11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

45. mál, umsóknir um húsnæðislán

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Þær upplýsingar sem hann kemur með varða, ef ég hef skilið það rétt, kaup á eldra húsnæði og nýju en ekki kom fram í svari ráðherrans flokkun á því hvort um væri að ræða lánsumsóknir vegna nýbygginga eða kaupa á eldra húsnæði.

Ég náði því ekki, þar sem ráðherrann kom með aðeins eina tölu varðandi umsóknir fyrir hin einstöku svæði, en í fsp. er beðið um flokkun á lánum vegna nýbygginga og vegna kaupa á eldra húsnæði. Ósk mín var um það að þetta yrði greint sundur í svari. En kannske hefur það misskilist þannig að hér er aðeins dregin fram ein tala varðandi umsóknir og, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, miðað við lögheimili umsækjenda.

Þessar tölur, eins og þær liggja fyrir frá hæstv. ráðherra, segja nokkra sögu ef litið er til hvernig þessar umsóknir flokkast. En ég vek sérstaka athygli á því að þar er miðað við lögheimili umsækjenda. Æskilegt hefði verið og ég hafði talið að Húsnæðisstofnun flokkaði umsóknir miðað við staðsetningu byggingar sem óskað væri eftir láni til. Það kemur ekki fram í þessum svörum ráðherrans heldur eingöngu hvaðan umsóknirnar eru ættaðar. Þegar litið er á þetta miðað við íbúafjölda í einstökum kjördæmum kemur í ljós að t.d. í höfuðborginni er umsóknafjöldinn, 1091 umsókn, verulega umfram íbúatölu höfuðborgarinnar sem hlutfall af landinu í heild, en hins vegar í Reykjaneskjördæmi liggur þetta nokkuð undir. Ef ég er með réttar tölur um íbúafjölda á Reykjanesi t.d. er það 23,3% eða þar um bil af landsmönnum öllum, en af þessum 80% umsókna sem flokkaðar hafa verið eru það 16,1%.

Síðan eru það önnur kjördæmi. Það er hlutfallslega meira í Vesturlandskjördæmi eftir því sem ég les út úr þessum tölum. Á Vestfjörðum liggur þetta heldur yfir hlutfalli íbúa, á Norðurlandi vestra hins vegar talsvert undir eins og sjá má, aðeins 3,1% umsókna, en íbúafjöldi þar um 4,5% af íbúum landsins. Á Norðurlandi eystra er þetta heldur yfir íbúahlut þess kjördæmis, á Austurlandi mjög verulega undir. Austurland er með 5,5% landsmanna en umsóknir sem flokkaðar hafa verið eru 3,8%. Sama gildir um Suðurland. Þessi fjöldi umsókna þar er verulega undir íbúahlutfalli þess kjördæmis miðað við landið allt. Og síðan hygg ég, og hæstv. ráðherra víkur kannske að því hér á eftir, að þetta segi ekki nema hálfa sögu.

Nú er það svo að skv. nýju húsnæðislögunum geta menn sótt um lán án þess að hafa tryggt sér lóðir fyrir byggingar og önnur réttindi eins og áður var, að ég hygg, þannig að þetta segir ekki hvernig menn hyggjast nota rétt sinn varðandi nýbyggingar. Ég læt þetta nægja sem ábendingar og athugasemdir af minni hálfu og þakka virðulegum forseta þolinmæðina.