10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft athyglisverðu máli sem er mjög til umræðu í þjóðfélaginu um þessar mundir, en það er hvernig á að skipa stjórnsýslunni á sveitarfélagagrundvellinum. Flm. flytja hér frv. til laga sem gerir ráð fyrir því að félmrn. setji aukinn kraft í að vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna þeirra í stærri og öflugri heildir og veiti því aukna vigt með fjárhagslegum stuðningi úr ríkissjóði.

Það eru ekki deilur um það meginmarkmið að flytja vald og áhrif til sveitarfélaga, færa þeim aukin verkefni og færa þeim aukna tekjustofna til að standa undir þeim verkefnum þó að framkvæmdin hafi ekki orðið mikil enn sem komið er a.m.k. Það er ljóst að sveitarfélögin eru smáar og vanmáttugar einingar til að taka á móti slíkum verkefnum og vinna þau á þann hátt sem færir íbúunum þar betri þjónustu. En eigi að síður er ég mjög svartsýnn á skjótan árangur í þessum efnum, stækkun sveitarfélaga, jafnvel þó að meiri fjárhagsstuðningur komi til en nú er.

Ég er þeirrar skoðunar að þó það sé nokkur árangur í augsýn í því að sameina lítil sveitarfélög, sem eru svo lítil að þau geta ekki starfað sjálfstætt að neinu leyti, sé það markmið að flest sveitarfélög verði með 300–500 íbúa mjög langt undan. Ég er ákaflega andvígur valdboði í þessum efnum, enda segir í grg. með þessu frv. að það beri að forðast og ég held að það sé raunsæi í því. En eigi að síður held ég að þessi sameining muni vera langt undan þannig að íbúatalan nái þessu.

Ég held því að það sé meira raunsæi í því að setja aukinn kraft í umræðuna, hvað sem menn vilja kalla það, hvort menn vilja kalla það þriðja stjórnsýslustigið, en umræðan um það stjórnsýslustig er allómótuð. Menn hafa velt fyrir sér fylkjaskipan, sem ég hef alla fyrirvara um og finnst þær hugmyndir of fast reyrðar, og einhverjar óljósar hugmyndir sem menn hafa um aðra skipan. Ég held að það þurfi að taka upp alvarlega umræðu í þjóðfélaginu og miklu fastmótaðri en hefur verið um með hverjum hætti sveitarfélögin geti unnið saman í stærri heildum og tekið að sér ný verkefni, hvaða tekjustofna slíkar heildir eiga að fá og hvaða verkefni á að færa til þeirra. Eins og ég gat um í upphafi er ekki verulegur ágreiningur um það í þjóðfélaginu að sveitarfélögin eða samtök þeirra eigi að fá meiri verkefni og þar fari saman umsjón með þeim og fjárhagsleg ábyrgð.

Ég er sammála því að það beri að vinna að stækkun sveitarfélaganna, en ég held að árangurinn sé langt undan í þeim efnum og við komumst ekki hjá því, ef þessi verkefnatilflutningur á að verða að veruleika, að flytja verkefnin til einhvers konar samtaka sveitarfélaganna eða einhvers konar lýðræðislegra þriðja stjórnsýslustigs sem yrði jafnvel kjörið með öðrum hætti. En umræðan um þetta verður mjög mikil á komandi mánuðum og það er nauðsynlegt að móta hana betur en verið hefur.