15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

18. mál, kosningar til Alþingis

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. að nauðsynlegt er að kynna þær reglur um kosningarnar, sem ákveðnar verða, á Alþingi svo fljótt sem þær eru afgreiddar þar því að sjálfsögðu þurfa menn að hafa það ljóst í sínum huga hvaða reglur gilda áður en gengið er til kosninga. Mun ég reyna að gera ráðstafanir til þess. Ég tek undir það, sem hér hefur líka komið fram, að æskilegt er að það gerist með nokkrum fyrirvara fyrir þingkosningar. Þar af leiðandi þarf að afgreiða þetta mál eins fljótt og kostur er á Alþingi. Af þeim sökum hef ég flutt frv. í þriðja sinn þegar í upphafi þings, en af skiljanlegum ástæðum hef ég eingöngu lagt fram brtt. tæknilegs eðlis en ekki um hugsanlegar breytingar á persónukjöri eða kosningareglunum, deilireglunum, þar sem það er málefni sem þingflokkarnir hafa fjallað um og er því eðlilegt að fáist niðurstaða um í þinginu en ekki í dómsmálaráðuneytinu.