06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig rétt athugað hjá hv. síðasta ræðumanni að hér þarf pólitíska ákvörðun og trúlega fá menn tækifæri til að taka pólitíska ákvörðun í ljósi þess hvað almenningur í landinu vill. Komi ekki í ljós pólitísk ákvörðun áður en til næstu alþingiskosninga verður gengið fá menn kannske umboðið þar til að taka pólitískar ákvarðanir.

Hv. þm. Ég ætla að taka það fram strax að ég taldi mig heldur mæla með þessu máli en gegn því. Að vissu leyti er ég með. (JBH: Fór það eitthvað milli mála?) Já, mér heyrðist það á hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, en hann hefur misskilið það væntanlega. Það sem býr mér í brjósti, og ég er ekki viss um að menn setji sig alveg inn í það, er það. . . (JBH: Hv. þm. talar ekki nógu skýrt.) Hv. formaður Alþfl. ætti að sitja kyrr og hlusta. - Mér finnst að það hafi of mikið fjármagn verið dregið frá landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið. Af hverju held ég þetta? Finnur þetta enginn nema ég? Mér fannst á hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Verkamannasambandsins, að honum vefðist nánast tunga um tönn þegar hann talaði um þennan hlut. Hann var tregur í taumi til að taka undir þetta sem samnefnari ekki síst landsbyggðarfólksins. (GJG: Ég viðurkenndi þetta.) Það var dræm viðurkenning, hv. þm. Við skulum fá útskriftina.

En af hverju segi ég þetta? Það var í lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð á sínum tíma í upphafi að fjármagnið skyldi ávaxtað í heimabyggð. Það var held ég framkvæmt á einum eða tveimur stöðum á landinu. Og af hverju var það ekki gert? Vegna þess að kerfiskarlarnir neituðu því. Hvaða kerfiskarlar? Hér í Reykjavík. Sú var reynslan og nákvæmlega sömu reynslu fékk ég við mín afskipti er ég barðist fyrir breytingu á ávöxtun orlofsfjárins. Kerfiskarlarnir í Reykjavík, bankastjórarnir í Reykjavík sumir hverjir, Póstgíróstofan hér í Reykjavík, hæstv. ráðh. félagsmála börðust gegn þessu. Er ástæða til annars en að menn séu svartsýnir á að það sé nauðsyn að taka sérstaklega fram um hvar fjármagnið er ávaxtað?

Ég er ekki í neinum vafa um að almenningur í landinu vill breytingu á því kerfi sem nú er. Það er enginn vafi á því. Á því eru margir gallar. En ég tek eigi að síður undir með hv. þm. Guðmundi Garðarssyni að þeir sem að þessu hafa unnið hafa a.m.k. talið sig gera og hafa gert vel í þessum efnum, en allt er þetta breytingum háð.

Ég segi fyrir mig og ég spyr hv. þm., ég tala nú ekki um dreifbýlisþingmennina, þeir ættu a.m.k. að skilja það og ég hygg hinir líka, hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki, það er svo annað mál: Skiptir það engu fyrir atvinnulífið við skulum segja á Vestfjörðum og fólkið sem þar býr að bæta við kannske 500-660 milljónum á ári í ávöxtun í heimabyggð í staðinn fyrir að senda það suður í Reykjavík? Skiptir ekki meginmáli fyrir íbúana á þessum svæðum hvar fjármunirnir eru ávaxtaðir? Það er stórmál í mínum huga. Það er líka stórmál í mínum huga ásamt hinu að auka og varðveita lífeyrisréttindi þess fólks sem við erum hér að tala um. Og ég bið menn að gleyma því ekki. Ég lít á þennan þátt málsins sem stórmál. Ég sagði hér áðan að ef okkur tækist að fara þá leið með einum lífeyrisréttindasjóði, deildaskiptum, með ávöxtun í heimabyggð er málinu vel borgið, en því er ekki nógu vel borgið með því að hafa bara einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Við verðum að koma því til skila hvernig á að ávaxta féð og hvar það á að gera og við verðum að gera meira en að setja það á blað, við verðum að framfylgja því. Við getum ekki liðið það öllu lengur að kerfiskarlar ráði því hvort lög eru brotin eða ekki. Það gengur bara ekki fyrir Alþingi. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði að ég treysti ekki öðrum á Vestfjörðum fyrir lífeyrissjóði Bolvíkinga. Ósköp einfalda menn þetta. Hv. þm. Finnst þér þetta rétt? Það gilda í mínum huga miklu æðri sjónarmið en hv. þm. var að tala um, þau sjónarmið að það komi þeim sem leggja til féð að því gagni sem mest má verða. Og hvar er því best borgið? Er því betur borgið í höndunum á hv. þm. í Reykjavík en fulltrúum þess fólks sem byggir staðinn? Það er algjör hugsanaruglingur hjá hv. þm. að tala með þessum hætti og á engan hátt samboðinn okkur. (GJG: Er ekki sjálfstæður lífeyrissjóður í Bolungarvík?) Hann er sjálfstæður, jú. Og til hvers sjálfstæður? Til þess að heimafólkið ráði, ekki aðrir. Það er tilgangurinn. (GJG: Ísfirðingar hyggjast skipta sér af því.) Ha? Geta þeir skipt sér af því? (GJG: Svoleiðis að Ísfirðingar hyggjast skipta sér af því.) Ísfirðingar? Það er enginn að tala um Ísfirðinga í þessu efni. Þeir ráða fyrir sig. Af hverju á ég að skipta mér af því? Ég legg ekki allt undir, bæði land og mið, eins og hv. þm. vilja gera hér, Guðmundur J. Guðmundsson. Mér nægir bara heimaslóðin, fer ekkert lengra. (SJS: Er það nú alltaf?) Það er alltaf, já, hv. þm. Steingrímur Sigfússon. Mér nægir yfirleitt heimaslóðin og reyni þá að þjóna henni betur en að leggja allt undir og káfa og vasast í öllu. Það þjónar litlum tilgangi.

Nei, Guðmundur J. Guðmundsson. Þetta er ekki minn hugsanaháttur. Ég treysti ýmsum mönnum fullkomlega, en ég vil sjá afraksturinn hjá því fólki sem leggur til fjármagnið. Það þjónar atvinnurekstrinum, það þjónar launþeganum, það þjónar byggðarlögunum sem eiga undir högg að sækja vegna þeirrar fjármálastefnu, sem ríkt hefur í landinu um áraraðir, að soga allt fjármagn hingað á Reykjavíkursvæðið. Það er það sem ég vil fyrirbyggja með mínu tali að því verði dengt hér inn til viðbótar því sem fyrir er og sogað allt fjármagn af landsbyggðinni hingað til Reykjavíkur.

Ég get tekið undir að það verður kannske ekki langt í að lífeyrisréttindamálin verði orðin svipuð og skattamálin eru í dag, sú svívirða sem ríkir í skattamálum. Það verður trúlega ekki langt að bíða eftir því að breytingarnar verði svo miklar að við sjáum álíka dæmi þar eins og er í skattamálunum. Nú er svo komið að almenningi í landinu ofbýður hvernig skattamálin hafa þróast. Menn geta sagt löglegt en siðlaust, það skiptir engu máli, en óréttlátt er það svo úr hófi gengur hvernig skattlagningin er.

Ég tek undir með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Auðvitað látum við þetta mál ekki stranda á því hvernig ávöxtunin verður. Við komum því til skila. Það verður líka spurt um það og ekki skal standa á mér. En þennan þátt verður að taka inn. Ég hygg að ég tali fyrir munn flestra dreifbýlisbúa þegar ég segi: Við líðum ekki lengur að meira fjármagni verði safnað saman á þetta svæði til útdeilingar til okkar eftir hentisemi en nú þegar er gert. Við eigum að krefjast þess að það verði snúið til baka og það verði meiru haldið eftir í fjórðungunum en nú er. Það er kannske spurning um hvort við getum snúið af þeirri óvissubraut, þeim þrengingum sem nú herja á landsbyggðina, vegna þess hvernig fjármálastefnan í landinu er.