stað er gert ráð fyrir skyldutryggingu í einum sameiginlegum lífeyrissjóði allra landsmanna sem tryggi ásamt með bótum og lífeyri almannatrygginganna viðunandi og öruggan lífeyri til allra. Þessi réttur yrði tekjutengdur og verðtryggður þannig að réttur og lífeyrir hvers og eins væri í hlutfalli við samanlagðar iðgjaldagreiðslur í sjóðinn. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að til gæti komið viðbótartrygging fyrir þá sem óska að kaupa sér aukinn rétt. Þessi starfsemi gæti verið á hendi lífeyrissjóða sem störfuðu utan sviðs skyldutrygginga.

Það er gert ráð fyrir að hinn nýi sameiginlegi sjóður yrði á formi sjóðssöfnunar. Ég nefni það vegna þess að það var nokkuð í tísku um hríð að nefna gegnumstreymiskerfi, en gallar þess hafa orðið æ augljósari með tímanum. Það yrði tekið upp nýtt og nútímalegt form varðandi iðgjaldsstofn og réttindi hjóna sem leysti jafnframt vanda heimavinnandi foreldra. Og hinn nýi sjóður ætti að tryggja öruggan rétt allra landsmanna gagnstætt því sem nú er.

Við stofnsetningu hins nýja sjóðs yrði tryggt að óskertur héldist hver sá réttur sem sjóðfélagi hefur áunnið sér áður en hinn nýi sjóður tekur til starfa og heildarkjarastaða í launum og lífeyrisréttindum yrði viðurkennd. Þeim sjóðum sem nú starfa yrði gefinn kostur á að sameinast hinum nýja sjóði, en við slíka sameiningu yrði tryggt að sjóðfélagar í sameiginlegum sjóði nytu að minnsta kosti 85% af þeim réttindum sem þeim hefur verið heitið. Hér yrði því um að ræða hreina réttarbót hjá félögum í sjóðum sem geta ekki staðið við skuldbindingar sínar og samkvæmt þeim úttektum sem hafa farið fram er þó nokkuð um lífeyrissjóði sem hafa lofað félögum sínum meira en þeir geta staðið við.

Til viðbótar því sem ég hef hér rakið er sjálfsagt að geta þess að það er gert ráð fyrir að skipuð yrði sérstök stjórn yfir þennan sjóð eftir tilnefningu samtaka launafólks, atvinnurekenda og ríkissjóðs, en ráðherra tryggingamála ætti að skipa formann í stjórnina. Að öðru leyti yrði það eftir tilnefningum frá Alþýðusambandi Íslands, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá Bandalagi háskólamanna, frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, frá Stéttarsambandi bænda, frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga og frá fjármálaráðuneytinu. Reyndar er líka gert ráð fyrir því að stjórnin velji sér fimm manna framkvæmdaráð sem sé með fastafulltrúa er séu auk formanns einn frá ASÍ og einn frá VSÍ. Hlutverk stjórnar sjóðsins er að sjá um ávöxtun á fé hans og henni skal skylt að ávaxta fé með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma. Þess er reyndar líka getið að við ávöxtun á fé sjóðsins eigi stjórnin að öðru leyti að líta til þarfa atvinnulífsins í hinum ýmsu byggðarlögum og gæta þess í því sambandi að jafnræði sé á milli landshluta.

Ég ætla ekki, herra forseti, að rekja öllu nánar ávirðingar núverandi kerfis. Ég minni á að það hefur verið reynt að lappa upp á þetta kerfi þannig að sett hafa verið níu lög um lífeyrissjóði á þinginu og auk þess hafa legið fyrir í þrjú ár drög að frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða í 42 greinum, en það hefur ekkert gerst í því að þetta frv. væri einu sinni lagt fram og það hrekkur mjög skammt.

Ég held að augljóst sé að það sé ofrausn að ætla 240 þúsund manna samfélagi 90 lífeyrissjóði. Það leiðir vitaskuld til þess að langstærstur hluti sjóðanna e,r mjög fáliðaður og vanburða, enda eru um 87% sjóðanna með færri en 10 þúsund sjóðfélaga. Þetta fjölskrúðuga kerfi leiðir líka vitanlega til þess að flestir safna réttindum í fleiri en einum sjóði og margir safna réttindum í mörgum sjóðum. Það þarf því ekki að koma á óvart og liggur í eðli kerfisins að um 7300 manns skuli vera í sex sjóðum eða fleiri. En það má vera umhugsunarefni hvernig fólkinu í landinu gengur að halda til haga réttindum sínum og e.t.v. rifja það upp nokkra áratugi aftur í tímann í hvaða lífeyrissjóði það hafi verið á hverjum tíma. Í þessu felst líka vitaskuld að menn eiga að tína saman réttindi sín, sína ögnina frá hverjum þegar kemur að því að njóta lífeyrisréttinda. Þeir 7300 einstaklingar sem eru í sex sjóðum eða fleiri svara væntanlega til þess að þeirra vegna þurfi um 50 þúsund greiðslur í rauninni að eiga sér stað þegar þeir ætla sér að fá lífeyrisréttinn.

Réttindaákvæðin eru svo margbreytileg í hinum ýmsu sjóðum að þeim verður ekki lýst til neinnar hlítar. Í áliti um þetta kerfi eða skýrslu sem þm. hafa séð og hér er byggt á kemur fram að nefndin treystir sér varla til að lýsa margbreytileik réttindanna milli hinna ýmsu sjóða. En það sem kannske er verst er það að verðtrygging nær ekki einu sinni til allra. Það eru ýmsir utan verðtryggingar. Hjá 13 sjóðum er mjög óvíst um hvaða reglur séu, en aðrir 23 sjóðir hafa engin ákvæði um uppbætur á lífeyri eftir að hann hefur upphaflega verið úrskurðaður.

Það eru líka ýmsar takmarkanir á rétti við úrgöngu. Menn missa rétt sinn niður um hríð ef þeir skipta um starf. Ég spyr: Á lífeyrisréttindakerfið að vera þannig að menn þurfi að velta því fyrir sér hvort þeim sé óhætt að skipta um starf vegna þess að þá muni lífeyrisréttindi þeirra e.t.v. skerðast?

Vissulega er það svo að einn hópur sjóðanna, svonefndir SAL-sjóðir, hefur leitast við að samræma reglur sínar. En það hrekkur skammt í mínum huga. Staðreyndirnar eru því þær, herra forseti, að kerfið nær ekki til allra, að fjöldi sjóða er vanburða og mun að líkindum ekki geta staðið við fyrirheit sín til sjóðfélaganna, að af uppbyggingu kerfisins leiðir skriffinnsku og kerfið er fjötrað í fjölskrúðugt laga og reglugerðafargan. Auk þess hefur ráðsmennska forráðamanna sjóðanna með fé þeirra og afskipti ríkisins af því vakið verulega tortryggni meðal almennings. Þess vegna er tiltrú fólks á sjóðina þverrandi og e.t.v. hefur það leitt til þess að iðgjöld til þeirra innheimtast ekki sem skyldi.

Það er þess vegna vissulega þörf á að taka á þessu máli. Ég skora á þm. að kynna sér þessa till. mjög vandlega og grg. með henni. Ég skora á þm. að láta þetta mál ekki sofna í skúffu heldur afgreiða það. Ég skora á þm. að leyfa þjóðinni að taka afstöðu í þessu efni. Ég skora á þm. að samþykkja þessa till.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að till. verði vísað til félmn.