10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstvirtur forseti. Það er greinilega allverulegur áhugi fyrir sveitarstjórnarmálum, eins og fram kemur í umræðum um þetta frv. 1. flm., hv. þm. Skúli Alexandersson, taldi sig hafa skýrt út með hvaða hætti annars vegar fjárhagslegur stuðningur beint úr ríkissjóði kæmi til og hins vegar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég hélt því fram í minni fyrri ræðu að verkefni hvors aðila fyrir sig og form fjárhagsstuðnings þyrfti að vera skýrar afmarkað. Hv. flm. frv. sagði eitthvað á þá leið að hér væri um samvirkar reglur að ræða. Raunar talaði hann um það þannig orðrétt. Ekki síst vegna þessara orða hv. flm. kemur mér til hugar að þarna geti orðið um býsna mikla óvissu að ræða, með hvaða hætti og að hve miklu leyti ríkissjóður og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga koma til, þá er ég með í huga fjárhagslegan stuðning þegar um er að ræða sameiningu sveitarfélaga, einfaldlega vegna þess að um þetta hvort tveggja, þ.e. annars vegar um hugsanlegan stuðning ríkisins og hins vegar stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, verður fjallað samtímis. Það er ekki um það að ræða að fyrst verði gerðar tillögur um beinan fjárhagsstuðning ríkisins og síðan komi Jöfnunarsjóðurinn til. Um þetta verður fjallað samtímis og vitna ég þá til þessa frv. og jafnframt til 114. gr. sveitarstjórnarlaganna.

Í 114. gr. er gert ráð fyrir að aðstoð megi veita í allt að fimm ár eftir sameiningu. Í frv. er gert ráð fyrir að ráðuneytið hlutist til um að fé verði veitt úr ríkissjóði til að styrkja fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna um leið og sameining á sér stað. Ég tel að hv. flm. hafi ekki skýrt það nægilega út með hvaða hætti fjárhagsstuðningur kemur til í hvoru tilvikinu fyrir sig. Það getur vel verið að hann hugsi sér einfaldlega að það verði fyrst ákveðið með hvaða hætti ríkið styðji tiltekna sameiningu, síðan veiti Jöfnunarsjóður einhvern slump í sama skyni. Ég er sannfærður um að ef ekki verður tekið skýrt fram um fyrirkomulag þessa máls frekar en hér er tíundað muni koma upp togstreita. Af hverju? Vegna þess, eins og ég hef tekið fram, að um fjárhagsstuðning hvors fyrir sig verður fjallað samtímis.