11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

58. mál, notkun almannafjár til tækifærisgjafa

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það var rétt skilið hjá hv. fyrirspyrjanda að ekki er heimilt að gefa starfsmönnum gjafir nema með samþykki ráðherra. 2. gr. á eingöngu við um heimsóknir erlendis frá. Þar er reglan sú að gjöfin verður að vera í samræmi við þær venjur sem myndast hafa. Það skilst mér að séu fastar venjur þó að ég sé persónulega ekki vel kunnugur þeim.

Ég verð að viðurkenna að ég missti af síðustu orðum fyrirspyrjanda. Var viðbótarspurning? ef ég má leyfa mér að spyrja úr ræðustól. (JS: Af því að erlendis hafa verið settar reglur sem banna stjórnmálamönnum og embættismönnum að þiggja gjafir frá viðskipta- og hagsmunaaðilum í tengslum við störf sín spurði ég um afstöðu ráðherra til þess hvort ekki væri rétt að setja slík lög.) Ég tel ákaflega óeðlilegt að starfsmenn þiggi gjafir frá aðilum sem geta haft hagsmuna að gæta í sambandi við þeirra störf. Ég tel það ekki koma til greina. Ég þekki ekki hvort reglur gilda um það. (JS: Þær gilda erlendis.) Þær gilda víða erlendis, já. En hér á landi þekki ég það ekki. En ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að slíkt á ekki að eiga sér stað. (JS: Má binda slíkt í lögum?) Já, það mætti gjarnan.

Ég vil jafnframt upplýsa að til undirbúnings þessari fsp. kynnti ríkisendurskoðandi sér reglur sem gilda á Norðurlöndum. Þær reglur sem hér voru samþykktar eru mjög í samræmi við það. Að vísu eru sums staðar á Norðurlöndum ákveðnar hámarksupphæðir. T.d. í Noregi. Þar má gjöf, sem gefin er starfsmanni, ekki kosta meira en 1200 norskar kr. Í Svíþjóð þarf starfsmaður að hafa starfað 30 ár. En um opinberar heimsóknir fer eins og hér er orðað, samkvæmt venju.