11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

45. mál, umsóknir um húsnæðislán

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 45 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. félmrh. um fjölda umsókna um húsnæðislán. Fsp. er svohljóðandi:

„Hve margar umsóknir hafa borist til Húsnæðisstofnunar ríkisins um ný húsnæðislán vegna nýbygginga og kaupa á eldra húsnæði, samtals og flokkað eftir kjördæmum?“

Fsp. skýrir sig sjálf. Hún er fram borin til að fá upplýsingar um það hvert horfir í sambandi við umsóknir um lán skv. hinu nýja húsnæðiskerfi og það er í raun ekki seinna vænna að fá þessar upplýsingar hér fram. Fsp. er borin fram fyrir alllöngu og ég vænti þess að við fáum skilmerkilegar upplýsingar frá hæstv. ráðherra um þetta efni.