10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þetta er í annað skiptið á fáum dögum sem við tökum okkur lotu á sveitarstjórnarmálum hér og er ekki nema gott um það að segja. Það hefði sannarlega verið ástæða til þess að við hefðum getað í slíkum rólegheitum sem nú er rætt þessi mál í fyrra þegar hinn mikli bálkur var hér til umræðu og afgreiðslu en allir vita hvers konar hraðafgreiðsla var hér á því máli í fyrra og í raun og veru engin leið fyrir þessa hv. deild að átta sig á því hvað væri verið að samþykkja, enda kannske ekki mikið og merkilegt sem fólst af raunverulegum nýmælum í þeim lagabálki þó að ýmislegt væri þar til betri vegar fært. Þar urðu engin þáttaskil í neinum þeim efnum sem máli skipta og því ekki nema von að því sé hreyft aftur á Alþingi sem hv. 4. þm. Vesturl. gerði við afgreiðslu sveitarstjórnarlaganna í fyrra, gerði þá myndarlega með brtt. Það er ekki nema von að því sé hreyft aftur hér varðandi það atriði einmitt hvernig vinna skuli að stækkun sveitarfélaga, hvernig ríkisvaldið komi þar inn í til aðstoðar.

Í allar umræður um þetta blandast umræðan um þriðja stjórnsýslustigið og ekki ætla ég að fara út í það hér. Það er alkunna að menn eru ekki sammála um það í mínum þingflokki fremur en ýmsum öðrum hvað þar sé best að gera. Hv. 4. þm. Vesturl. hefur lýst skoðun sinni á því máli og telur eðlilegri og sjálfsagðari leið að efla og styrkja sveitarfélögin og hefur allan fyrirvara á um þetta millistig í stjórnsýslunni. Ég er aftur á móti annarrar skoðunar en hann í því efni, hvað varðar þetta millistig. Ég held að það sé hin mesta nauðsyn, knýjandi nauðsyn að við reynum að vinna okkur fram úr því. Ég viðurkenni að það er mikið verk. Það er rétt, sem hv. 4. þm. Austurl. segir, að það eru enn um margt óljósar hugmyndir um hvernig framkvæma eigi þessa breytingu, en það er okkur ljóst, sem landsbyggðina byggjum, að við þurfum að fá sterkari einingar þar til að taka við verkefnum, taka við valdi, sjálfstæði og þá um leið að fá til þess fjármagn eða kannske að halda eftir heima í héraðinu því fjármagni sem þar verður til í stað þess að það sogist allt til Reykjavíkur.

Ég tek það fram sem einn af flm. þessa frv. að að sjálfsögðu er það nauðsyn — ekki síst þegar það er haft í huga hve margt er enn óljóst um þetta millistig og hvaða stuðning það hefur í þjóðfélaginu og sveitarfélögin eru sú staðreynd sem blasir við mönnum í dag- að gera þær einingar sem þegar eru til stærri og verðugri til verkefna og, eins og hér er lagt til, að ríkisvaldið aðstoði virkilega í því efni. Ríkisvaldið er ekki örlátt í því efni eins og menn vita. Hér var áðan minnst á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem smám saman er að hverfa blátt áfram út í veður og vind og enn skal skerða þó að við áttum okkur ekki á því hvað þar er verið að gera, hvaða leik er verið að leika í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nú, þá aukaskerðingu sem þar er sett, hvort það er gert til að fela ákveðna skerðingu á skólaakstri og öðru slíku eins og við höfum grun um eða hvað annað býr þar að baki. En lítið er eftir af honum ef enn þá á að höggva í þann knérunn jafnrösklega og lagt er til í frv. til lánsfjárlaga.

Ég held að það sem hér er lagt til sé hin mesta nauðsyn, ekki síst í þeirri stöðu sem er í dag. Ég get tekið undir það einnig með hv. 4. þm. Austurl. að auðvelt er þetta ekki og í þessu hefur auðvitað verið ákaflega hægfara þróun svo að ekki sé meira sagt, en eins og hv. 4. þm. Vesturl. greindi frá áðan er þó núna ákveðin hreyfing á vissum landsvæðum í þá átt þar sem menn hreinlega sjá að það er ekki önnur leið en að þjappa sér á einhvern hátt saman og finna þá til þess leiðir. Það fer vel á því að hreppur sem heitir Klofningshreppur hafi þar forustu. Það fer ekki illa á því. Hér hefur verið um að ræða ákaflega mikinn klofning og sundrungu milli sveitarfélaga í þessum efnum, allt um of. Og guð láti gott á vita þar sem þannig er riðið á vaðið.

Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram í þessari umræðu svo að það fari ekkert á milli mála að ég hef mína eindregnu skoðun á því að við eigum að reyna að vinna okkur fram til þessa millistigs í stjórnsýslunni. Ég sat enda í nefnd á vegum þingflokkanna, byggðanefnd þingflokkanna svokallaðri, sem lagði þetta til einróma, fulltrúar allra þingflokka sem hafa skilað þessu í sína þingflokka og við sjáum hvaða örlög það fær. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að það á langt í land að ná fram ef það þá nær fram. Ég vek athygli á því að í þessu áliti byggðanefndar þingflokkanna eða fskj. með því kemur fram að allur þingflokkur Sjálfstfl. er andvígur þessu millistigi. Þar er því lýst yfir að Sjálfstfl. styðji tvö stig í stjórnsýslunni, þ.e. ríki og sveitarfélög og ekkert þar á milli. Við afgreiðslu sveitarstjórnarlaganna í fyrra kom beint og óbeint fram að Framsfl. að yfirgnæfandi meiri hluta var andstæður þessu millistigi einnig svo að ég á ekki von á því að miðað við núverandi þingstyrk þessara flokka verði mikil hreyfing á því máli og kannske ekki heldur miðað við undirtektir hv. 5. þm. Vesturl. undir það að ýta á eftir sameiningu og stækkun sveitarfélaga því að hann var heldur svartsýnn á að menn næðu þar árangri þótti mér. Mér þótti hann nokkuð svartsýnn á það ásamt hv. 4. þm. Austurl. (DA: Nei.) Var það ekki? Nú, var hann bjartsýnn? Það gerir Klofningshreppurinn. Ég tek það þá aftur. Ég skildi hann svo en skal taka það aftur. En í þessu efni held ég að við eigum að skoða þetta mál vel einmitt vegna þess að þar er bent á ákveðnar leiðir til þess miklu betur en gert var í sveitarstjórnarlögunum sem afgreidd voru í fyrra. Það er miklu betur gerð grein fyrir því hvernig að þessu skuli vinna á þann hátt að þetta geti gerst.

Jafnframt þessu segi ég enn og aftur að við eigum að reyna að vinna okkur fram úr þessum vanda sem er vissulega fólginn í því að færa vald og verkefni og halda fjármagni heima í héruðunum og ég held að það verði ekki gert nema með þeim hætti að koma á ákveðnu millistigi í stjórnsýslunni sem taki við þessum verkefnum, verði það öflugt og skilvirkt að eitthvert gagn verði að, ekki síst í ljósi þeirrar raunasögu sem sameining sveitarfélaganna hefur verið allt fram að þessu.