10.11.1986
Neðri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

71. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að fundur standi í 15 mínútur í þessari virðulegu deild og mun taka þann tíma til ræðuhalda sem mér þykir við þurfa.

Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um byggingu dagvistarheimila. Þetta er 71. mál á þskj. 71. Flm. eru Kristín S. Kvaran og fleiri hv. alþm.

Áður en ég sný mér að efni frv., sem ég er í meginatriðum sammála, og jafnframt þakka flm. fyrir að bera þetta mál fram á hv. Alþingi vildi ég ræða nokkuð um þann mikla skort sem er á dagvistarheimilum og þá ekki síst á hverjum sá skortur bitnar harðast og fyrst. En hann bitnar harðast og fyrst á ungum börnum. Ég held að þjóðfélagið verði að fara að gera sér grein fyrir að sú þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum í gífurlega aukinni atvinnuþátttöku kvenna hlýtur að kalla á að börnum þessara kvenna verði tryggð viðunandi aðstaða og uppeldisskilyrði. Fyrir u.þ.b. 35 árum það má kannske deila um þann árafjölda — efast ég um að meira en svona 30% giftra kvenna hafi unnið utan heimills. Nú er þessi tala komin í 70–75% og án atvinnuþátttöku þessara kvenna er allur fiskiðnaður í landinu í rústum. Vinnuaflið í fiskiðnaði er 70–75% konur, meginhlutinn húsmæður. Sama er að segja um almennan iðnað. Þar er hlutfallið ekki ósvipað, 70–75% konur, margar með ung börn. Um heilbrigðisþjónustuna hef ég ekki nákvæmar tölur en ætli hlutfallið á því sviði sé ekki eitthvað svipað? Sannleikurinn er sá, ef hann er sagður undanbragðalaust, að íslenskt atvinnulíf mundi hrynja niður ef þessar konur legðu ekki fram öll þessi störf.

Ég fullyrði að fjöldi barna þessara kvenna býr við ófullnægjandi uppeldisskilyrði vegna skorts á dagvistunarrýmum. Þjóðfélagið verður að fara að viðurkenna einföldustu staðreyndir. Það verður að fara að gera ráðstafanir til að búa þessum börnum betri uppeldisskilyrði og svara þannig á eðlilegan hátt þeirri atvinnuþróun sem hér hefur átt sér stað á undanförnum 35 árum eða svo. Víða um landið er sæmilega leyst úr þessum málum og á einstaka stað vel. En ég held að ástandið sé hvað verst hér í Reykjavík. Að vísu sá ég í sjónvarpinu í gær að Reykjavík var með hæsta hlutfallið en þá ber að hafa í huga að Reykjavík er líka með langhæsta hlutfallið af öldnu fólki, svoleiðis að það er ekki algjörlega sambærilegt.

Hér í Reykjavík fær ekki úrlausn nema lítill hluti þeirra sem sækja um dagvistunarpláss. Engar marktækar tölur eru hér um fjölda umsækjenda í Reykjavík — ég kem nú að öðrum stöðum á landsbyggðinni síðar — því að gift fólk er ekki skráð á biðlista - ef það hefur „asnast“ til þess að gifta sig eins og unga fólkið segir í dag. Og svo mikil er forneskjan að ef t.d. móðir, sem vinnur á Iðju-svæði og er gift, ja, við skulum segja Dagsbrúnarmanni eða lágt launuðum opinberum starfsmanni, sækir um pláss fyrir börn sín er sagt á dagvistunarstofnunum Reykjavíkur: Þú getur ekki fengið pláss fyrir þitt barn, þú hefur fyrirvinnu. Þetta er dæmi um forneskjuna. Ég held að það sé almennt viðurkennt að bæði hjón verða að vinna fyrir heimili ef þau eru á almennum launum. Fyrirvinnuhugtakið gildir ekki um almennt launafólk.

Hér í Reykjavík eru svokallaðir forgangshópar, þ.e. einstæðar mæður. Fjöldi þeirra á í mjög miklum erfiðleikum. Ef mæður eru í sambúð, þ.e. búa án löggildingar hjónabandsins, eru þær skráðar einstæðar og fylla þannig skilyrði þess að komast í forgangshópa. Síðan kemur skólafólk og þar er algjör forgangsréttur hjá námsmönnum, sér í lagi háskólafólki til dagvistunarplássa. Ég efast ekkert um og veit að bygging og rekstur dagheimila fyrir börn hefur útgjöld í för með sér og það mikil útgjöld en menn virðast alltaf neita að horfast í augu við þá staðreynd að íslenskt atvinnulíf stendur og fellur með því fólki sem mest þarf á slíkum stofnunum að halda.

Hér þarf að leita fleiri leiða en farnar hafa verið fram til þessa. Hví ekki að láta atvinnufyrirtækin taka meira þátt í þessum kostnaði? Ég veit um nokkra staði úti á landsbyggðinni þar sem viðkomandi frystihús t.d. borga allan dagvistunarkostnað fyrir börn hjá mæðrum sem vinna í viðkomandi frystihúsi. Og ég veit um a.m.k. tvö byggðarlög svo að ég nefni annað — þar sem mæðrum eru greiddar 24 kr. á tímann upp í dagheimiliskostnað. Tveggja barna móðir fær 48 kr. og þriggja barna móðir 72 kr. o.s.frv., fyrir unna klst., til að greiða fyrir dagheimilispláss. Og forráðamenn viðkomandi frystihúsa segja: Ef við hefðum ekki á þetta fyrirkomulag þá gætum við lokað húsunum.

Hvers konar tilbrigði við þetta skipulag eru vítt og breitt um landsbyggðina en víða er þetta í algjörum ólestri. Hví ekki að láta atvinnufyrirtæki taka þátt í kostnaði af rekstri dagvistunarheimila? Það hefur verið ríkjandi stefna runnin frá einhverjum uppeldis- og sálfræðingum, félagsráðgjöfum, sem ótrúlega oft eru manna misvitrastir í þessum efnum, að börn foreldra sem tilheyra sama starfshópi í þjóðfélaginu megi ekki vera saman eða eingöngu á sama barnaheimili. Þessi regla virðist bara gilda stundum fyrir suma. Sérstök barnaheimili eru hér fyrir stúdenta. Það virðist ekki skapa neina hættu þótt börn þeirra blandi geði á barnaheimili. Á Reykjavíkursvæðinu reka ríkisspítalarnir sjö barnaheimili. Þar fá eingöngu inni börn sérmenntaðs fólks en ófaglærð starfsstúlka, t.d. úr Sókn, fær ekki pláss fyrir barnið sitt á slíku heimili þótt nauðsyn krefji og hún vinni sín störf við hlið sérmenntaðrar móður sem fær inni fyrir barnið sitt á barnaheimili sjúkrahússins. Þetta er nú sálfræði og jafnrétti sem athyglisverð er.

Ég tilheyri flokki sem er mikið kenndur við ríkisrekstur, reyndar allt of mikið, en af hverju ekki að láta atvinnufyrirtækin sjálf, einkaframtakið, taka þátt í þessum kostnaði? Ef menn eru hræddir við að börn starfsmanna eins fyrirtækis séu á sama barnaheimili gætu t.d. tvö eða fleiri fyrirtæki slegið saman í rekstur slíkra heimila. Ég get upplýst mikið meira. Ég vil t.d. upplýsa að hjá Sambandi ísl. bankamanna hefur verið stofnað foreldrafélag á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það hefur verið gerð könnun á þörf á dagvistun barna starfsmanna. Í ljós kom að ótrúlegur fjöldi barna býr við ófremdarástand í þessum efnum. Foreldrafélagið hefur verið stofnað og undirbýr nú rekstur barnaheimila. Margir bankar hafa gefið sterkan ádrátt um að greiða verulegan hluta af kostnaði við rekstur þessara barnaheimila. Þarna er spor í rétta átt. Svona eru möguleikarnir ef menn eru ekki bundnir einhverjum einstigum.

Ég skal upplýsa að það tóku um 600 bankamenn þátt í þessari könnun. Um 80% þeirra sem áttu börn sögðust mundu notfæra sér slíka starfsemi á vegum bankanna. Fjöldi starfsmanna, annarra en foreldra, ömmur og afar o.s.frv., var reiðubúinn til að styrkja þetta fjárhagslega.

Víða erlendis eru barnaheimili rekin — þetta á náttúrlega aðallega við stærri staði — á neðstu hæð stórra fjölbýlishúsa, t.d. af húseigendum sjálfum. Þetta hefur gefið mjög góða raun. Byggingarkostnaður er mun lægri og íbúðir í slíkum húsum verða mun eftirsóttari.

Svona mætti benda á hvert atriðið á fætur öðru, sér í lagi hér í Reykjavík þar sem ástandið er eins og víða annars staðar gjörsamlega óviðunandi. En hér virðist allt vera óleysanlegt og staðnað þegar kemur að því að skapa börnum vinnandi foreldra mannsæmandi skilyrði. Hér hefur sárasti vandinn verið leystur af dagmæðrum. Það eru líklega yfir 60% barna sem eru í vistun hjá svokölluðum dagmæðrum, konum sem taka nokkur börn inn á heimili sitt til dagvistunar. Margar þessara dagmæðra eru mjög góðar en kostnaður við dvöl barnsins hjá þeim er allt að því þrefalt meiri en á dagvistunarheimilum. Hins ber að geta að sveitarfélög hafa greitt hluta gjaldsins fyrir börn svokallaðra forgangshópa. Aðrir foreldrar greiða sitt að fullu.

Víða hefur verið rætt um að ekki sé hægt að fá sérmenntaðar fóstrur til starfa. Það skal afdráttarlaust viðurkennt að laun við fóstrustörf eru of lág. Ég endurtek til að koma í veg fyrir misskilning: Laun við fóstrustörf eru of lág. Starfið krefst stöðugrar athygli og er mjög krefjandi. En sú spurning leitar á mann hvort ekki hafi að einhverju leyti verið rekin röng stefna í skólamálum fóstra um nokkurt skeið. Fyrsta krafa við inngöngu í skólann er stúdentspróf. Þessa kröfu hefur ekki verið hægt að uppfylla, enda eru innan við 10% umsækjenda síðustu tíu árin með slíka menntun. Fjölmargar þeirra fóstra sem höfðu stúdentsmenntun hafa farið úr stéttinni. Þær hafa til dæmis farið í félagsráðgjöf, heyrnarmælingar, talkennslu og fleiri hliðstæð störf. Þó hefur verið fækkað þeim börnum sem hver stúlka á að sjá um á dagvistarheimilum þannig að aðstaða hefur batnað að því leyti.

Þessar menntunarkröfur hafa gert það að verkum að fjölmörgum stúlkum, sem hafa haft að baki margra ára starf á barnaheimilum við góðan orðstír, hefur verið neitað um skólavist í Fósturskólanum á sama tíma og inn eru teknir nemendur sem aldrei hafa nálægt börnum komið en hafa lengri skólagöngu að baki. Þannig veit ég dæmi þess og það fleiri en eitt að stúlku var neitað um skólavist vegna þess að hún hafði ekki fengið nema 5 í dönsku á grunnskólaprófi. Þó hafði hún unnið sér frábært orð sem starfsstúlka á dagvistunarheimili og hafði mikinn áhuga á að leggja starfið fyrir sig. Einkunnin 6 í dönsku var algert skilyrði fyrir inngöngu í Fósturskólann, hvernig í ósköpunum sem á því stendur. Einhverjum umsækjanda varð að orði hvort danska væri kennd á barnaheimilum.

Ég er sannfærður um að nú væru starfandi í landinu fleiri fóstrur ef Fósturskólinn hefði verið opnari en hann er, meira tillit hefði verið tekið til starfsreynslu en dönskukunnáttu, meira hefði verið lagt upp úr þekkingu á starfinu en stúdentsprófi, meira lagt upp úr ást á börnum en þekkingu á danskri tungu. Það hreinlega leitar á mann í öllu þessu stúdentadekri hvort það fari nú ekki bráðum að koma upp tillaga um það að öllum sé óheimilt að eiga börn eða geta börn sem ekki hafa stúdentspróf. Það kæmi mér ekki á óvart.

Þeirri skoðun vex sífellt fylgi að færa skuli stóra hluta fósturnámsins inn í fjölbrautaskólana. Ábyggilega verður andstaða við þessa hugmynd og sjálfsagt má koma með aðrar tillögur en ég vil benda á. Slíkir skólar, fjölbrautaskólar eru komnir víða um land. Hví þá að einoka fósturnámið við þriggja vetra nám í Reykjavík eingöngu þegar hægt er að setja upp sérstakar tveggja ára fósturbrautir í fjölbrautaskólum landsins? Þar er víða kostur á frábærum kennslukröftum og það ekki síðri en þeim sem Fósturskólinn hefur á að skipa. Próf úr slíkri fósturbraut mundi þá gefa réttindi til náms í Fósturskólanum sjálfum — það er ekki verið að leggja til að hann verði lagður niður — sem gæti þá verið t.d. eins ár nám. Þar færi fram sérstök kennsla í verklegu námi, þar færi fram kennsla í stjórnun og rekstri sem er nú ákaflega áfátt, allri slíkri kennslu í íslenska skólakerfinu, söng og hljóðfæraleik, íslensku og upplestri fyrir börn. Vitanlega mundi eitthvað af þessu koma á þessum fósturbrautum í fjölbrautaskólunum. Ef slíkt skipulag eða hliðstætt yrði tekið upp þyrfti Fósturskólinn ekki að auglýsa eftir nemendum með elskulegum fegurðardísum í sjónvarpi eins og raunin hefur orðið á í seinni tíð. En ég legg aftur áherslu á það að skilyrðið er betri laun fyrir fóstrur. Verum ekki að binda þetta nám við Reykjavík eingöngu. Opnum fósturnámið fyrir fleirum sem hafa áhuga og vilja til að starfa við umönnun barna. Finnist einhverjum þetta of lítil menntun sem hér er verið að benda á má t.d. bæta við eins vetrar framhaldsnámi í fósturskóla sem ekki væri skylda en yki réttindi þeirra sem í það færu. Nokkrar fóstrur hafa sótt töluvert mikla viðbótarmenntun erlendis, til dæmis hv. 1. flm., og það mundi á engan hatt leggjast niður. Ég vil taka það fram til að orð mín verði ekki misskilin að Fósturskólinn hefur unnið merkilegt starf í 40 ár, ég er alls ekki að gera lítið úr störfum hans né fósturstéttinni, fjarri því. En ég held að við verðum að hafa kjark til að gera breytingar í samræmi við þróun tímans.

Frv. það sem hér liggur fyrir er að ýmsu leyti athyglisvert og knýjandi og meginefni þess tvímælalaust til bóta. Um 1050 fóstrur hafa lokið prófi frá Fósturskólanum, um helmingur þeirra er í fósturstarfi, þar af um 100 í forstöðukvennastörfum og skyldum störfum. Meiri hluti starfsfólks á dagvistarstofnunum er ófaglærður. Því ekki að veita þessu ófaglærða fólki einhverja menntun í störfum sínum? Það gerði það bæði hæfara til starfa og það mundi bindast frekar í störfunum. Nú eru haldin námskeið, t.d. á vegum Reykjavíkurborgar og reyndar víðar, fyrir þetta fólk en þau mættu vera markvissari og lengri.

Í frv. er lagt til að stofnaður verði eins árs fósturskóli. Þetta er góð og athyglisverð tillaga og ég vil endurtaka þakkir til flm. fyrir að koma þessu á framfæri hér á hv. Alþingi. Það eru nokkur atriði sem um má deila þó það séu ekki höfuðatriði, en ég er hræddur um að orðalag, eins og segir í 3. gr. frv., orki tvímælis. Þar stendur:

„Heimilt er þó með samþykki menntmrn. að víkja frá þessu ákvæði sé þess enginn kostur að fá fólk með fósturmenntun til starfa. Má þá ráða fósturliða til uppeldisstarfa um skamman tíma.“

Ég held að þetta ákvæði sé of þröngt. Ég held að það sé vonlítið að fá fólk í eins árs nám ef aðeins má ráða það í skamman tíma með sérstakri undanþágu sjálfs menntmrn. (KSK: Ég bið þm. að lesa neðst í 3. gr.) Já, ef þetta er eitthvað rýmra þá bið ég afsökunar á því og tek öllum leiðréttingum. Já, það segir hér:

„Heimilt er að mennta og þjálfa fósturliða til aðstoðar fóstrum við uppeldisstörf á dagvistarheimilum og skal nám þeirra, starfsréttindi og skyldur ákveðið með reglugerð.“

Já, já, þetta er allt annað. Ég hef ekki lesið þetta nægilega vel þetta breytir verulega.

Ég held að það sé mikið atriði að þessir fósturliðar fái eftir ákveðinn starfstíma og undirbúning inngöngu í Fósturskólann. Ég er sannfærður um að fósturliðaskóli í þessu formi sem hér er lagt til eða í einhverju hliðstæðu formi mundi tryggja börnum dagvistarheimila betri fóstrun og umönnun alla.

Hér er á ferðinni gott frv. sem ég styð og samþykki að verði vísað til nefndar sem e.t.v. gæti gert á því nokkrar æskilegar breytingar. Hér er um að ræða ákveðna menntun fyrir meiri hlutann af starfsfólki dagvistarstofnana sem enga sérmenntun hefur. Slíkur skóli yrði þjónusta við börn.

Og svo vil ég taka fram vegna ummæla þm. Kvennalistans í sambandi við þetta, sem ég veit að gengur ekkert annað en gott til og vilja hag og aðbúnað barna sem bestan, að það er engin leið að fá upp hvernig hlutfallið er. Álitið er að það sé einhvers staðar á milli 30 og 40%. En það stangast allar upplýsingar á. Þá er bara spurningin: Ætla menn að snúa sér að þessum verkefnum að afla ca. 60–70% af starfsliði meiri menntunar og starfsréttinda eða ætla menn að halda áfram að mennta aðeins 30–40%? Ef þetta er ekki gert þá rísa dagvistarstofnanir ekki undir því hlutverki sem nútímaþjóðfélag leggur þeim á herðar. Svör við þessu gætu orðið eitthvað á þá lund að þarna sé verið að slæva kröfur. Til þess að fullnægja þeirri þörf sem er á sérmenntuðum fóstrum þyrfti ekki færri en 600–900 til viðbótar, 600–900. Ég fer gætilega og þá reikna ég ekki með mikilli fjölgun á dagvistarheimilum sem er óhjákvæmileg og er óvirðing við stritandi fólk og foreldra í landinu að ekki skuli vera tekið tillit til þeirra. Vitanlega sjá allir að skóli sem útskrifar 30–40 nemendur á ári leysir ekki allan vandann. Það er bara spurningin hvort þetta góða fólk margt hvert sem á þessum stofnunum vinnur fái viðbótarmenntun og viðbótarréttindi og það mundi þá festast frekar í störfum.

Herra forseti. Ég skal ekki teygja mig út í annað. Ég ætlaði hér að skemmta menntmrh. örlítið sem ég má víst ekki fyrst hann er ekki hér viðstaddur og þá hefur það ekki gildi. Hér hef ég fyrir framan mig uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili, markmið og leiðir. Einn ágætur vinur minn, háttsettur og viðurkenndur lögfræðingur, fór eitthvað að stríða mér með því að hann hefði brotist í gegnum þessa uppeldisáætlun. Ég vil taka það fram að þessi uppeldisáætlun er að mörgu leyti ákaflega góð og þarft verk sem þarna var unnið og til bóta og ber ekki að leggja til hennar. En stofnanamálið, sérfræðingamálið, sem menn viðhafa þegar svona plögg eru samin, er dæmalaust. Þar segir t.d. á einum stað:

„Rökstuðningur fyrir forskólauppeldi sé að það geti búið öllum börnum án tillits til heimilisástæðna vandlega skipulagt og lærdómsríkt uppeldisumhverfi þar sem færi gefst til að örva skynhreyfifærni þeirra, vitþroska, félagsfærni og boðskiptahæfileika til hins ýtrasta.“ Og stuttu neðar segir: „Langtímaathuganir hafa bent til fylgni milli heimilisaðstæðna og frammistöðu í skóla og gefa til kynna gæði þess uppeldisumhverfis sem börnin vaxa upp í eigi veigamikinn þátt í hvernig þau þroskast.“

Og þessi ágæti lögfræðingur, vinur minn, sagði: Ja, gagnorðari var nú Örn Arnarson forðum. Hann sagði bara: „Kjörin settu á manninn mark.“ Ég skal nú ekki vera að þylja þessa uppeldisáætlun, sem ég vil ekki gera lítið úr, en ég vil mjög eindregið skora á þm. að horfa ekki fram hjá þeim vanda sem útivinnandi foreldrar búa við, sýna þeim ekki þá óvirðingu, sem búið er að gera hér allt of lengi, með því að börn þeirra séu meira og minna á þvælingi, lyklabörn, við óviðunandi aðbúnað. Ég held að þetta frv. sé tvímælalaust til bóta, það sé gott frv. En það er ekki nóg að koma því til nefndar. Nefndin þarf að skila áliti. Við eigum að afgreiða þessi mál hér og svo skal áfram haldið.