10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús H. Magnússon:

Virðulegi forseti. Ég er efnislega sammála því frv. sem hér er til umræðu svo langt sem það nær, en ég tel hiklaust að það eigi að miða við 500 sem lágmarksíbúafjölda sveitarfélags nema þar sem sérstakar landfræðilegar aðstæður leyfa það ekki með góðu móti. Að tala um 50–100 manna sveitarfélag sem sjálfstæðan stjórnunaraðila er að mínu mati alveg út í loftið.

En það er hægt að vinna að stækkun sveitarfélaga með ýmsu móti, t.d. eins og frv. gerir ráð fyrir og með því að beina fjárveitingum til eflingar samstarfsverkefna sveitarfélaga eins og nú er gert að hluta varðandi sameiginlegar skólabyggingar, en efling og fjölgun slíkra sameiginlegra verkefna getur stuðlað að sameiningu sveitarfélaga. Og svo er hægt að gera það með valdboði sem ég tel að geti verið nauðsynlegt fyrr eða síðar ef engar aðrar leiðir duga. Ég tel þessar aðgerðir, sem frv. gerir ráð fyrir, vera réttar og nauðsynlegar hvað sem líður hugmyndum um þriðja stjórnsýslustigið.