06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

84. mál, auglýsingalöggjöf

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég byrja á að þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa hreyft þessu máli. Hér er mjög merkilegt mál á ferð. Ég segi hins vegar strax, eins og hann raunar gaf mér tilefni til að segja undir lok sinnar ræðu, að ég hef efasemdir um að það eigi að kjósa níu þingmanna nefnd. Ég held að það sé ekki mjög góður háttur. Ég held að það væri strax betra ef nefndin væri fimm manna eða sjö manna. Ég held að níu manna nefnd sé of fjölmenn og ég held líka að sá tími sem gefinn er til starfa hér sé of skammur, þetta eru minni háttar atriði, og eðlilegra væri að þetta yrði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Ég hef alloft vegna setu minnar í útvarpsráði þurft að fjalla um svona mál og gert það að eigin frumkvæði vegna þess að það hafa verið auglýsingar í útvarpi eða sjónvarpi sem hafa misboðið annaðhvort réttlætiskennd minni, máltilfinningu eða bara velsæmiskennd. Stundum hefur það komið fyrir að útvarpsstjóri, og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, hefur vísað ágreiningi sem risið hefur um auglýsingar, þ.e. hvort birtar skuli, til útvarpsráðs. Það eru eiginlega held ég einu skiptin sem segja megi með sanni að útvarpsráð hafi beitt eins konar ritskoðun vegna þess að það hefur í vissum tilvikum hafnað auglýsingum. Og ég held að það hafi verið alveg rétt.

Ég held að það þurfi að setja um þetta miklu skýrari reglur en nú eru. Ég hef hins vegar efasemdir um að það sé hægt að taka þannig til orða að þetta verði heildarlöggjöf, en ég held að það þurfi að setja bindandi reglur um býsna margt þarna sem er laust og óbundið núna.

Hv. flm. minntist á að í Svíþjóð væru ítarlegar reglur um þetta. Það er rétt. Hann minntist líka á annað mál, neytendaupplýsingar sem þeir kalla konsumentoplysning. Þar eru mjög ákveðnar reglur um það og á umbúðum allrar vöru eru slíkar upplýsingar, um innihald, geymslutíma og annað, sjálfsagðir hlutir og sjálfsögð réttindi neytenda að eiga kost á slíkum upplýsingum.

Ég minni á líka að Evrópuráðið hefur sett að vísu ekki bindandi reglur fyrir aðildarríki sín en leiðbeinandi reglur um auglýsingar. Ég hef þær reglur m.a. undir höndum og hef kynnt mér þær.

Það er ákaflega margt sem hv. flm. vék að og freistandi væri að fara um mörgum orðum og það er ekki bara vegna þeirra tímamóta sem orðið hafa í fjölmiðlun hér á landi á undanförnum vikum sem þetta er brýnt. Þetta var löngu brýnt áður. T.d. hefur mér oft blöskrað það siðleysi sem blasir við á síðum blaða og tímarita þegar annars vegar er keypt auglýsing, eiginleg auglýsing, og hins vegar svo lofgrein um viðkomandi fyrirtæki eða vöru sem er stungið inn til hliðar. Þetta eru kallaðar textaauglýsingar á Norðurlöndum og er vaðandi uppi hér bæði í blöðum og tímaritum og er óskaplega hvimleitt og siðlaust fyrirbæri að mér finnst.

Notkun barna í auglýsingum orkar mjög tvímælis. Það hefur verið gengið býsna langt í þeim efnum hér, t.d. í sjónvarpsauglýsingum, oft miklu lengra en eðlilegt er og rétt. Það er nauðsynlegt að vernda rétt barna í þessu efni, þ.e. vernda þau fyrir því að þau séu notuð í auglýsingum og vernda þau fyrir því að þurfa að horfa á auglýsingar sem eru ekki boðlegar fyrir þau.

Svo vantar hér líka reglur um hlut sem hefur verið að færast í aukana erlendis, þ.e. að búnir eru til heilir sjónvarpsþættir með söguþræði sem eru auglýsing fyrir ákveðin leikföng. Þetta þekkjum við hér líka. Þetta er mjög óprúttin og lúmsk aðferð að löngun barnanna í ný leikföng.

Það hefur líka komið í ljós, held ég, að það þarf að setja reglur um það þegar menn gerast eins konar flutningsmenn ákveðinna þátta í sjónvarpi eða útvarpi, ef svo má segja. Á erlendu máli er þetta kallað „sponsorship“. Um það eru engar reglur hér á landi, því miður, og satt best að segja gætir þess í vaxandi mæli núna að maður sjái hluti í fjölmiðlum, t.d. í sjónvarpi og útvarpi, sem eru á mörkum þess að vera auglýsing og að vera dagskrárefni. En almenningur á auðvitað heimtingu á því að mörkin þarna á milli séu mjög skýr.

Mér stendur stuggur af því, eins og hefur þegar bryddað á, auglýsingum stjórnmálamanna um eigið ágæti í þessum frjálsu útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Mér stendur mikill stuggur af þeirri þróun. Í Ríkisútvarpinu eru alveg ákveðnar reglur um hvað stjórnmálaflokkar og stjórnmálasamtök mega auglýsa og ég held að það eigi að útfæra þær reglur yfir alla þessa fjölmiðla. Vilja menn að það verði lagður nýr skattur á alla þá sem ætla að taka þátt í stjórnmálum eða hugsa sér það og að það sé forsenda þess að þeir geti auglýst sig í útvarpi eða sjónvarpi fyrir eina eða tvær milljónir? Til hvers leiðir það? Það hefur í för með sér annað af tvennu: Annaðhvort geta engir tekið þátt í stjórnmálum nema þeir sem eiga milljónir til að auglýsa sig eða að þeir sem taka þátt í stjórnmálum fá milljónir til að auglýsa sig hjá einhverjum öðrum. Ég veit ekki hvort er verra.

Ég gæti, herra forseti, talað um þetta langt mál og það væri vissulega freistandi að gera það. Það eru vaðandi uppi hér í auglýsingum alls konar bullfullyrðingar, rangfærslur og della. Sumt misbýður skynsemi manns, annað misbýður máltilfinningu manns. Ég skal bara nefna tvö dæmi. Lengi hefur verið auglýst: „Gjöfin sem gefur arð.“ Hvernig gefur gjöfin arð? Fæ ég senda ávísun frá framleiðandanum á ársfjórðungsfresti eða eitthvað svoleiðis? Síðan er auglýst líka að tiltekinn drykkur sé algjört „success“. Það er dónaskapur við hlustendur að auglýsa svona. Reyndar gerðist ég svo djarfur að segja þeim sem auglýstu svona það nákvæmlega þeim orðum.

Ég held að þarna þurfi eftirlit hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Auglýsingar eru þáttur hins daglega lífs. Þær gegna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu vegna þess að góð auglýsing er líka upplýsing og hún er líka frétt. En hér eru, eins og fram hefur komið, vissar reglur um þetta. Það er svona og svona hvernig þeim er fylgt. Ég hef heyrt í útvarpsstöðinni nýju viðtal við athafnamann, kaupsýslumann. Það var rammað inn með auglýsingum frá fyrirtækinu hans á undan og eftir. Það segir líka í útvarpslögunum að það eigi að vera skýr skil milli auglýsinga og efnis. Það er ekki nema í Ríkisútvarpinu. Þetta er auðvitað umhugsunarefni. Hvaða aðili á að sjá til þess að reglum um fjölmiðlun og mannasiði í fjölmiðlum sé fylgt? Ég held að það vanti hér nefnilega aðila eins og er til í Bretlandi sem heitir á þeirra máli „Independent Broadcast Authority“. Það er eins konar útvarpsnefnd sem alltaf fylgist með því að lögum og siðareglum sé fylgt.

Ég gæti, herra forseti, vissulega talað um þetta töluvert lengra mál. Hér er hreyft mjög þörfu máli. Ég er kannske ekki alveg nákvæmlega sammála flm. um framkvæmdina, en hann á þakkir skildar fyrir að hafa hreyft þessu máli. Ég vildi satt að segja gjarnan hafa orðið til þess eða orðið meðflm. að því. En þetta er neytendamál, þetta er barnaverndarmál og þetta er mál sem varðar allan almenning. Ég held að við komumst ekki hjá því að setja um þetta löggjöf, kannske ekki heildarlöggjöf, en það eru ákveðin atriði, eins og börn, upplýsingar o.fl., sem við verðum að taka afstöðu til og sem við verðum að setja reglur um og því fyrr því betra.