11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

69. mál, stjórnarskrárnefnd

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir þær kröfur að stjórnarskrármálið komi úr þessari nefnd. Ekki vegna þess að ég telji út af fyrir sig að skil nefndarinnar komi til með að skipta neinu höfuðmáli heldur til þess að nefndin tefji ekki lengur framgang þessa máls. Það vill þannig til að stjórnarskrá er ekki mál sérfræðinga. Stjórnarskrá er mál og málefni þjóðar vegna þess að í stjórnarskránni setur þjóðin sínum mönnum, þar á meðal alþm., starfsreglur og starfsramma. Ég held að það sé kominn tími til þess að Alþingi sitji ekki lengur á þessu máli þannig að komið sé í veg fyrir að það fái þá umfjöllun sem það þarf. Ég vil minna á að það eru samtök í þessu landi, fjölmenn samtök, um jafnrétti milli landshluta sem eru alþýðuhreyfing um að hefja stjórnarskrárumræðu hérlendis.