15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

18. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er greinilegt að lögin sem voru samþykkt í maí 1984 eru enn eitt dæmið um flausturslega afgreiðslu á hv. Alþingi. Kannske verða þau til þess að það verði ekkert kosið á næstunni, menn komist ekkert út úr þessu, og það ætti nú að kóróna allt saman. Kannske haustkosningum hafi verið frestað vegna þess að menn treystu sér ekki í þær út af því að geta ekki komist frá lögunum.

Ég skal ekki blanda mér í þennan þátt mála. Ég var andvígur því frv. á sínu tíma og skal ekki blanda mér í þetta, en mér sýnist greinilegt að þetta mál á enn eftir að þvælast fyrir spekingunum hér í þinginu.

En það er annað mál, sem er í tengslum við þetta, sem ég vil minna á hér. Það eru þær yfirlýsingar sem formenn flokkanna gáfu á sínum tíma í grg. með frv. um hvað gera skyldi fyrir landsbyggðarfólk til að jafna búsetu í landinu. Það virðist ekkert þvælast fyrir mönnum eins og hv. þm. Friðrik Sophussyni og Páli Péturssyni. Það virðist ekkert þvælast fyrir þeim að hafa áhyggjur af því hvað þar kann að gerast þó að menn horfi upp á það nánast daglega að landflótti er utan af landsbyggðinni vegna þessara mála. (Gripið fram í: Meira að segja þingmanna.) Meira að segja þingmanna og er nú hart keyrt, eins og Vestfirðingar sögðu um framsóknarmenn: Og þú líka Steingrímur. (PP: Sjálfstæðismenn í Norðurl. v.) Já, kannske er það sem hv. þm. Páll Pétursson stefnir fyrst og fremst að, að íhaldið á Norðurlandi vestra fari allt í burtu. Líklega er það meiningin og það er kannske það hálmstrá sem hann vill halda í að ekkert verði þar nema framsóknarmenn. Sér er nú hver hugsunin hjá þessu liði!

Ég minni á að nýlega er nefnd þingflokkanna búin að skila frá sér skýrslu um málefni sem formenn flokkanna gáfu undir fótinn með á sínum tíma fyrir röskum tveimur árum. Ég hygg að það sé myndarplagg og hér inni eru ábyggilega menn sem geta greint betur frá því en ég, en ég hefði gjarnan viljað að þeir sem nú eru að tala um breytt kosningalög létu fylgja í kjölfar þeirra breytinga tillögur til úrbóta til jöfnunar á búsetu. Ég hef ekki séð neinar tillögur uppi um slíkt af hálfu hæstv. ríkisstj. eða stjórnarliða almennt nema þá einu, sem kom fram áðan, að hrekja íhaldið í burtu.

Það urðu hér umræður í vor einmitt um þessa nefnd og þá kom það í ljós að fulltrúar stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., hefðu ekki sinnt í neinu þeirri skyldu sinni að láta þessa nefnd starfa eða skila af sér. Það kostaði nokkrar umræður utan dagskrár á Alþingi að þessir menn tækju til starfa og ynnu það sem ætlað var. Þetta er hugurinn sem stjórnarliðið á hv. Alþingi ber til landsbyggðarfólks. Þarna sýna menn í verkum hvað þeir meina. Ég sé að hæstv. forsrh. er ekki í salnum, en það hefði verið ástæða til að spyrja hann hvenær sé að vænta tillagna hæstv. ríkisstjórnar til að jafna búsetu í landinu. (GJG: Með lögum?) Með lögum? Það hygg ég að verði með lögum. Ég hef ekki séð annað gerast í þeim efnum undanfarið. Ég hygg að löggjafinn verði að ryðja þá braut að jafna búsetu með aðgerðum frá löggjafans hendi.

Ég vildi varpa þeirri spurningu til allra hæstv. ráðherra sem eru hér inni fyrst hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í því sem við höfum nú upplifað, þ.e. að fólksflótti er brostinn á utan af landsbyggðinni? Vegna hvers? Vegna þess hvernig atvinnuástand er sums staðar, miklu dýrara er að lifa, öll þjónusta er í lágmarki miðað við suðvesturhornið. Vegna þessa fer fólk. Og hvers er það annars en löggjafans að spyrna við fótum í þessum efnum?

Ég er ekki einn um það að vera orðinn langeygður eftir því að eitthvað gerist í þessum málum og eftir því sem lengri tími líður, eftir því verður málið erfiðara. Ég lýsi ítrekað eftir viðhorfum hæstv. ráðherra til þessara mála. Það liggur meira á því að gera ráðstafanir til að breyta þessu til hagsbóta fyrir dreifbýlisfólkið en að hlaupa upp á hverju ári með breytingu á kosningalögum nema því aðeins að menn telji brýnt að fresta kosningum eins lengi og hægt er með þessum hætti.