06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

82. mál, reiðvegagerð

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, 5. landsk. þm., þar sem hann efaðist um að till. væri tímabær, þá vil ég mótmæla því. Ég held að hún sé fyllilega tímabær. Hann miklar fyrir sér þann kostnað sem af þessu muni leiða. Ég vil minna á að við erum ekki að leggja til að draga stórlega úr akvegagerð um landið. Það er síður en svo. En ég held hins vegar að það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera áætlun um hver þörfin sé og starfa eftir henni. Það þarf ekki í öllum tilfellum að kosta peninga.

Í fyrsta lagi er það að eyðileggja ekki hefðbundnar reiðleiðir sem fyrir eru, loka þeim ekki með girðingum eða gera hestamönnum þær ófærar með öðrum hætti. Í öðru lagi vil ég minna á að slóðir fyrir hesta eru ekki dýrar. Það kostar ekki ræsagerð, en sums staðar kannske ofurlitla skurðgröfuvinnu þar sem þannig háttar til. Að öðru leyti er hentugt að hafa þetta ýtuslóðir. Það er reyndar ekki sama hvernig þetta fer í landinu. Þess vegna tel ég að þetta þurfi að taka inn í annað skipulag landsins. Þess vegna tel ég að það sé nauðsynlegt að skipulagsstjóri ríkisins komi að þessari áætlunargerð.

Kostnaður við hvern kílómetra í reiðvegi er ekki mjög mikill og því held ég að það sé fyllilega tímabært að taka á þessu máli og treysti því að hv. allshn. Sþ. meðhöndli það með jákvæðum hætti og kanni með alvöru hvort nefndarmönnum sýnist ekki að athuguðu máli að till. þessi sé tímabær.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.