06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka þann stuðning og skilning sem hér hefur komið fram á þessu máli. En það hefur bara komið fram áður bæði stuðningur og skilningur og það hefur ekkert gerst og það er það sem er hrikalegt vandamál. Það var skipuð sautján manna nefnd og átta manna undirnefnd, tíu ára gömul, og vandamálin liggja óleyst. Að mínu viti þarf hér pólitíska ákvörðun. Það þarf pólitíska ákvörðun um stefnumörkun. Vitaskuld er engin tilviljun að hér skuli flutt þáltill. um þjóðaratkvæði. Það er vegna þess að umræðurnar hafa ekki leitt til aðgerða. Það er vegna þess að það hafa ævinlega verið einhverjir í þjóðfélaginu sem hafa dregið lappirnar. Það getur verið að mat hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar um að 99% þjóðarinnar vilji einn sameiginlegan lífeyrissjóð sé rétt, en ég hafði ekki gert ráð fyrir því að það væri alveg svona hátt. En ég er sannfærður um að það er yfirgnæfandi vilji þjóðarinnar að það sé gert og hefur verið lengi, en það gerist ekki neitt.

Nú talar hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson um það að í næstu viku leysist málin. Þessi nefnd er búin að skila ýmsum lagabútum hér inn áður og við erum með níu stykki gildandi lög í landinu um lífeyrissjóðina. Margt af því er frá þessari nefnd, en samt er kerfið eins og það er.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson talar um að nú muni nást samkomulag, að vísu með sérálitum, eins og hann bætir við. En hvers konar samkomulag er það? Ég verð því miður að segja, ég er búinn að ræða þessa lífeyrissjóði við mjög marga, að andstaðan gegn því hefur einungis komið frá einum hóp, þeim sem eru í forsvari fyrir lífeyrissjóðina í landinu. Mig grunar að þeir séu ekki í takt við fólkið í landinu. Það vill þetta. Ég vona að nú takist okkur hér á Alþingi að komast í gegnum þetta mál og taka þá pólitísku ákvörðun sem er nauðsynleg. Ef menn geta náð samstöðu og mótað stefnumörkun út frá því sem hér er lagt fram og ákveðið að það skuli tekinn upp einn sameiginlegur lífeyrissjóður eftir þeim línum sem hér eru lagðar þarf ekki þjóðaratkvæði, en tillagan er um þjóðaratkvæði vegna þess að Alþingi hefur aldrei tekið á málinu og það er nauðsynlegt að þjóðin fái þá að segja álit sitt og skera úr. Þetta er ekkert einsdæmi. Þetta hefur verið gert. Með þessum hætti komu menn á sameiginlegum lífeyrissjóði allra landsmanna í Svíþjóð. Það var með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar voru held ég fjórar eða fimm valspurningar sem menn gátu fengið að velja á milli.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði: Hvernig á spurningin að vera? Ég ætlaði ekki að flækja málið mikið. Spurningin er: Vilja menn að tekinn verði upp einn sameiginlegur lífeyrissjóður allra landsmanna sem sé uppbyggður eftir þeim meginlínum sem hér um ræðir, ekki bara um það hvernig réttindin muni verða heldur líka hvernig eigi að fara að því að koma honum á? Því er lýst hér í stuttu máli. Ef menn hafna því sitja menn í sömu sporum.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sem kallaði fram í áðan og sagði: En forréttindastéttirnar eru eftir. En guð minn góður. Ef við gerum ekki neitt hvar stöndum við þá? Eru ekki forréttindin nákvæmlega þau sem þau eru?

Hv. þm. Stefán Valgeirsson talaði um að ýmsir væru með greiðslur úr mörgum sjóðum og margfaldan lífeyrisrétt og hækkuðu í launum þegar þeir hætta að vinna. Þetta er sjálfsagt mikið rétt. En hver er einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir það? Að allir séu í einum sameiginlegum lífeyrissjóði því að þá eru réttindin samræmd.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði að þetta mál þyrfti ítarlega kynningu. Það er hárrétt. Auðvitað þarf það ítarlega kynningu. Þetta er eitt af fyrstu málum þingsins núna. Við getum rætt þetta í þinginu. Það er hægt að ræða þetta úti í þjóðfélaginu. Og auðvitað, ef það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu, verður það rætt í þjóðfélaginu. Það gerðist í Svíþjóð þegar Svíar höfðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var rætt meðal þjóðarinnar og þeir komu þá fram sem höfðu gagnrýni fram að færa eða vildu að menn héldu sig í sömu sporum eða höfðu einhverjar aðrar skoðanir. Þannig kemst umræðan í gang. Og umræða hefur nú einhvern tímann komist í gang á skemmri tíma en þeim tíma sem er til næstu kosninga. Við skulum ekki láta stranda á því. Við skulum hafa umræðuna í gangi. Ef menn eru tilbúnir til að samþykkja þetta í þinginu núna þarf auðvitað ekki þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég vil ekki bíða lengur. Tíu ára gömul nefnd hefur ekki komist lengra en raun ber vitni. Ár eftir ár hafa verið fluttar tillögur um þetta og ekkert gerist. Það þarf pólitíska ákvörðun í þessu máli.

Svo segja sumir, ég held að það hafi verið hv. þm. Karvel Pálmason sem sagði það reyndar fyrstur, að það sem skipti máli af hans sjónarhóli væri hvernig féð væri ávaxtað og þetta væri deildaskipt og væri ávaxtað úti í héruðum eða landsfjórðungunum. Guð minn góður! Ekki hef ég nokkurn skapaðan hlut á móti því. Ef þarf að kveða skýrara að orði um hvernig féð eigi að nýtast hinum ýmsu landsmönnum, að það sogist ekki í einn pott þar sem það nýtist misjafnlega, er það einfaldasta mál í heimi og ekki nokkur einasta ástæða til að láta málið stranda á því. Kemur ekki til greina. Við megum alls ekki láta svona stór mál, eins og hér hefur verið tekið undir, auðvitað er þetta stórmál, stranda á slíku atriði. Um það skulum við ræða ef það þykir ekki nógu tryggilega fram tekið í því sem hér er um fjallað.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið undir þetta. Mér var ánægja að því að hlusta á hv. þm. Guðmund H. Garðarsson ræða þessi mál því að hann talaði af þekkingu og reynslu. Hann sagði að það væru fjórir aðilar sem skiptu máli í þessu sambandi. Þar á meðal eru ríkið og Alþingi. Ríkið hefur nú fulltrúa sína hér á þingi þannig að afstaða Alþingis skiptir máli. Í því máli er um tvo kosti að ræða, að mínum dómi, annaðhvort að samþykkja að fara í þjóðaratkvæði eða samþykkja að þessi stefna skuli tekin upp. Það sagði fólkið. Ég er sannfærður um að fólkið vill þetta og einfaldasta leiðin til að ganga úr skugga um það er auðvitað að fara með þetta í þjóðaratkvæði. Síðan nefndi hann aðila vinnumarkaðarins. Þetta er samningamál. Þetta er kjaramál, hv. þm., það er hárrétt. En það er líka tekið á því í þessu hér og þegar menn eru að tala um hinn mismunandi lífeyrisrétt, eins og t.d. að opinberir starfsmann hafi meiri lífeyrisréttindi en svari til lífeyrisgreiðslna þeirra, er það partur af þeirra kjörum og það er ítarlega fjallað um það í þessari grg. hvernig með skuli fara vegna þess að vitanlega mun hinn nýi sjóður ekki geta veitt jafnmikil lífeyrisréttindi. En þetta er hluti af þeirra kjörum núna og þess vegna er gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn verði að velja hvað þeir vilja í framhaldi. Vilja þeir að hluti af þeirra kjörum verði umframréttur sem verði þá í viðbótarsjóði, umframlífeyrisréttur sem sé utan við þetta, eða vilja þeir fá það í launum og telja að þeir séu nægilega tryggir eins og þetta er hér? Við verðum einfaldlega að viðurkenna að svona er staðan núna og þetta er hluti af þeirra kjörum.

Á öllum þessum atriðum er leitast við að taka í till. Það er ekki einu sinni fyrirskipun um að þeir sjóðir sem nú eru starfandi skuli leggjast niður heldur er gert ráð fyrir að þeir geti starfað áfram ef þeir vilja, þeir skuli eiga þess kost að flytja eignir sínar og skyldur inn í hinn nýja sjóð. Og ef þeir óska eftir inngöngu verða eignir þeirra og skyldur metnar. Ef það mat gefur til kynna að eignir þeirra séu meiri en svarar til þeirra réttinda og skyldna sem þeir hafa ráða menn því hvort þeir deila út afgangnum af sjóðunum. En ef, eins og líklegt er að komi upp í mörgum tilvikum, eignirnar hrökkva ekki til að greiða félögum í sjóðunum það sem þeim hefur verið heitið er hér lágmarksákvæði um að ríkið tryggi að félagarnir fái a.m.k. 85% af því sem þeim hefur verið heitið og ríkið hlaupi undir bagga. Verður það ekki dýrt? spyrja menn. Nei, það verður ekki dýrt vegna þess að að öðrum kosti mundi þetta fólk lenda í tekjutryggingarflokknum. Það eina sem menn hafa gert er að stela af því peningunum sem það var búið að greiða í lífeyrissjóðakerfið. Það er þess vegna sem verið er að setja undir þennan leka hér. En sú hörmulega staðreynd viðgengst að menn hafa greitt árum, áratugum saman í lífeyrissjóð og fá sama og ekkert út úr kerfinu. (JBH: Þetta er tilboð sem erfitt er að hafna.) Rétt, það er verið að gera þeim tilboð sem erfitt er að hafna og ég vona að þeir beri gæfu til þess, ef þetta verður samþykkt, að sameinast í þessum sjóði. En vitaskuld er staðreyndin sú, og það verða menn að hafa í huga, að samkvæmt þessari till. rennur ekki einn einasti eyrir í neinn annan sjóð en hinn eina sameiginlega lífeyrissjóð eftir 1. janúar 1991 og þeir sjóðir sem hugsa sér að starfa áfram eftir þann tíma gera það á grundvelli þeirra eigna sem þeir eiga þá og þeirra réttinda sem þeir hafa lofað starfsmönnum sínum fram til þess tíma. En eftir það byrja menn að safna réttindum í hinum nýja sjóði. Þannig er þetta hugsað.

Herra forseti. Það var mjög athyglisvert að heyra hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson tala um að þegar hann fór að reyna að kynna sér lífeyrissjóðakerfið varð hann bara ruglaðri og ruglaðri. Mér kemur það ekkert á óvart. En hvernig haldið þið að blessuðu fólkinu í landinu líði með þetta lífeyrissjóðakerfi þegar hv. þm., reyndar höfundur heillar hagfræðikenningar sem er við hann kennd, verður bara ruglaðri og ruglaðri við það að fara að reyna að kynna sér þetta? Hvernig haldið þið þá að fólkinu í landinu gangi að botna í þessu? Auðvitað er sannleikurinn sá að því gengur ekkert að botna í þessu. Það botnar hvorki í réttindum sínum né réttindaleysi.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var að tala um að til greina kæmi að það gæti verið gegnumstreymiskerfi að hluta, en hann viðurkenndi líka í reynd að eins og staðan er núna gengur ekkert annað en að vera með uppsöfnunarkerfi. Það er líka það kerfi sem við þekkjum. Það er auðveldast að byggja áfram á þeim grundvelli. Ég legg til að við getum skoðað það eftir 10-15 ár hvort það geti verið ástæða til þess að taka að einhverju leyti upp gegnumstreymisfyrirkomulag, en eins og staðan er núna kemur það ekki til greina og mín skoðun er reyndar sú að uppsöfnunarkerfi sé langtum tryggara en gegnumstreymiskerfi og þess vegna eigi menn að halda sig við það.

Menn segja margir: Þetta er flókið og vandasamt mál. Auðvitað er það bæði flókið og vandasamt. En það gerir enn þá brýnna að á því sé tekið og ákvörðun sé tekin. Menn geta horft til baka og sagt: Árið 1975 áttum við þennan svaka séns. Þá var auðvelt að gera þetta, sagði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ef ég man rétt. En nú er það erfitt. Auðvitað geta menn séð eftir því að það var ekki gert árið 1975, en það firrir okkur ekki því að við eigum ekki að gefast upp. Það gerir ábyrgð okkar enn þá meiri. Við verðum þá að taka á málinu núna og ekkiláta það bíða enn þá lengur þegar það er kannske orðið enn þá erfiðara.

Ég held að þetta mál sé ekki svo erfitt, ekki svo flókið að það sé ekki viðráðanlegt. Og ég tel, herra forseti, að í þeirri grg. og tillögugrein sem hér liggur fyrir hafi verið farið vandlega ofan í öll helstu atriði sem máli skipta í þessu efni og að menn geti af þessu ráðið þá meginlínu sem um er að ræða, þá meginlínu sem á að vera fær, þá meginlínu sem felur það ekki í sér að það eigi að brjóta á neinum, þá meginlínu sem felur það í sér að þau réttindi sem menn hafa núna eru öll viðurkennd, þá meginlínu sem felur það í sér að réttindi allra verði tryggari og öruggari í framtíðinni.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Mér þykir vænt um góðar undirtektir undir þetta mál. Við flm. erum reiðubúnir til samstarfs við alla aðila. En mér er mjög í mun að málið verði afgreitt og ég heiti á alla þá sem hafa sýnt góðan vilja og aðra þá sem hér hafa verið og jafnvel þá sem eru fjarstaddir að gangast í þetta mál svo það óréttlæti og það ranglæti sem viðgengist hefur í þessum málum taki enda og ákvörðun verði tekin um að koma á réttlátu og skynsamlegu kerfi.