11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

113. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstvirtur forseti. Í júní 1985 voru samþykkt ný lög á hv. Alþingi um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þessi lög höfðu að geyma ýmis nýmæli miðað við fyrri löggjöf, m.a. er að finna veigamikil atriði í 15. gr. laganna, en þar segir í 2. tölul., sem fjallar um verkefni Jafnréttisráðs, með leyfi hæstv. forseta:

„Vera stefnumótandi aðill í jafnréttismálum hér á landi. Skal ráðið vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma a jafnrétti kynjanna.“

Skv. 22. gr. laganna skal félmrh. leggja fyrir ríkisstjórnina framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn þar sem kveðið skal á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna. Við gerð hennar skal höfð hliðsjón af áætlun Jafnréttisráðs, sbr. 2. tölul. 15. gr. sem ég las áðan. Þessa áætlun skal ráðherra leggja fyrir Alþingi til umræðu.

Nú leikur mér forvitni á að vita hvort slík áætlun hefur komið á borð hæstv. ríkisstjórnar og þá jafnframt hvenær þess er að vænta að hún komi til umræðu hér á hv. Alþingi.

Það er rétt að geta þess að ég bar fram samhljóða fsp. til hæstv. félmrh. á seinasta þingi, en þá var skammur tími liðinn eða aðeins rúmlega fjórir mánuðir frá gildistöku laganna og ekki hafði þá tekist að fullmanna í Jafnréttisráð. Nú má segja að góður tími hafi gefist til að vinna verkið og því hef ég borið fram þessa fsp. til hæstv. félmrh., en hana er að finna á þskj. 116.