06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

82. mál, reiðvegagerð

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þessi till. er sjálfsagt góðra gjalda verð, en ég er ekki alveg viss um að hún sé tímabær. Mér leikur t.d. nokkur forvitni á að vita hvað flm. hugsa sér að þessar framkvæmdir muni kosta. Ég segi að ég hafi nokkrar efasemdir um að þessi till. sé fyllilega tímabær vegna þess að það háttar þannig til í sumum kjördæmum landsins að þar eru akvegir ekki bærilega bílfærir enn þá og gífurlegt verk óunnið til að bæta þjóðvegina þannig að fólk komist leiðar sinnar í hinum nauðsynlegustu erindagerðum. Á það jafnt auðvitað við um sjúkraflutninga og annað því um líkt. Ég er hér, svo að ég tali hreint út, að víkja að ástandi vega á Mýrum, í Norðurárdal og á meginhluta Snæfellsness. Þess vegna hef ég efasemdir um að það eigi að ráðast í væntanlega töluverðar framkvæmdir að reiðvegagerð áður en búið er að koma akvegum, þjóðvegum landsins, tengslum milli byggðanna, í þokkalegt horf. Þess vegna endurtek ég það, herra forseti, að ég hef efasemdir um hvort þessi tillaga sé tímabær, en með fullri virðingu fyrir þeim sem iðka hestamennsku og útilíf sem ég tek undir með hv. 2. þm. Norðurl. v. , 1. flm. þessarar till., að er vissulega hollt og gott og sjálfsagt æskilegt að sem flestir leggi stund á útivist og heilbrigði með þessum hætti.

Ég held að þarna þurfum við að raða hlutunum í forgangsröð og þegar við erum búin að gera þjóðvegakerfið bærilegt og uppræta helstu slysastaðina, sem eru á ákveðnum stöðum, t.d. í Norðurárdal. ákveðnum stöðum á Snæfellsnesi, í blöðunum í morgun var verið að segja frá einum slíkum stað á Austurlandi, þá held ég að væri tímabært að fara að sinna þessu skemmtiverkefni sem svo má kalla.

Hv. 1. flm. vék að eignarrétti á landinu. Okkur greinir þar sjálfsagt á. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað eigi bændur að eiga sínar bújarðir og heimalönd, en ég held aftur á móti að meginhuti landsins, þ.e. afréttirnir, eigi ekki að vera eign einstakra bænda þó þeir myndi með sér félag um það heldur sé það eign þjóðarinnar. Það er sem betur fer svo að það er skilningur á því hjá velflestum og örugglega langflestum bændum að almenningur eigi umferðarrétt um náttúru landsins. En það eru undantekningar á því sem þéttbýlisbúar fá stundum illilega að kenna þá. Ég þekki þess meira að segja nýleg og mjög leiðinleg dæmi. En sem betur fer, og það endurtek ég, eru það hreinar undantekningar að ég hygg þegar fólk verður fyrir slíkri framkomu. Þetta er annað mál og stærra. En ég lýsi vissum efasemdum um að það sé tímabært að leggja mikla peninga í að gera reiðvegi um landið meðan okkur hefur ekki tekist að gera bærilega þjóðvegi um landið og ég held að það eigi alveg tvímælalaust, herra forseti, að hafa forgang.