11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

56. mál, lánveitingar Húsnæðisstofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Þau voru um margt athyglisverð. Sérstaklega hvað varðar félagslegar íbúðabyggingar og um þörf á leiguhúsnæði. Það er ljóst af þessum upplýsingum, sem fram koma, að þörfin fyrir leiguhúsnæði eingöngu er 1750–2000 íbúðir næstu 2–5 árin og ef tekið er mið af þörf sem félagssamtök hafa lagt fram, öryrkjar o.fl., eru þar til viðbótar 800–1000 íbúðir þannig að hér nálgast að vera þörf fyrir um 3000 leiguíbúðir á næstu árum. Þetta eru mjög athyglisverðar tölur og því til viðbótar kemur fram að það liggja fyrir umsóknir um 520 íbúðir í verkamannabústöðum. Einnig, ef ég hef náð þessu rétt hjá ráðherra, kemur fram að hægt er að veita lán í verkamannabústöðum á næsta ári vegna aðeins 360 íbúða. Ég held að þetta sýni svo skýrt sem verða má að það verður að leggja kapp á að efla félagslegar íbúðabyggingar. Það er einmitt það sem ég hef haft áhyggjur af að ekki hafi verið gert á undanförnum árum. Við erum auðvitað langt á eftir því að uppfylla það markmið, sem er í lögunum, að 1/3 af árlegri íbúðaþörf eigi að vera félagslegar íbúðabyggingar.

Ég hef af því verulegar áhyggjur að það hafi dregið úr fjármagni til félagslegra íbúðabygginga og ef tekið er mið af því fjármagni sem ráðstafa á á næsta ári til húsnæðismála eru það eingöngu 15–17% af því fjármagni sem ráðstafa á til félagslegra íbúðabygginga. Þetta segir okkur að það er brýnt að sú milliþinganefnd, sem er að fjalla um húsnæðismál í samræmi við nál. sem kom frá félmn. á síðasta þingi og fjallaði um ýmis atriði er snerta félagslegar íbúðabyggingar, skili fljótlega af sér niðurstöðum þar sem sérstaklega verði tekið á þessu máli.

Ég spyr hæstv. ráðh. að því: Finnst honum ekki ástæða til, miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um þörfina á félagslegum íbúðum, að það verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess nú við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga að auka verulega fjármagn til Byggingarsjóðs verkamanna þannig að hægt verði að koma til móts við þá þörf sem svo sannarlega er fyrir hendi, en það er aðeins hægt að litlum hluta miðað við það fjármagn sem ráð er fyrir gert á næsta ári?

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðh. að því í tilefni starfa milliþinganefndarinnar hvort það liggi fyrir ályktun eða áskorun frá stórum láglaunaverkalýðsfélögum á landinu þar sem einmitt er skorað á ráðherra að beita sér fyrir því að það komist til framkvæmda kaupleiguíbúðir og lagt verði fram frv. hér á Alþingi að því er þær varðar og hvernig ráðherra hyggist bregðast við þeirri áskorun sem þar liggur fyrir.