06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Örstuttar athugasemdir. Það er rangt, sem hér hefur komið fram, að þessi tíu ára lífeyrisnefnd, sem er nú fræg orðin, sé að skila einhverjum sex eða átta tillögum eða hugmyndum. Hún er að skila uppkasti að lagafrv. sem allar líkur eru á að náist fullt samkomulag um og tryggt er að a.m.k. sjö nefndarmenn af átta styðja. Og hverjir eru í þessari nefnd? Það eru aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúi ríkisvaldsins. Hverjir vinna með þeim? Tryggingafræðingar. Allir kunnugustu menn sem um þessi mál fjalla. Þó að hv. 3. þm. Reykn. telji það að bera af sér sakir þegar Guðmundur H. Garðarsson segir hér að hann sé að einfalda málið, þá er það rétt hjá Guðmundi H. Garðarssyni. Hv. þm. er að einfalda málið mjög. Þessi nefnd er að skila ítarlegum tillögum í mjög flóknum málum. Það er rétt. Ég tók það fram í fyrri ræðu að þetta hefði þurft að vera löngu búið. Og á ýmsum sviðum, sér í lagi í fyrirtækjasjóðum ýmsum, er í þessu ófremdarástand. Og það er líka rétt að tekjutryggingin þarf að færast upp á við þannig að bæturnar séu ekki hirtar úr lífeyrissjóðunum. Ég veit ekki hvort það er mikill ágreiningur efnislega. Ekki er ég „prinsippíelt“ á móti einum lífeyrissjóði. Það sem ég legg bara fyrst og fremst upp úr er að vinna þessara manna, sem loksins hafa nú náð saman, sem hafa fjallað um þetta mál lið fyrir lið, sem er mjög flókið og snúið, kemur til með að liggja í næstu viku í frumuppkasti að lagafrv., sem ætti að vera möguleiki á að ræða hjá öllum aðilum og fá niðurstöðu um. Ef engar niðurstöður kæmu hjá aðilum vinnumarkaðarins þá gæti komið til kasta Alþingis. Ég teldi það rangt að grípa inn í þetta á þessu stigi. Og ég vil minna á að í febrúarsamkomulaginu í vetur s.l. eru mjög merkar till. einmitt í þessum lífeyrismálum. Svoleiðis að þetta er að gera hluti einfalda.

Ég vil bara ítreka: Þessi nefnd er að skila áliti, uppkasti að lagafrv. um hin flóknustu og vandasömustu mál. Í henni eiga aðilar vinnumarkaðarins og ríkisins sæti og þeim til aðstoðar eru helstu og hæfustu tryggingafræðingar þjóðarinnar. Sex og átta hugmyndir er hún ekkert að leggja fram. Það er rangt. Og það er óheiðarlegt að vera með slíkan málflutning hér. Ég vil sjá þessar tillögur og ég vil ræða þessar tillögur, bæði í mínu félagi, í Alþýðusambandinu, í Verkamannasambandinu, en mér er alveg ljóst að það þarf að fá botn í þessi mál og bæta þarna um. En því má hins vegar skjóta að til athugunar: Vissu hv. flm. nokkuð af því að það var að koma niðurstaða hjá nefndinni?

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.