10.11.1986
Neðri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

71. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega hv. síðasta ræðumanni fyrir hans ágæta innlegg í þetta mál og stuðning við frv. Mig langar aðeins til þess að taka til þar sem hann ræðir um inntökuskilyrði í Fósturskólann og gerir það í rauninni að ákveðnu máli að það skuli vera krafist stúdentsprófs eða sambærilegs prófs eða menntunar til inngöngu í Fósturskólann. Ég er að mörgu leyti sammála hv. síðasta ræðumanni, hans orðum um að það væri ekki nóg að hafa stúdentspróf ef ekkert annað væri til staðar, þ.e. ekki áhugi fyrir starfinu eða neitt annað slíkt. En það er annað sem hv. 7. þm. Reykv. hefur ekki áttað sig alveg á og er ekki von þar sem honum finnst einkennilegt að stúlku hafi verið neitað um inngöngu í skólann af því að hún hafði 5 í dönsku. Það er nefnilega þannig að allt námsefni Fósturskólans er eingöngu til á Norðurlandamálunum (GJG: Má ekki þýða?) og þess vegna frumskilyrði að fólk hafi vald og það gott vald á Norðurlandamálum til þess að geta lært við Fósturskóla Íslands. Þetta er nöturleg staðreynd en það eru bara svo fáir nemendur sem hafa verið í gegnum tíðina í þessum skóla að það hefði orðið svo dýrt að fara að þýða allar þessar bækur yfir á íslensku, vegna þess að þetta eru allt saman sérstakar fagbækur, og þar fyrir utan þá úreldast þær mjög fljótt og þar eru alltaf nýjar og nýjar bækur, eins og reyndar í mörgum öðrum skólum. Þannig að þarna liggur nú reyndar svarið við þessari athugasemd sem auðvitað liggur alls ekki í augum uppi svona við fyrstu sýn og finnst mörgum mjög einkennilegt.

En ég vil geta þess strax í upphafi að ég var svo heppin nú fyrir helgina að komast að því að árið 1980–1981 kom þessi hugmynd um fósturliðaskóla, eins og hann er hugsaður hér í frv., fyrst fram. Hún kom fram í lokaverkefni í kennsluréttindanámi í Kennaraháskólanum og það var nú reyndar eiginkona hv. síðasta ræðumanns sem samdi þessa ritgerð. Það er margt merkilegt í þessari ritgerð, eins og eðlilegt er þar sem um Elínu Torfadóttur er að ræða, og ég vil leyfa mér, með leyfi herra forseta, að lesa á stangli upp úr þessari ritgerð, svo að það komist í þingtíðindi. Hér gríp ég niður þar sem segir:

„Hin mikla fjölgun dagvistarstofnana kallar að sjálfsögðu á aukið starfslið. Þrátt fyrir starfrækslu Fósturskóla Íslands er meiri hluti starfsliðs ekki úr honum heldur fólk án nokkurrar skólagöngu né sérfræðslu á þessu sviði. Þó er þarna innan þessa hóps mjög mikið af hæfu fólki sem yndi hefur af börnum og börn laðast að, en að sjálfsögðu einnig fólk sem vinnur aðeins stuttan tíma og því mikið um endurnýjun á starfsfólki, þ.e. sífelld hreyfing sem óheppileg er vegna barnanna. Þessar hæfu starfsstúlkur mundu vera hæfari ef þær ættu kost á að njóta ákveðinnar grunnkennslu til þessa starfs.“

Síðar í þessu verkefni segir, með leyfi herra forseta:

„Nefna má að í Reykjavík er áætlað að á almennum opinberum dagvistarheimilum fyrir börn séu tæplega 1000 manns við beina umönnun barna, en þar af aðeins um 150 fóstrur eða ca. 15%. Úti á landsbyggðinni er hlutfallið víðast hvar mun stærra og á ýmsum dagheimilum utan Stór-Reykjavíkursvæðisins er enginn sérhæfður starfskraftur.“ — Og ég vil taka það fram aftur að þetta er skrifað árið 1980–1981 þannig að hlutföllin hafa að sjálfsögðu versnað síðan þá.

Síðar í þessari ritgerð segir, með leyfi herra forseta:

„Það verður hins vegar ekki rætt hér“ — og þá er verið að tala um tilhögun kennslu í Fósturskólanum og inntökukröfur — „en viðfangsefni mitt er hvernig hægt er að koma á hagnýtri menntun sem yfirgnæfandi meiri hluta starfsliðs barnaheimilanna vantar og hver er skjótvirkasta og raunhæfasta leiðin til þess. Það er nauðsynlegt að brúa bilið á milli þessara tveggja póla, þ.e. fóstranna og annarra starfsstúlkna. Það þyrfti að styrkja betur innviði heimilanna bæði til að starfsfólkið allt vinni betur saman, meti hvert annað og störf hvers annars, létti hvert öðru svo börnunum komi til góða.“

Og að síðustu, herra forseti, gríp ég niður þar sem segir:

„Þetta er eina lausnin til þess að meiri hluti starfsfólks á barnaheimilunum fái notið menntunar og fræðslu í starfsgrein sinni. Skóli sem þessi yrði strax fjölmennari en Fósturskóli Íslands en tæplega þurfa fóstrur að óttast samkeppni. Bæði vantar svo margar með þá menntun og fyrirsjáanleg er aukning dagvistarheimila og einnig er hér um að ræða að mennta aðstoðarfólk.

Að fenginni 30 ára reynslu í starfi og mikla kennslu í verklegum þáttum fósturstarfsins tel ég þetta langjákvæðustu leiðina til að bæta hag barna, heimila og til að mennta starfsfólk. Ég er einnig sannfærð um það að sveitarstjórnir út um land allt mundu styrkja nemendur úr sinni heimabyggð til að sækja þennan skóla. Byggi ég þá skoðun mína á samtölum við ýmsa sveitarstjórnarmenn, einnig forustufólk úr verkalýðsfélögum utan Reykjavíkur. Þarna kæmust eldri starfskraftar og fólk, sem ekki hafa verið á atvinnumarkaðinum um nokkurn tíma, í nám sem það gæti hugsað sér, sbr. Sjúkraliðaskólann. Nemar sem koma úr uppeldisbrautum fjölbrautaskólanna koma þarna fljótlega í starf með starfsréttindum með eitt ár til viðbótar ef þeim fellur starfið. Þetta fólk ætti áfram að vera Sóknarfólk, en jafnframt verður að tryggja að skóli sem þessi verði aldrei einhver blindgata, þannig að nemar sem óska þess og standa sig ættu að geta sótt nám til viðbótar í Fósturskóla Íslands ef þeir hefðu áhuga.

Ef maður lítur til öldungadeilda menntaskólanna sýnir námsfólk þaðan að það hefur engu minni námsgetu eða áhuga þótt það hafi ekki átt kost á námi í æsku. Þetta mun hvetja starfslið dagvistarheimila til náms, þetta mun gera það öruggara í starfi sem aftur mun gera það ánægðara og ekki síst að það mun skapa því starfsréttindi. Og þetta er í dag eina leiðin til að tryggja hæfara starfslið fyrir börnin, en þau og velferð þeirra hlýtur alltaf að vera aðalmarkmið þeirra sem um þessi mál fjalla.“

Ég hef lokið tilvitnun í þetta lokaverkefni og tel að það í einu og öllu styðji mál mitt og ég vildi sannast sagna óska þess að ég hefði vitað um þetta verkefni áður en ég bjó til þetta frv. en við því verður ekki gert.

Ég hef svona mörg orð um þetta vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frv. af hálfu þm. Kvennalistans og tel að það sé alveg bráðnauðsynlegt að fyrirbyggja að þessi misskilningur og þekkingarskortur verði mun lengur við lýði heldur en orðið er. En mér hefur sýnst á málflutningi hv. þm. Kvennalistans að þær ætli sér með forsjárhyggju að hafa vit fyrir heilli stétt og frekar tveimur en einni þar sem er allt starfsfólk dagvistarheimilanna líka. Ég álít alls ekki að fóstrur né starfsfólk dagvistarheimilanna þurfi á Kvennalistakonum að halda til þess að segja sér hvað eða hvernig málum þeirra sé best komið inni á dagvistarheimilunum. Hv. þm. Kvennalistans hafa lengi talið sig vera sjálfskipaða forsvarsmenn kvenna og barna og telja þess vegna að þetta mál heyri undir þær og þess vegna best fyrir aðra að vera ekki að skipta sér af því. En það vill svo til að ég er ekki sammála þessu áliti þeirra og ég hef reyndar sönnur fyrir því að hv. þm. Kvennalistans hafa farið út fyrir strikið og orðið berar að vanþekkingu í þessu máli og hreinum þekkingarskorti á málefnum barna og heillar kvennastéttar, og eins og ég sagði áðan frekar tveggja en einnar. Og í því sambandi vil ég leyfa mér, með leyfi herra forseta, að lesa upp úr einu bréfi, af reyndar fleirum sem ég hef fengið, en undir þetta bréf rituðu tólf fóstrur utan af landsbyggðinni, ég ætla að grípa hér niður í bréfið þar sem segir:

„Við teljum að neikvæð gagnrýni stafi af þekkingarskorti. Niðurstaða okkar er sú að þessi tillaga sé fyllilega tímabær. Fósturliðanám gefur fólki kost á stuttu en gagnlegu námi. Það hlýtur að vera starfsemi dagvistarheimila til framdráttar að aðstoðarfólk fóstra, þ.e. fósturliðar, hafi einhverja grunnmenntun og verði um leið stöðugri vinnukraftur. Við teljum að fósturliði sé mun vænlegri kostur en algjörlega ómenntaður starfsmaður því við verðum að viðurkenna þá staðreynd að á næstu árum verður ekki hægt að ráða fóstrur í allar stöður á dagvistarheimilum.“

Eins og ég tók fram áðan þá er þetta eitt af mörgum bréfum sem ég hef fengið. Ég hef að vísu fengið eitt bréf, undirritað af einni fóstru, sem var frekar í neikvæðum tón. Að öðru leyti langar mig til að minnast á það að u.þ.b. 50% barna útivinnandi foreldra, ef ekki nær 60% eftir því sem mér heyrðist síðasti hv. ræðumaður tala um, eru hjá dagmæðrum og ástandið er síður en svo viðunandi á mörgum þeim stöðum þar sem börnin dvelja hjá dagmæðrum og fá börnin eflaust mjög mismunandi atlæti eins og gefur að skilja af því að dagmæður eru jú margar. Í því sambandi langar mig til að lesa upp úr grein sem Elínborg Jónsdóttir ljósmóðir, og væntanlega móðir, skrifar undir, en þar segir hún, með leyfi herra forseta:

„Enginn hefur neytt þá til þess að eignast börn“ hún er að tala um foreldrana sem hafa leyft sér að eignast börn — „og góðir foreldrar vita að það er börnunum fyrir bestu að vera heima hjá pabba og mömmu. Foreldrar í dag vita því upp á sig „skömmina“. Þeir hafa í einhverju augnabliksæði látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og verða að taka afleiðingunum. Má þar sitt sýnast hverjum. Hinn raunverulegi þolandi er hins vegar barnið og staðreyndin er sú að stærstur hluti þeirra vistast að einhverju leyti utan heimilis fyrstu ár ævinnar á meðan foreldrar eru við nám eða vinnu. Viðunandi dagvistarrými eru ekki fyrir öll þessi börn. Vandinn er leystur að stórum hluta með neyðarúrræðum.“ Og þá fer hún yfir í að ræða um uppbyggingu dagmæðrakerfisins og segir svo, með leyfi herra forseta: „Uppbygging dagvistarheimila er ekki í neinu samræmi við þörfina. Hluti dagmæðra verður því sífellt stærri. Dagvistun á einkaheimilum er fyrirkomulag sem er ákaflega viðkvæmt og vandmeðfarið. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur veitir leyfi til þessarar starfsemi.“

Síðar í þessari grein segir hún, með leyfi herra forseta:

„Dagmæður semja ekki við neinn. Þær gefa út gjaldskrá og eru flokkaðar sem verktakar hjá skattyfirvöldum. Dagvistarrými hjá dagmóður er ótryggt.

Dagmæður verða veikar eins og annað fólk, þær þurfa sín frí og geta hætt með eins mánaðar fyrirvara.

Í skýrslu um dagvistun á vegum Reykjavíkurborgar árið 1984 kemur fram eftirfarandi: Starfsemi dagmæðra er mjög sveiflukennd og hættu 202 konur störfum á síðasta ári og til samanburðar var fjöldi dagmæðra 345 í árslok. Jafnframt kemur fram að 67,2% barnanna eru á aldrinum 0–3 ára.

Í skýrslu fyrir árið 1985 kemur fram að 60,6% barnanna eru innan við sex mánuði hjá sömu dagmóður. Aðeins 4% eru þrjú ár eða lengur hjá sömu dagmóður. Enn fremur segir í skýrslunni: „Þessi starfsemi er þannig augljóslega sveiflukennd og erfitt á henni að byggja sem atvinnu, enda hreyfileikinn á dagmæðrum í starfi mikill og hættu 183 konur störfum á síðasta ári.“„

Það að ég tek þetta inn í þessa umræðu hér er einmitt bæði til að benda á skortinn á dagvistarrýmum og svo ekki hvað síst það að ef við gætum komið á meiri stöðugleika í starfinu á dagvistarheimilum, þá væri ekki eins mikið af börnum sem þyrftu að vera hjá dagmæðrum, því það er jú stöðugt bent á að ekki sé hægt að manna dagvistarheimilin og því síður fleiri en nú eru.

Ég verð að endurtaka það að ég treysti þeim fóstrum sem vinna á dagvistarheimilum mun betur til þess að dæma um það hvað nauðsynlegt sé að gera til úrbóta í starfinu og starfseminni þar heldur en hv. þm. Kvennalistans.

Herra forseti. Vegna orða hv. 7. landsk. þm. við umræðurnar s.l. mánudag þar sem hún sagðist ekki sjá annað af frv. en að fósturliðar muni eiga að ganga fyllilega í störf fóstra, svo ég lesi það nú orðrétt, þá var það svo, með leyfi herra forseta:

„Það er að vísu talað um, ef ég man rétt, að stjórnandi dagvistarheimila eða deilda verði að vera fóstra en að öðru leyti sé ég ekki annað en að fósturliðar muni eiga að ganga fyllilega í starf fóstra og ég sé vissulega á þessu þá hættu að fósturliðamenntunin muni hreinlega taka við af fósturmenntuninni.“

Ég verð að benda hv. þm. á að lesa upphafsorð 3. gr. frv., en þar stendur svo — þar sem þm. er staddur hér, þá ætla ég að lesa þetta fyrir hana, með leyfi herra forseta:

„Forstöðumaður dagvistarheimilis og starfslið, er annast fósturstörf, skal hafa hlotið fósturmenntun, svo og þeir sem hafa umsjón með dagvistarheimilum á vegum rekstraraðila.“

Þannig að það fer ekki á milli mála að þarna er átt við að það skal hafa fósturmenntun.