06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

82. mál, reiðvegagerð

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef ásamt með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni leyft mér að flytja till. til þál. um áætlun um reiðvegagerð. Tillögutextinn hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri áætlun um reiðvegagerð um landið. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Vegagerð ríkisins, einum tilnefndum af Landssambandi hestamanna, einum tilnefndum af skipulagsstjóra ríkisins og tveimur án tilnefningar.

Nefndin meti hver þörf er á nýjum reiðvegum, hvar varðveita skal gamla reiðvegi og hvar er heppilegast að reiðvegir liggi þannig að hestamönnum sé greið umferð um landið.

Nefndin skili áætluninni fyrir haustið 1987 þannig að framkvæmdir geti hafist samkvæmt henni sumarið 1988.“

Þannig hljóðar tillögugreinin.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að hestamennska nýtur sívaxandi vinsælda og sífellt fleiri sækja sálubót og hreysti í samfélag við hesta og til ferðalaga á hestum. Nú er það svo að með aukinni bílaumferð og bættum akvegum er umferð ríðandi fólks um marga þjóðvegi landsins orðin stórhættuleg og jafnvel ómöguleg. Á undanförnum árum höfum við sem kunnugt er unnið stórvirki í vegagerð en umferð hestamanna hefur ekki verið sinnt nema að mjög litlu leyti. Á árinu 1985 var t.d. einungis varið um 400 þús. kr. til reiðvegagerðar á fjárlögum og 1 millj. á þessu ári. Þetta er auðvitað allsendis ófullnægjandi. Nú þarf reiðvegagerð ekki að vera mjög dýr ef staðið er að henni af fyrirhyggju og sums staðar hefur Vegagerðin gætt þess við frágang vega, fyrir atbeina Landssambands hestamannafélaga, að reiðmönnum verði fær leið meðfram vegum. Þetta hefur hins vegar ekki alls staðar verið gert og af því hefur skapast slysahætta og leiðindi.

Vorið 1982 var gert samkomulag á milli Landssambands hestamannafélaga og ríkisins um gerð reiðvega, þannig að þess væri getið í útboði að það yrði að vera fær slóð fyrir hestamenn meðfram vegi. Því miður hefur þessu ekki verið framfylgt og vil ég þar ekki kannske eingöngu sakast við Vegagerðina. Þessu hefur ekki verið framfylgt alls staðar, en sums staðar hefur þetta verið framkvæmt. Ég nefni sem dæmi Sauðárkróksbraut í Norðurl. v., þar sem þess var gætt að ríðandi mönnum væri gert kleift að ferðast meðfram veginum. Þetta er þó reyndar ekki nógu góð lausn þó þarna sé þó ekki ófremdarástand. Í fyrsta lagi er nú Skagafjörður ekki eins fagur úr slóðinni þarna til hliðar við veginn eins og hann er frá öðru sjónarhorni og þetta er ekki skemmtileg reiðleið. Þar að auki er reynslan sú að lausir hestar leita upp á veginn og eru ekki fúsir að hlaupa meðfram veginum. Þeir leita upp á bundna slitlagið og af því skapast náttúrlega slysahætta og umferðartafir á leiðinni. Og það fer miklu betur á því að reiðvegir séu ekki lagðir alveg ofan í akvegum þar sem hægt er að koma því við.

Mörgum hefðbundnum reiðleiðum hefur verið lokað á síðari árum, reiðvegum sem farnir hafa verið frá alda öðli. Það þarf að skipuleggja umferð hestamanna. Hún á fullan rétt á sér og hún er nauðsynleg. Það þarf að skapa hestamönnum möguleika á því að ferðast um okkar góða land. Og það þarf ekki að vera mjög dýrt fyrirtæki. Það þarf að gera samkomulag við þá landeigendur sem eru hlutaðeigendur og slíkt samkomulag ætti í flestum tilfellum að vera auðfengið. Bændur vilja yfirleitt ekki loka landinu fyrir þjóðinni. Eignarréttinum á landinu er best fyrirkomið að minni hyggju þannig að bændur eigi jarðir sínar og upprekstrarfélög heiðarlönd. En það fylgir að sjálfsögðu sú kvöð að þjóðin öll geti notið landsins til útivistar. Og ég held að meðal bænda sé skilningur á þessu.

Hestamennska er mjög holl útivera og það er sjálfsagt að gera hana sem aðgengilegasta fyrir þá sem hana stunda. Ég undrast t.d. þolinmæði hestamanna hér í Reykjavík, með þá takmörkuðu aðstöðu sem þeim er fengin af hálfu borgaryfirvalda. Og sama má raunar segja um hestamenn í Kópavogi. Þeir eiga ekki margra kosta völ um reiðleiðir.

Ég tel að heppilegast sé að gera áætlun um það hver þörf sé fyrir reiðvegi um landið og hvar heppilegast sé að þeir liggi. Þannig mundu fjármunir og verktækni nýtast betur en ella því óhjákvæmilegt er að leggja stóraukna áherslu á þessar samgöngur.

Í niðurlagi grg. segjum við flm. frá því að Íslendingar hafi ferðast á hestum um landið frá upphafi Íslandsbyggðar og það sé óhæfa að gera þeim það ómögulegt nú. Þess ber að gæta að ríkisvaldið ver miklu fé til tómstunda og íþróttamála og einnig til lista. Hestamennska er hin göfugasta tómstundaiðja og auk þess bæði íþrótt og list þannig að eðlilegt er að verja allnokkru almannafé til að auðvelda fólki iðkun hestamennsku.

Ég vil að endingu geta þess að þing Landssambands hestamannafélaga, sem háð var um síðustu helgi á Egilsstöðum, þ.e. eftir að þessi till. kom fram, fagnaði þessari till. okkar einróma. Ég vil að endingu gera það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu fái allshn. till. til athugunar.