10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 118 hef ég ásamt þeim Helga Seljan og Ragnari Arnalds leyft mér að flytja frv. um breytingar á sveitarstjórnarlögunum nr. 8 18. apríl 1986. Tillögurnar eru svohljóðandi:

„106. gr. laganna orðast svo:

Ráðuneytið skal vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir. Ráðuneytið skal beita sér fyrir viðræðum á milli forsvarsmanna sveitarfélaga um sameiningu og boða til funda sveitarstjórnarmanna á stærri svæðum til umræðu um sameiningu sveitarfélaga. Skal ráðuneytið vinna að þessu í samráði við einstök sveitarfélög, Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.“

Og 2. gr. frv. hljóðar þannig:

„108. gr. laganna breytist þannig:

a. 3. mgr. orðast svo:

Samstarfsnefnd skal starfa í samráði við ráðuneytið og skal það láta henni í té að kostnaðarlausu þá aðstoð er það telur nauðsynlega og úrskurða um vafaatriði er upp kunna að koma.

b. Á eftir 3. mgr. kemur ný mgr. er orðast svo: Ráðuneytið skal hlutast til um að fé verði veitt úr ríkissjóði til að styrkja fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna um leið og sameining á sér stað. Ráðuneytið skal gera fjárhagslega úttekt á viðkomandi sveitarsjóðum og fyrirtækjum þeirra og byggja fjárhagsstuðning á slíkri úttekt.

c. 4. mgr., er verður 5. mgr., orðast svo:

Þegar samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu um sameiningu og ráðuneytið gert fjárhagslega úttekt skulu viðkomandi sveitarstjórnir taka málið á dagskrá. Skal hafa tvær umræður um málið án atkvæðagreiðslu.“

Og 3. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hér eru á ferðinni tillögur svipaðar því er ég flutti sem brtt. við sveitarstjórnarlögin þegar þau voru til umræðu á síðasta vori. Hér er fyrst og fremst verið að leggja til að ráðuneyti verði falið að stuðla frekar að sameiningu sveitarfélaga og að ráðuneytið hafi fé til ráðstöfunar til þess að stuðla að því að styrkja sveitarfélög og jafna fjárhagslega aðstöðu sveitarfélaganna um leið og sameining á sér stað.

Það hefur átt sér stað mikil umræða mörg undanfarin ár um það að fámenni sveitarfélaga væri dragbítur á byggðaþróun og stæði í vegi fyrir því að þau gætu tekið að sér og sinnt ýmsum fleiri verkefnin en þau gera nú og hefðu ekki getu til að ráða við mörg af núverandi verkefnum. Einnig hefur verið í gangi mikil umræða um hið svokallaða þriðja stjórnsýslustig og margir hverjir hafa talið æskilegra að þróunin yrði á þann veg að það yrði stofnað til þriðja stjórnsýslustigsins en ekki leitað mjög eftir því að sveitarfélögin sjálf efldust á þann hátt að þau yrðu stærri með því að sameinast.

Sjálfsagt hafa hv. deildarþingmenn orðið varir við það að í fréttum nú í hádeginu kom sú frétt frá landsfundi framsóknarmanna að þar hefði verið uppi tillaga um að fundurinn mælti með því að flokkurinn ynni að því að stofnað yrði til hins þriðja stjórnsýslustigs, en eftir útskýringu forsrh., sem kom reyndar á eftir fréttinni, mátti heyra að þarna hefði verið eingöngu um það að ræða að þessu máli hefði verið vísað til miðstjórnar til frekari umfjöllunar. Þarna var þó ákveðin vísbending um það að sá stjórnmálaflokkurinn sem maður átti kannske síst von á að mundi gefa hreina yfirlýsingu um þetta væri á þeirri leið að leggja til að landsbyggðin reyndi að styrkja sig stjórnarfarslega á þann máta að þriðja stjórnsýslustigið yrði tekið fram fyrir það að vinna að því að sveitarfélögin yrðu efld og styrkt.

Í 5. gr. sveitarstjórnarlaganna sem samþykkt voru á Alþingi í vor segir að lágmarksíbúatala sveitarfélags sé 50 íbúar. Þá er verið að koma til móts við þær skoðanir okkar sem teljum að æskilegt sé að litlu sveitarfélögin sameinist og að svo smáar einingar eins og 50 manna sveitarfélög séu ekki heppileg í stjórnkerfinu. Mörgum fannst að markið hefði mátt vera hærra, t.d. 100 eða jafnvel 200–300 íbúar. Við sem flytjum þessar tillögur teljum að í lögum megi una við íbúatöluna 50 og það beri að forðast mikið valdboð í þessum efnum en með frjálsri sameiningu sveitarfélaga beri að stefna að því að þau verði flest með 300–500 íbúa og þar yfir.

Í framhaldi af þessari samþykkt í sveitarstjórnarlögunum stefnir að því að þessir litlu hreppar, sem hafa færri en 50 íbúa, verði sameinaðir og sú sameining hefur þegar átt sér stað a.m.k. á einum stað sem mér er vel kunnugt um, þ.e. í Klofningshreppi í Dalasýslu, þeim hrepp var skipt í tvennt, og í gær munu hafa farið fram sveitarstjórnarkosningar í þeim hreppum báðum sem þessi hreppur sameinaðist. Það munu vera 17 hreppar sem voru með færri en 50 íbúa og undirbúningur að sameiningu þeirra við nágrannahreppa mun vera í gangi.

Það er ekki aðeins það að þessi samþykkt hafi ýtt við eða komið því til leiðar að stefni að sameiningu þessara hreppa, heldur er komin í gang umræða á nokkrum stöðum á landinu um það að sameina fleiri hreppa. Þegar í það er farið að ræða það að sameina tvo hreppa á ákveðnu svæði kemur hugmynd upp um það hvort ekki sé réttara að sameina fleiri.

Það mun vera komið langleiðina að sameina fimm hreppa í Austur-Barðastrandarsýslu, þ.e. alla sýsluna. Kannske er of mikið sagt að þar séu rétt formsatriðin eftir en það er ekki langt frá því að svo sé. Ég tel það heillavænlega þróun en, því miður, á þessu svæði hefur þessi sameining verið nokkrum árum of seint á ferðinni, þó að segja megi að sameining eins og þarna á sér stað sé reyndar aldrei of seint, en hún hefði kannske betur mátt verða fyrr til þess að styrkja það byggðasamfélag sem þarna er.

Ég hef haft fréttir af því að í Vestur-Barðastrandarsýslu, eða hluta Vestur-Barðastrandarsýslu, séu uppi umræður um það að sameina jafnvel þrjá hreppa og sömu sögu er að segja úr Djúpi, þ.e. Ísafjarðardjúpi. Þar er í gangi umræða um það að sameina hreppana við innanvert Djúp.

Þessi svæði þar sem þessi umræða á sér stað eru öll svona á heldur fallanda fæti má segja. Þarna hefur átt sér stað mikil byggðaröskun og fólki hefur fækkað og nú er gripið til þess, kannske á síðustu stundu, að reyna að andæfa gegn þessari þróun með því að gera byggðirnar öflugri, með því að sameina þær í eitt sveitarfélag, og ég er viss um að það leiðir til þess að þessar byggðir verða öflugri og það samfélag sem verður byggt upp úr þessari sameiningu verður sterkara og hæfara til að sinna þeim verkefnum sem sveitarfélögin þurfa að sinna og einnig að taka við nýjum verkefnum sem æskilegt er að sveitarfélögin sinni.

Þessi umræða og þessi þróun sem ég hef nefnt bendir til þess að ef ríkisvaldið væri tilbúið að styðja fjárhagslega sveitarfélög þar sem áhugi á sameiningu er fyrir hendi og ríkið, þ.e. félmrn., beitti sér einnig fyrir kynningu og umræðu um sameiningu mundi sameining verða að veruleika a nokkuð mörgum svæðum á landinu. Ákvæði sveitarstjórnarlaganna um hvernig ráðuneytið skyldi vinna að stækkun og sameiningu sveitarfélaga er ekki nægilega markviss, einnig ákvæði um hver skuli vera þáttur þess við undirbúning sameiningar og hver skuli vera hlutur ríkissjóðs til þess að jafna fjárhagslega stöðu þeirra sveitarfélaga sem sameinast.

Með frv. þessu er lagt til að úr þessu verði bætt með breytingu á 106. gr. og 108. gr. laganna. Með frv. er lagt til að skýrar og ákveðnar sé kveðið á um hvernig ráðuneytið skuli standa að því að vinna að sameiningu og stækkun sveitarfélaga.

Eftir samþykkt þessa frv. mundi ríkissjóður greiða kostnað við undirbúning að sameiningu og einnig jafna fjárhagslega stöðu þeirra sveitarfélaga sem sameinuðust. Bæði þessi atriði eru í raun grundvöllur þess að sameining eigi sér stað að einhverju ráði á annan hátt en með valdboði.

Undirbúningur sameiningar kostar bæði fjármagn og fyrirhöfn og í upphafi slíks verks er erfitt að gera sér grein fyrir umfangi þess og niðurstöðu. Slík staða dregur úr áhuga og er líkleg til að koma í veg fyrir að málin séu athuguð.

Fjárhagsleg staða sveitarfélaga er mjög breytileg. Sú staðreynd kemur eðlilega í veg fyrir áhuga á sameiningu. Íbúar vel stæðs sveitarfélags hafa ekki áhuga á því að sameinast illa stæðu nágrannasveitarfélagi og taka að sér að standa undir skuldum þess.

Einmitt þessi staðreynd, að mismunandi fjárhagsstaða sveitarfélaga komi í veg fyrir sameiningu, er því miður fyrir hendi á ansi mörgum stöðum á landinu. Meira að segja verður maður var við þetta, þar sem uppi eru samstarfsverkefni eins og skólarekstur og annað í þeim dúr, að breytileg fjárhagsstaða sveitarfélaganna verður til þess að ekki er hægt að sinna ákveðnum verkefnum innan t.d. sama skólasvæðis vegna þess að sveitarfélögin eru mismunandi búin til að taka að sér fjárhagslegar skuldbindingar í sambandi við rekstur skóla. Það er nokkuð nöturlegt að hugsa sér að á nokkurn veginn sama félagslegu svæði, hluta sýslufélags, geti komið upp slík staða að breytileg fjárhagsstaða innan svæðisins sé beinn hemill á eðlilega þróun á ýmsum sviðum.

Ef meiri hluti er fyrir því á Alþingi að vinna beri að því að efla sveitarfélögin í landinu og að til þess að svo megi verða sé nauðsynlegt að stuðla að stækkun og samruna fámennari sveitarfélaga í fjölmennari og öflugri heildir þarf með stjórnvaldsaðgerðum að skapa skilyrði til þess. Það þarf sem sagt með stjórnvaldsaðgerðum að hefja umræðu og kynningu á þessum málefnum og það þarf með stjórnvaldsaðgerðum að hafa til þess fjármagn að jafna stöðu sveitarfélaganna til að af sameiningu geti orðið. Þetta frv. er flutt til þess að láta á það reyna hvort slíkt meirihlutafylgi er fyrir hendi. Samþykkt þess mundi að mati flm. skapa gerbreytt og betri skilyrði fyrir sameiningu sveitarfélaga og þar með eflingu þeirra.

Að lokinni umræðu um þetta frv. hér í deildinni legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.