06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það var alrangt hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að ég hafi ráðist gegn þeim sem hafa starfað í þessum sjóðum. Eins og ég gerði hér grein fyrir kemur m.a.s. fram í grg. að ég tel að þeir hafi gert eins vel og þeir hafa getað miðað við aðstæður. Hins vegar fer ég ekkert ofan af því, enda hefur það verið staðfest hér í umræðunum, að andstaða gegn því að koma á einum sameiginlegum lífeyrissjóði hefur m.a. komið frá forsvarsmönnum innan þess sjóðakerfis sem við búum við núna, og það var staðfest af hæstv. félmrh., og það var staðfest af hv. þm. Karvel Pálmasyni (KP: Frá sumum þeirra.) að sumir þeirra hefðu einmitt sýnt því máli andstöðu.

Ég mótmæli því líka, sem mér fannst koma fram í málflutningi hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, að ég sé með einhver upphlaup hér, einhver pólitísk upphlaup. Ég hef marglýst því yfir að ég hafi óskað eftir pólitískri samstöðu sem víðtækastri um þetta mál. En ég ítreka það að hér þarf pólitíska ákvörðun, öðruvísi verður ekki komist fram úr þessu máli.

Ég mótmæli því líka sem kom fram í málflutningi Guðmundar H. Garðarssonar, eða mátti á honum skilja, að ég væri að einfalda um of þetta mál. Ég hef margviðurkennt að það væri flókið. En það vitlausasta sem menn geta gert er að gera mál flóknara en það er. Það eigum við ekki að gera. Þeirrar tilhneigingar þótti mér gæta hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni.