11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

69. mál, stjórnarskrárnefnd

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um störf stjórnarskrárnefndar. Fsp. er stutt: „Hvað líður störfum stjórnarskrárnefndar?“

Ástæða þess að fsp. er fram komin er sú að það hefur um langt árabil verið starfandi stjórnarskrárnefnd undir forustu hinna mætustu manna og þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var mynduð var það í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar að lögð skyldi fyrir Alþingi ný stjórnarskrá. Ég hygg að það hljóti að teljast eðlileg vinnubrögð að á seinasta þingi fyrir kosningar séu slík mál tekin fyrir því eins og allir vita þarf að efna til nýrra kosninga verði samþykkt breyting á stjórnarskránni. Það er því brýnt að fá úr því skorið hjá forsrh. hvort ástandið sé eins og á undanförnum árum, nefndin sé til, vel skipuð hinum mætustu mönnum, en ekkert sé gert. Auðvitað vona ég að fá það svar að það verði lagt fram á þessu þingi frv. að nýrri stjórnarskrá, en ég bíð eftir svarinu.