11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

69. mál, stjórnarskrárnefnd

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á útmánuðum 1983 lagði þáv. hæstv. forsrh. fyrir þingið skýrslu um breytingar á stjórnarskrá Íslands eins og þáverandi stjórnarskrárnefnd hafði komið sér saman um. Forsrh. og formanni stjórnarskrárnefndar var mjög umhugað að koma því máli fyrir þingið í tillöguformi, en flokksmenn hans í Sjálfstfl. lögðust mjög hart gegn því að það mál fengi að sjást í þinginu vegna þess að þeir létu jafnan málefni líða fyrir persónulega andúð sína á þeirri stjórn, einnig í stjórnarskrármálinu. Síðan er málið tekið upp með þeim hætti að núv. hæstv. samgrh. verður formaður stjórnarskrárnefndar. Ég vil í tilefni af upplýsingum hæstv. forsrh. óska eftir því að hann segi skoðun sína á því hvort ríkisstjórnin er ekki tilbúin til þess sem algjörs lágmarks í þessu efni að það verði lögð fram skýrsla á yfirstandandi þingi, ef ekki frv. þá skýrsla, um vinnu stjórnarskrárnefndar frá vorinu 1983 og til þessa dags. Ég held að það sé mjög fróðlegt fyrir hv. Alþingi að fá að sjá í hverju afrek nefndarinnar felast.