06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft viðamiklu máli sem ástæða er til að ræða nokkuð og vissulega máli sem ekki ætti að fara eftir pólitískum flokkshagsmunum. Hér er um að ræða réttindamál sem allur almenningur í landinu á kröfu á að menn ræði hreinskilnislega og opinskátt. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir því að hér er um að ræða þáltill. velflestra þm. Alþfl. Að vísu er ég ekki í þeim hópi, en það er ekki vegna þess að ég sé mjög andvígur því sem hér er um að ræða. Ég tel þetta vissulega mikilsvert mál og getur verið spurning að vísu í mínum huga og annarra hvort þetta sé þess eðlis að það fari undir þjóðaratkvæði. Því hef ég velt fyrir mér. Og ég hef líka velt fyrir mér ýmsum öðrum grundvallarspurningum varðandi þetta mál.

Í greinargerð og í skjölum með þessari þáltill. koma fram mjög merkar upplýsingar og ég held að það geti engum dulist að það kerfi sem við höfum búið við er að verulegu leyti gallað. Það er nú einu sinni svo um mannanna verk að þau verða aldrei svo gerð í upphafi að þau dugi endalaust. Auðvitað þarf að ráða bót á þessum málum eins og svo mörgum og velflestum öðrum málum sem við búum í hendur þessu þjóðfélagi.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, 1. flm. þessarar þáltill., að réttindaákvæði eru mjög breytileg að því er varðar lífeyrisréttindi manna hér á landi og þau þarf að jafna. Enginn. getur verið andvígur því, að ég hygg, að slíkt verði gert. (GJG: Það er ekki verið að jafna þau með þessu. Forréttindamennirnir eru skildir eftir.) Já, nú heyri ég í hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Verkamannasambands Íslands, og væntanlega á hann eftir að koma í ræðustól á eftir og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum að því er þessi mál varðar því að það eru ekki síst hans umbjóðendur sem eiga undir högg að sækja að því er varðar þessi réttindi. Ég vænti þess að hv. þm. láti í sér heyra á eftir, segi frá því hvort hann vill fara einhverja af þeim leiðum sem hér er um að ræða. Ef ekki, þá hvaða leið? Ég hygg að hann geti talað í umboði æðimargra innan Verkamannasambandsins. Þar er fjölmennur hópur sem hefur borið skarðan hlut frá borði að því er þetta varðar.

Hann talaði um forréttindahóp. Það er út af fyrir sig rétt. Ef ég skil þetta, sem hér er, rétt, og nú vil ég ekkert fullyrða og vænti þess að menn leiðrétti mig ef ég fer með rangt mál, þá mun þessi þáltill. fjalla um það í framkvæmd, ef af yrði, að þeir sem hafa bestu eða við skulum segja betri lífeyrisréttindi, eins og félagar innan BSRB, njóta forgangs. Þeir koma til með að njóta forgangs. Mér skilst að þeir þyrftu að borga ca. 24% í sinn lífeyrissjóð ef hann ætti að bera sig. Það er allt annað en verður sagt um óbreytt verkafólk og þeirra lífeyrisréttindi sem þar er um að ræða. Ég segi aftur: Ef ég skil þetta rétt.

Þetta er ég út af fyrir sig ekkert að gagnrýna. En mér finnst að ef við erum að tala um einn lífeyrisréttindasjóð - ég vil tala um einn lífeyrisréttindasjóð allra landsmanna - eigi sá lífeyrisréttindasjóður ekki að hafa staðsetta fimm eða sjö manna stjórn á Reykjavíkursvæðinu sem útdeildi til okkar hinna. Það á auðvitað að ávaxta þetta fé á þeim stöðum þar sem fjármagnið fellur til. Það á að ávaxta það í fjórðungunum en ekki með útdeilingarskömmtunaraðferð eins og er og virðist vera í flestöllum tilvikum að því er varðar þessa stóru sjóði.

Við skulum taka Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Hvað gerist þar? Það er einn og sami sjóðurinn. Það er allt ávaxtað á þessu svæði og síðan í skömmtum sent út til okkar hinna. Hvað gerist með sparimerkjakerfið? Hvar er það ávaxtað? Það er allt á einum stað, hér á þessu svæði, og deilt út til okkar hinna. Hvað gerist með orlofsféð? Það hefur verið rígbundið hér í Póstgíróstofunni og útdeilt héðan, ávaxtað hér. Ég er andvígur því að byggja upp eitt kerfi til viðbótar með þessum hætti. Eg er sammála meginhugmyndum þeirra sem þessa þáltill. flytja. Það á að vera eitt kerfi að því er varðar lífeyrisréttindin, en það á að vera deildaskipt, ávaxtað í fjórðungunum. Þar með gæti ég lokið máli mínu í þessu tilfelli, en ég ætla að segja örfá orð til viðbótar.

Ég hef sjálfur tekið þátt í því að reyna að brjóta á bak aftur kerfið að því er varðar ávöxtun orlofsfjár og ég hygg að það hafi tekist fyrir nær fjórum árum. Hvað þýðir það? Það þýðir t.d. á Vestfjörðum, þar sem orlofsféð er ávaxtað innan þeirra peningastofnana sem þar eru, að síðasta orlofsár mun það nema um 130-150 millj. kr. sem er ávaxtað í héraðinu vegna þess að ávöxtunin á sér stað á þeim stöðum þar sem fjármagnið fellur til. Þetta eru 130-150 millj. kr. sem ella hefðu farið suður í Seðlabankann og síðan verið deilt héðan út. (Iðnrh.: Til Vestfjarða.) Að litlum hluta. Gerum þetta einfalt. Við skulum segja að það væri svipað með Atvinnuleysistryggingasjóðinn, hlutfallið 130-150 millj. á Vestfirði, og svipað með sparimerkjamálið. Þá eru menn komnir strax í um 400 millj. kr. sem mundu ávaxtast á Vestfjörðum með breyttu kerfi í staðinn fyrir að ávaxta það á Reykjavíkursvæðinu. Og hverjum kemur að gagni að ávaxta það heima? Auðvitað þeim sem leggja til þetta fjármagn. Og það eru þeir sem eiga fyrst og fremst að njóta þess, þeir og þau byggðarlög sem þetta fólk byggir á að njóta ávaxtanna af þessu númer eitt. Það er þetta sem ég taldi fyrst og fremst að ég þyrfti að koma á framfæri við þessa umræðu. Það er númer eitt. Auðvitað eigum við að jafna lífeyrisréttindin. Ég gæti vel hugsað mér að setja upp einn lífeyrisréttindasjóð fyrir alla landsmenn sem er síðan deildaskiptur eftir fjórðungum eða landsvæðum, fjármagnið ávaxtað á stöðunum þar sem það fellur til þannig að það komi þeim að gagni sem leggja það til.

Ég get út af fyrir sig vel fallist á það og tel það ekkert óraunhæft að þjóðin fái sjálf að segja til um þetta. Kannske höfum við gert of lítið að því að þjóðaratkvæðagreiðsla sé viðhöfð. Við eigum kannske að gera meira að því í ýmsum tilteknum stórmálum að láta þjóðina segja sitt. Ég held að það komi vel til greina í þessu tilfelli að þjóðin fái að segja sitt álit á þessu. En ég legg áherslu á að fyrir liggi áður en slík þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram þau grundvallarsjónarmið hvað á að gera í framkvæmdinni. Á að setja þessa stjórn á stofn hér og deila út þaðan eða á stjórn slíks lífeyrissjóðs að vera deildaskipt og féð að ávaxtast í kjördæmunum eða á svæðunum þannig að fólkið sjálft njóti ávaxtanna af þeim peningum sem það framleiðir þjóðarbúinu til farsældar?