11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

113. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hefur lagt fram fsp. um framkvæmd 22. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þeirri grein er kveðið á um skyldu félmrh. til að leggja fyrir ríkisstjórnina framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn þar sem kveðið skal á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Svar mitt er að það hefur verið unnið að gerð þessarar framkvæmdaáætlunar samhliða gerð skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem félmrh. er einnig skylt að gera samkvæmt áðurnefndri grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og á að leggja fram á Alþingi á tveggja ára fresti. Bæði þessi skýrsla og framkvæmdaáætlunin voru lögð fram á ríkisstjórnarfundi fimmtudaginn 6. nóv. s.l. Þess er að vænta að ráðherrar ríkisstjórnarinnar muni skýra frá afstöðu sinni til þessarar fjögurra ára framkvæmdaáætlunar á næstu fundum ríkisstjórnarinnar þannig að ráðherra gefist tóm sem allra fyrst til að leggja þetta fyrir Alþingi lögum samkvæmt.

Þessi framkvæmdaáætlun, sem er unnin í samræmi við lögin og í samráði við Jafnréttisráð, skiptist í fimm meginkafla. Það er inngangur sem sýnir þróunina og hvernig þessi mál hafa þróast. Síðan eru kaflar um atvinnu- og launamál, menntun og fræðslu, trúnaðarstöður og ábyrgð og einnig ýmis félagsleg atriði sem eru stefnumarkandi.

Ég vænti þess, sem ég lagði áherslu á í ríkisstjórninni 6. nóv. s.l., að ríkisstjórnin móti afstöðu sína til þessarar skýrslu þannig að ég geti lagt hana fyrir mjög fljótlega. Sömuleiðis er ég búinn að láta í prentun skýrslu félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála, sem einnig var lögð fram eins og áður sagði á ríkisstjórnarfundi, og henni mun verða dreift mjög fljótlega og tekin fyrir til umræðu á hv. Alþingi. En ég stefni að því að það dragist ekki langan tíma að þessi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna verði lögð fyrir Alþingi. Hún er til afgreiðslu í ríkisstjórninni þessa dagana.