10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það verður a.m.k. ekki mikill vandi fyrir þá ríkisstjórn sem sest að völdum eftir kosningar að standa sig eins vel og núverandi ríkisstjórn í sambandi við fjárstreymið til landsbyggðarinnar.

Svo fór þó að hér kom í ræðustól einn sem lýsti sig andvígan frv. og hélt drjúga ræðu án þess að væri hægt að fóta sig á því hvers vegna hann væri á móti því. Hann tók einn punkt úr grg. (EgJ: Tvo.) og talaði um að þar væru sleggjudómar. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þann punkt sem hann nefndi og hann taldi sig byggja a andstöðu sína við frv. Punkturinn er þannig:

„Mikil umræða hefur átt sér stað mörg undanfarandi ár um það að fámenni sveitarfélaga væri dragbítur á byggðaþróun og stæði í vegi fyrir því að þau gætu tekið að sér og sinnt ýmsum fleiri verkefnum en þau gera nú og hefðu ekki getu til að ráða við mörg af núverandi verkefnum.“

Hér er verið að tala um umræðu í þjóðfélaginu. Hér er ekki tekin nein afstaða. Ef hv. þm. telur þetta dóm, úrskurð eða stefnumörkun er ósköp eðlilegt að hann eigi erfitt með að átta sig á því hvort hann er með eða á móti og það sé erfitt fyrir hann að komast að þeirri niðurstöðu hvort hann sé með eða á móti málinu.

Ég tel ekki mikla ástæðu til að fjalla um niðurstöðu hv. þm. út frá því að hann byggir afstöðu sína til frv. á því sem þarna er sagt í grg. Hitt er rétt, sem hann sagði, að það er nauðsynlegt að fólk haldi trú á sínu umhverfi og þróun í byggðarmálum byggist e.t.v. að miklu leyti á því. Það er einmitt einn þátturinn að sú stjórnsýslueining sem fólkið býr við hafi þá burði, hafi styrkleika til þess að fólk hafi trú á sínu umhverfi. Að því er verið að leita með því frv. sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt, að nánasta umhverfi, stjórnsýslan beri í sér þann styrkleika að fólkið sem býr að henni geti haft trú á sínu nánasta umhverfi.

Hv. 5. þm. Vesturl. óskaði enn eftir frekari útskýringum á þessum tveimur reglum. Hann nefndi að með því að þetta frv. yrði samþykkt væru tvær reglur gildandi um hvernig ráðstafa skyldi fjármunum til þeirra sveitarfélaga sem sameinuðust. Ég taldi mig hafa útskýrt það. Um það er ekki að ræða að þessar reglur stangist í einu eða neinu á. Í 108. gr. verður ákvæði um að sveitarfélögin skuli styrkt til þess að sameinast, en ef Samband ísl. sveitarfélaga og ráðuneytið telja æskilegt að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sé beitt til að styrkja slík sveitarfélög áfram í framhaldi af sameiningu er ákvæði fyrir því í 114. gr. Þetta ruglast hvergi saman nema þá í kolli hv. þm., en það breytist nú fljótt.

Ég held að það breyti óskaplega litlu í umræðunni um fylkjastjórnir þó að hv. fyrrv. þingflokkur hér í deildinni hafi borið fram frv. hér á þingi um fylkjastjórnir. Það staðfestir frekar en hitt, sem ég sagði hér áðan, að sú umræða og þær tillögur sem fram hafa komið um þriðja stjórnsýslustigið eru mjög veikburða. Það hafa komið fram margar tillögur og verið mikið talað um þær og farið fögrum orðum um þetta stig. En því miður: Það stendur óhaggað að það liggja ekki fyrir neinar afmarkaðar uppbyggðar tillögur um hvernig þetta þriðja stjórnsýslustig skuli byggt upp. Það er því verkefni okkar á næstu mánuðum, næstu misserum, að vinna að því að þær stjórnsýslueiningar sem við búum við, þ.e. sveitarfélögin, verði öflugri og styrkari til að þjóna landsbyggðinni og styrkja landsbyggðina og reyna að snúa við þeirri öfugþróun sem hefur átt sér stað nú um stundir í sambandi við stöðu landsbyggðarinnar. Það gerum við m.a. með því að samþykkja það frv. sem hefur verið til umræðu í dag.