15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

18. mál, kosningar til Alþingis

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér kom satt að segja nokkuð á óvart þessi ræða hv. 2. þm. Reykv. Hún er vafalaust flutt að gefnu tilefni. Það er prófkjör hjá íhaldinu um næstu helgi í Reykjavík og menn þurfa að láta aðeins í sér heyra, sérstaklega þessir ábyrgu leiðtogar sem eru minna í auglýsingunum en hinir.

Það er alveg ljóst að það er engin samstaða um það í þinginu að taka upp reglu d'Hondts við úthlutun þingsæta. Það mál gekk fyrir sig með þeim hætti að 1982 var rætt um það að breyta kosningakerfinu og m.a. hvaða úthlutunarregla ætti að vera. Regla d'Hondts hefur verið notuð hér um áratuga skeið eins og menn vita. Þingsætum var úthlutað með því að deila með tölunni 1, 2, 3, 4, 5 o.s.frv. Hins vegar var ljóst í umræðum formanna flokkanna á þeim tíma, sem ég tók þátt í ásamt formanni Framsfl. og þáv. formanni Alþfl., að þeir voru tilbúnir að taka upp reglu Lagues, en það er svokölluð oddatöluregla. Það var bersýnilegt að sú regla gefur í raun og veru langbestan jöfnuð. Útreikningar liggja fyrir um það og þetta er regla sem hefur verið fylgt með smávegis lagfæringum í grannlöndum okkar um áratuga skeið. Þáv. formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, núv. bankastjóri Seðlabankans, var í fyrstu hlynntur þessum hugmyndum. Þegar hins vegar kom á daginn hætta á því að þessu yrði beitt í sveitarstjórnarkosningum líka, og þar á meðal í Reykjavík auðvitað, lagðist Sjálfstfl. skyndilega gegn þessari hugmynd um að beita oddatölureglunni vegna þess að hún kemur í veg fyrir að menn geti haldið meiri hluta í sveitarfélagi eins og Reykjavík á minni hluta atkvæða. En d'Hondt-reglan skapar aftur á móti möguleika til slíks. Ef Sjálfstfl. er nú skyndilega þeirrar skoðunar að hann vilji brjóta þetta mál upp og reyna að keyra hér fram sínar hugmyndir tel ég sjálfsagt að kanna í leiðinni hvort hér er hægt að mynda meiri hluta fyrir annarri úthlutunarreglu en reglu stærstu leifar, sem er í gildandi kosningalögum, og taka í staðinn upp oddatölureglu. Ef hlutföll í þinginu eru svipuð og voru 1982-1983 í þessu efni er meiri hluti fyrir henni.

Og ef Sjálfstfl. kýs að halda þannig á málum að hér verði brotið upp það samkomulag, sem gert var á milli flokka um kosningalagabreytinguna 1982-1983, er sjálfsagt að taka því og takast þá á um þær breytingar með eðlilegum þingræðislegum hætti.

Ég vil sem sagt segja það af okkar hálfu að það hefur alltaf legið fyrir að við erum tilbúin til að skoða þessa oddatölureglu, sem er einfaldari en það kerfi sem er í gildandi kosningalögum, en við höfum verið andvíg d'Hondt-reglunni vegna þess að hún leiðir til mismununar og þess að flokkur getur fengið meiri hluta í bæjarfélagi t.d. án þess að hafa meiri hluta atkvæða.

Það er mikið talað um að þetta nýja kosningakerfi sé flókið, kosningakerfið sem var samþykkt 1983-1984. Ég vil segja í fullri hreinskilni og einlægni, eftir að hafa farið yfir þessi mál og borið saman þessi kosningakerfi, að þetta nýja kosningakerfi er á engan hátt flóknara en hið gamla. Munurinn er bara sá að menn höfðu lært að búa við gamla kerfið áratugum saman og kunnu þess vegna að nota það. Þetta nýja kosningakerfi er í raun og veru mjög einfalt. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt fyrir dómsmrn., og ég vil beina því til hæstv. dómsmrh., að það verði gert átak til að kynna rækilega löngu fyrir alþingiskosningar hið nýja kosningakerfi eða það kosningakerfi annað sem kosið verður eftir. Hér er um að ræða vissar reikningslegar breytingar sem menn þurfa að læra vel á í tæka tíð fyrir kosningarnar en ég tel að þetta kerfi sé í rauninni ekki flókið heldur einfalt og jafnvel einfaldara á marga lund en gamla kosningakerfið.

Ég vildi láta þetta koma fram í tilefni af orðum hv. 2. þm. Reykv. af því að hann óskaði eftir áliti manna á þeim hugmyndum sem hann setti hér fram.

Eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. var til þess ætlast að það yrði kannað hvort hægt væri að ná samkomulagi um að færa persónukjör meira inn í kosningamyndina en gert er í gildandi kosningalögum. Þetta er góð hugmynd og þörf að mínu mati. Ég hef hins vegar ekki séð neinar brúklegar hugmyndir í þessu efni enn þá. Ég vona að þeirri nefnd sem við kjósum hér, sérstakri nefnd til að fjalla um þetta mál, kosningalaganefnd, auðnist að taka á þessu máli, en í því sambandi og þessu öllu er þó rétt að benda á að til er ein nefnd sem heitir hvorki meira né minna en stjórnarskrárnefnd. Það var mikið óþol í liði Sjálfstfl. 1982-1983 yfir því að stjórnarskrárnefndin ynni lítið og hæstv. fyrrv. forsrh. Gunnar Thoroddsen sat undir miklum ákúrum fyrir að hafa ekki rekið þá nefnd hraðar áfram. Þeir sem hraðast og harðast ráku á eftir tóku svo við forustunni í stjórnarskrárnefndinni eftir síðustu kosningar. Hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason er þar formaður. Ég vildi gjarnan inna eftir því hvort eitthvað hefur til hennar spurst, þessarar stjórnarskrárnefndar, hvað hún er að bauka. Hvað hefur hún haldið marga fundi að undanförnu? Hæstv. viðskrh. er ekki hér í salnum, formaður stjórnarskrárnefndar. Það væri full ástæða til þess, úr því að leiðtogar Sjálfstfl. eru að vekja þetta mál hér upp til ítarlegrar umræðu, að biðja hæstv. forseta að hlutast til um að hæstv. samgrh. verði kallaður inn til að spyrja hann: Hvað er að frétta af stjórnarskrárnefndinni? Hvað er hún að bauka? Er hún kannske komin með álit um þetta persónukjör eða önnur mál sem hún átti að fjalla um? Hvernig stendur það mál? Er einhver hér inni sem getur frætt okkur um þessa nefnd? Ég sé það ekki í hópi þeirra þm. sem hér eru staddir. Kannske vilja menn gleyma þessu fyrirbrigði. En af því að varaformaður Sjálfstfl. var að vekja þetta mál upp til sérstakrar umræðu tel ég sjálfsagt að sýna honum þá virðingu að bæta inn í það þessari miklu stjórnarskrárnefnd.

Nú veit ég að hv. 2. þm. Reykn. var handgenginn þessu máli um nokkurt skeið. Kannske hann gæti frætt okkur um hvað hefur orðið af þessari stjórnarskrárnefnd eða kannske er hún svo mikið feimnismál í Sjálfstfl. að enginn vilji kannast við hana. Ég sé að menn eru heldur niðurlútir hér úr þeim hópi. (Gripið fram í: Er þm. að auglýsa eftir nefndinni?) Já, auglýsa eftir stjórnarskrárnefnd. Það er auðvitað hugsanlegt að setja auglýsingu í Lögbirtingablaðið eða Stjórnartíðindi og spyrja hvort það hafi eitthvað frést af stjórnarskrárnefndinni. Kannske koma upplýsingar fram á eftir. Mér þætti vænt um ef leiðtogar Sjálfstfl., sem eru að hefja hér umræðu um þetta mál, gætu frætt okkur um hið ötula starf formanns stjórnarskrárnefndar.