10.11.1986
Neðri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

71. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. 7. landsk. þm. að hvoru tveggja því að það mætti ræða hér dagvistunarmál mikið meira en gert er. Og ég get m.a.s. tekið undir með hv. þm. í því líka að verkalýðsfélög hafa verið ákaflega slöpp í þessu og mættu skammast sín. Ekki ætla ég að undanskilja mig neitt í því en það tæmist nú oft og tíðum salurinn þegar ég held svipaðar ræður og skeð hefur hér og ég var að halda hér áðan. Vissulega er það rétt hjá hv. þm. að í þessum efnum eru uppi misjafnar skoðanir og engin ein endanlega löggilt skoðun og ég var aðeins fyrst og fremst að beina orðum mínum til þm. Kvennalistans ekki af því að ég haldi að þm. Kvennalistans móti afstöðu Alþingis í þessum efnum þó þær hafi verið nokkuð duglegar við að berjast í þessum málum, heldur bara af því að ég held að afstaða þeirra í þessum málum sé það jákvæð að það væri slæmt fyrir framgang málsins ef þær snerust þar í mót. Ég vil jafnframt þakka hv. þm. Ólafi Þórðarsyni fyrir ákaflega athyglisverða ræðu sem hann hélt.

En það er þetta með löggildingu stétta og launabaráttu fóstra. Ég held að ég hafi þrisvar tekið fram að laun fóstra væru of lág og það væri óhjákvæmilegt að kjörin yrði að bæta. En þó það vanti svona eins og ég segi 600–900 fóstrur, þá hefur það ekki orðið til að bæta kjör þeirra svo að það virðist nú ekki vera einhlítt. Ég vil aðeins minna á að hjúkrunarkonur þetta er nú ekki að öllu leyti sambærilegt, þó er það mjög sambærilegt að öðru leyti-að hjúkrunarkonur voru mjög hatrammar, misjafnlega þó, í upphafi á móti sjúkraliðum og töldu að þarna væri verið að löggilda nýja stétt til þess að halda kjörum hjúkrunarfólks niðri, sérmenntaðra hjúkrunarkvenna eins og það hét þá. Reyndin hefur orðið sú að þorri sjúkrahúsa mundi nú algerlega stöðvast og ég held að sú menntun, sem þarna var tekin upp, hafi bjargað heilbrigðismálunum á sjúkrahúsunum að verulegu leyti, en það hefur ekki leyst úr hjúkrunarkvennaskortinum. Kjör þeirra hafa ekki versnað miðað við aðrar stéttir. Það eru ákveðnar stéttir sem verða illa út úr málum. En hér er ekkert verið að segja að það sé verið að löggilda nýja stétt. Hér er stétt sem er, ja, að fróðra manna yfirsýn svona um 70% af starfsfólki barnaheimila og það er aðeins verið að leggja til að þær fái ákveðna menntun. Forgangsréttur fóstra er til staðar. Það vantar 600–900 fóstrur, sjálfsagt mun sú tala vera hærri, það verður ekki leyst með fóstrum í bili. Það er til að bæta starf barnaheimilanna, gera þau hæfari til að annast börn og þarna held ég að við verðum að hafa í huga hvað kemur börnunum best. Og ég veit að hv. þm. hefur það að leiðarljósi. En þó að ég viðurkenni hennar skoðanir, og hún opnar fyrir það að það er sjálfsagt að ræða þetta í nefnd og skoða allar hliðar málsins, þá held ég að það væri ákaflega mikil skammsýni að vilja ekki veita yfirgnæfandi meiri hluta starfsliðs barnaheimila ákveðna menntun sem geri þær hæfari til starfa. Það er feikinóg rými fyrir nokkur hundruð fóstrur án þess að hreyfa við þessum stúlkum. Þar held ég að við séum sammála.

Hv. þm. var að kvarta undan því að það hefði verið ráðist á þm. Kvennalistans fyrir baráttu í þessum málum. Ég held að sú barátta mætti vera meiri og ég held að hún mætti koma úr fleiri áttum og þökk sé allri baráttu í þessum efnum. Það er nefnilega verið að leika hér þúsundir barna nokkuð grátt vegna ástandsins í þessum málum.

Ég held að þessar umræður sem hér hafa orðið séu til bóta. Aðeins fékk ég laust skot frá hv. þm. um að það væri ekki hægt að taka próf í ást á börnum. Ég skal að vísu viðurkenna að sjálfsagt er erfitt að ná einhverjum ástarmæli upp í það. En ég skil ekki og get ekki skilið að stúlka, sem hefur kannske sex ára starfsreynslu á barnaheimili, það er þetta óskýrða atriði, börn hænast að henni, hún á óvenjugott með að annast börn, mér dettur nú í hug kennslukonan sem Ólafur Þ. Þórðarson var að segja frá hér áðan, að hún sé útilokuð frá Fósturskólanum vegna þess að hún nær ekki 6 í dönsku. Það er rétt sem hv. 1. landsk. þm. sagði að meiri hluti námsefnis fer fram á dönsku í Fósturskólanum. Þá er mér spurn: Af hverju? Því í ósköpunum er ekki hægt að þýða meira af þessum kennslubókum? Að vísu er nokkuð skipt um bækur þarna, en skýringin er nú ekki sú nema að takmörkuðu leyti. Það hefur bara ekki verið lögð rækt við það. Vera má að það hafi verið skortur á fjármagni. Ég held að hluta af þessum bókum mætti mjög auðveldlega þýða og væri til bóta.

Ég skal svo ljúka máli mínu. Ég endurtek það að ég tel þessa tillögu góða og ég legg áherslu á það að hún sé ekki svæfð í nefnd. Ég held að það séu allir, sem um þetta hafa rætt, því sammála. Og ég held að nefndin verði að skila áliti. Og eftir að þetta hefur verið rætt í nefnd eiga að liggja fyrir tillögur frá viðkomandi þingnefnd og þá á að afgreiða þetta mál. Hagur barna í þessu landi kallar á það. Síðan getum við haldið áfram í sambandi við dagvistarheimili. Þar er full þörf að taka víðar til hendinni. Það held ég að við séum öll sammála um.