06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. flm. gat um flutti hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson árið 1975 frv. til l.um Lífeyrissjóð Íslands og endurflutti það frv. árið 1978. Síðan var það frv. með nokkrum breytingum flutt af mér og fleiri þm. Sjálfstfl. 1980 og 1981. Hér var um að ræða svokallað gegnumstreymi og skal ég ekki fara út í að skýra það nánar, en á þeim tíma, sérstaklega þegar frv. var flutt á síðari árunum 1980 og 1981 var sýnt að mikil verðbólga mundi halda áfram a.m.k. næstu misserin og lífeyrissjóðirnir voru raunar brunnir upp til ösku. Það var eina orðið yfir það. Það var allt rétt sem hv. flm. sagði um þá þróun sem þá hafði orðið. Verðbólgan hafði étið sjóðina upp, ekki síst yngri sjóðina og þá sem mikilvægastir voru, þ.e. sjóði verkamanna og fátækasta fólksins og þess fólks sem mest þurfti á lífeyrisréttindum að halda. Þess vegna var það út af fyrir sig mjög leitt að þessi frumvörp skyldu ekki ná fram að ganga óbreytt eða breytt. Um það náðist ekki samstaða, enda mjög vandmeðfarið, það skal ég fyrstur manna játa.

Ég reyndi nokkuð að setja mig inn í þessi mál, eyddi í það allmiklum tíma á þessum árum, og eftir því sem maður kynntist sjóðakerfinu meira, eftir því varð maður ruglaðri og vonlausari um að geta fundið heilbrigða lausn nema því aðeins að fyrst tækist að ráða niðurlögum verðbólgu eða lækka verðbólgustig a.m.k. og verðtryggja sjóðina, öll lán úr þeim, þannig að einhver von væri til að fé gæti safnast upp til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum sérstaklega þess fólks sem mesta þörfina hafði eins og ég áðan sagði. Við fundum þess vegna ekki aðra leið en að stinga upp á gegnumstreymi þannig að þeir sem væru á besta starfsaldri greiddu féð inn, en þeir sem áður hefðu greitt í sjóðina fengju réttindi þó að verðbólgan hefði brennt upp þeirra fjármuni.

Vel má vera að það þurfi ekki á gegnumstreymi að halda nú vegna breyttra aðstæðna, verðtryggingar og lægri verðbólgu. Vonandi að hér verði ekki meiri verðbólga en í nágrannalöndunum og þá er þetta auðvitað allt saman einfaldara í sniðum. Ég held þó að það megi gjarnan skoða það að hafa kerfið með einhverjum hætti tvöfalt þannig að bæði sé um gegnumstreymi að ræða og eins heilbrigða fjármögnun þeirra peninga sem fyrir hendi eru.

Ég er þakklátur fyrir að hv. 1. flm. og þeir væntanlega allir, flm., vilja gott samstarf um þetta mál og rekja söguna af fullum drengskap og það skal heldur ekkert af því skorið að Alþfl. átti mikinn þátt í almannatryggingum, kannske mestan eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði, á sínum tíma, og vissulega hafa Alþýðuflokksmenn haldið því máli vakandi. Ég man ekki betur en Haraldur Guðmundsson hefði forgöngu um það og raunar væri á vegum ríkisins á sínum tíma að safna saman upplýsingum um einn almennan lífeyrissjóð í nágrannalöndunum og frv. hefði þá verið smíðað sem dagaði raunar uppi.

Það er viðkvæmt fyrir þá sem eru aðilar að sterkum sjóðum og hafa greitt í þá lengi að sameinast öðrum veikari, en í frv. sem Guðmundur H. Garðarsson flutti upphaflega og við aðrir sjálfstæðismenn síðar var gert ráð fyrir því að þeir sjóðir gætu haldið áfram og raunar er að því vikið líka í þeirri þáltill. sem hér er fram lögð og er það vel að menn reyni að finna þarna eitthvert jafnvægi þannig að sæmileg eining gæti náðst um lausn þessa gífurlega mikilvæga vandamáls. Það er líka rétt að þeir sem betri aðstöðu hafa í þjóðfélaginu, margir hverjir, t.d. opinberir starfsmenn sem hafa verið í hæstu stöðum og kannske mörgum lífeyrissjóðum, hafa mjög góðan lífeyri. Mér er sagt að það sé ekki alveg einsdæmi, það séu allmargir menn sem hafi stórhækkað í tekjum eftir að þeir hættu að vinna og fóru að fá greiðslurnar í lífeyrissjóðum. Þetta eru menn sem eru allra góðra gjalda verðir og hafa unnið sitt lífsstarf með sóma, en engu að síður er það nú nokkuð hart á að horfa að sumir hækki þegar þeir hætta vinnu og fá ekki lengur launatekjur en aðrir hafi ekki til hnífs og skeiðar, hafi nánast ekki neitt af því að sjóðirnir eru brunnir til ösku.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál efnislega. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að á þessu verði að verða bragarbót fyrr en síðar. En mér finnst að Alþingi ætti að reyna að manna sig upp í að vinna þetta mál lengra og betur en orðið er, ef ekki það Alþingi sem verður nú stutt sjálfsagt að þessu sinni, þá a.m.k. það Alþingi sem saman kemur á hausti komanda.

Ég held ekki að það bæti neitt um að fara að leggja þetta mál undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að Alþingi eigi að sýna þann manndóm að leysa þetta mál, kannske með einhverjum ágreiningi og atkvæðagreiðslum hér innan dyra, en ekki að gefast upp fyrir málinu. Ég held að það þurfi heldur ekkert að leggja þetta undir þjóðaratkvæði. Ég held að 99,99% þjóðarinnar hljóti að vera sammála um að það verði að gera þessa bragarbót. Þess vegna á ekkert að vera að láta greiða atkvæði um hana í þjóðaratkvæðagreiðslu að mínum dómi án þess að hún sé þá fullbúin. Þetta er ekki enn þá, því miður, hvorki þáltill. né heldur frumvörpin sem flutt voru, svo fullskapað að það sé hægt að segja bara já og nei við hverri einstakri grein þar, enda ekki til þess ætlast raunar í þáltill.

Þetta er þó ekkert aðalatriði. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta stundum verið eðlilegar. Þær eru tíðkaðar í ýmsum ríkjum, t.d. í Sviss og víðar, og menn eru þar vanir þeim. Við erum ekki vanir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál. Við treystum því að Alþingi taki af skarið í því efni og má f.d. nefna bjórmálið. Öllum finnst það furðulegt að alþm. skuli ekki geta sagt annaðhvort já eða nei við því hvort það eigi að brugga bjór, ætla að fara að leggja það undir þjóðaratkvæði. Mér finnst ósköp einfalt mál að það eigi að ganga hreint til verks. En það mál er svo miklu, miklu minna í sniðum en það sem við erum að ræða um hér sem varðar lífsbjörg mikils fjölda landsmanna, einmitt þeirra sem búa við lök kjör, allt of lök kjör, og eiga svo í vændum að hafa ekkert þegar þeir hafa lokið lífsstarfi sínu.

Við skulum þess vegna ekki stofna til illdeilna, a.m.k. ætla ég ekki að gera það, heldur einmitt að reyna að sameinast um að koma þessari till. til nefndar og ræða málið síðan efnislega og ég er þakklátur fyrir að málinu skuli hafa verið hreyft með fullum drengskap eins og gert er.