11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

111. mál, bann við tilraunum með kjarnavopn

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur beint til mín fsp. í tveimur liðum varðandi afstöðu ríkisstjórnarinnar til banns við tilraunum með kjarnavopn á þskj. 114. Lýtur sú fyrri að afstöðu ríkisstjórnarinnar til tilrauna Bandaríkjamanna með kjarnavopn, en sú síðari að því hvað ríkisstjórnin hefur aðhafst í þessu efni á grundvelli samþykktar Alþingis frá 23. maí 1985 um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Mun ég svara fsp, í einu lagi enda þótt liðirnir séu tveir, enda liðir skyldir hvor öðrum.

Afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu efni hefur komið skýrt fram, m.a. á 40. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þegar við Íslendingar vorum meðflm. að till. sem samþykkt var varðandi allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Sú ályktun var raunsæ og ábyrg með því að hún fól í sér áherslu á tryggt eftirlit með framkvæmd samnings um slíkt bann. Í ályktun allsherjarþingsins var lögð til sem víðtækust samstaða þjóða um aðild að samningum um tilraunabann svo og að komið yrði á fót alþjóðlegu kerfi skjálftamælinga til eftirlits með framkvæmdinni.

Ekki hefur náðst samstaða kjarnorkuveldanna um slíkt bann. T.d. lögðu Frakkar a það sérstaka áherslu að bann kæmi því aðeins til greina að það kæmist á þegar ríkin stæðu nokkurn veginn jafnt að vígi hvað tilraunir varðar. Þetta hefur líka verið afstaða annarra ríkja á Vesturlöndunum svo og Bandaríkjanna. Sovétmenn ásamt ríkjum Austur-Evrópu greiddu hins vegar atkvæði gegn ákvæði í till. sem fól í sér stofnun alþjóðlegs kerfis jarðskjálftamælinga til að tryggja að sprengjutilraunir færu ekki fram á laun.

Ríki Atlantshafsbandalagsins hafa mótað sér þá stefnu í þessu efni að bann við tilraunum með kjarnavopn verði liður í víðtækum samningum um afvopnun á sviði kjarnavopna þar sem samkomulag risaveldanna og tryggt eftirlit er frumskilyrði. Í ljósi framangreinds höfum við Íslendingar lagt áherslu á eftirfarandi:

1. Slíkt tilraunabann verður að vera liður í víðtækum samningum um afvopnun á sviði kjarnavopna. Með þeim hætti yrði dregið úr þeirri hættu að samningur um bann við tilraunum með kjarnavopn frysti eitthvert tiltekið stig þar sem ójafnvægi ríkir. Bann við kjarnavopnatilraunum má ekki auka á spennu heldur á það að draga úr henni. Ríkin verða að vera þess fullviss að þau sitji við sama borð í þessum efnum.

2. Kjarnavopnaveldin verði að gangast undir slíkt bann sjálfviljug. Ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru áhrifalausar nema til komi vilji hlutaðeigandi ríkja. Skilyrði fyrir samþykkt eru t.d. tryggt eftirlit eins og ég hef áður sagt.

Í öllum okkar tillöguflutningi, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, höfum við reynt að gæta raunsæis í þessum efnum. Við höfum gert fleira til að framfylgja stefnu Alþingis frá 23. maí 1985. Auk framangreindrar till. á 40. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vorum við Íslendingar meðflytjendur að till. um niðurskurð útgjalda til hermála, till. um efna- og sýklavopn, till. um könnun á vígbúnaðarkapphlaupi í hafinu, till. um óhlutdrægar upplýsingar um hermál svo og till. um efndir samninga um takmörkun vígbúnaðar og afvopnun.

Ég vil ljúka máli mínu með því að minna fyrirspyrjanda sem og aðra þm. á að hér er um afar flókin viðfangsefni að ræða sem tekið hafa nokkuð nýja stefnu á síðustu vikum eftir fund leiðtoga risaveldanna í Reykjavík. Það verður t.d. ekki fram hjá því litið hve nátengt tilraunabannið er alhliða samningum um afvopnun á sviði kjarnavopna svo og á hinn bóginn hvaða áhrif slík afvopnun hefur á hernaðarjafnvægið á öðrum sviðum.