11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

100. mál, aukning fjár til Byggingarsjóðs verkamanna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í samkomulagi ASÍ, VSÍ og VMS um húsnæðismál, lið 4, er gert ráð fyrir að fjármagn til Byggingarsjóðs verkamanna verði aukið um 200 millj. á árinu 1986. Í grg. með frv. til l. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er gengið út frá því að þetta verði gert og í nál. félmn., er hún gerði grein fyrir frv. til samþykktar á Alþingi 21. apríl 1986, segir:

„Skv. frv. er gert ráð fyrir því að fé til Byggingarsjóðs verkamanna verði aukið um 200 millj. kr. á árinu og jafnframt tekið fram að stjórn verkamannabústaða skuli eftir því sem kostur er og hagkvæmt þykir kaupa íbúðir á frjálsum markaði sem geti komið í notin sem allra fyrst“.

Á fundi húsnæðisstjórnar hinn 6. ágúst s.l. var eftirfarandi samþykkt gerð:

„Með vísun í samkomulag aðila vinnumarkaðarins um húsnæðismál frá 26. febr. 1986 samþykkir húsnæðisstjórn að fyrstu 200 millj. kr., sem koma frá lífeyrissjóðum beint til stofnunarinnar eftir að þeir hafa uppfyllt skyldur sínar við byggingarsjóðina skv. lánsfjárlögum, skuli renna til Byggingarsjóðs verkamanna.“

Samkvæmt þessu hef ég heimilað Húsnæðisstofnun að taka slík lán hjá lífeyrissjóðunum að fjárhæð 200 millj. kr. til að fullnægja þessu ákvæði í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins þar sem ljóst var að ekki yrði um það að ræða að fá aukafjárveitingu sérstaklega til þessa máls heldur að fullnægja þessu á þennan hátt. Ég veit ekki betur en núna sé verið að ganga frá þessu máli. Það er túlkun að slík kaup lífeyrissjóðanna eru að sjálfsögðu viðbót við kaupskyldu lífeyrissjóðanna samkvæmt gildandi lögum.

Það er verið að kanna jafnframt þessa dagana, en ég var ekki búinn að fá úrskurð um það í morgun, á hvern hátt eða hvort þörf er á að leita aukaheimildar Alþingis fyrir þessari viðbótarlántöku fyrir gildandi ár, en Húsnæðisstofnun er að vinna að samningum við lífeyrissjóðina um málið þessa dagana. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en það sé fyrir hendi miðað við þær undirtektir sem málið hefur tekið, en það verður aukalántaka hjá lífeyrissjóðunum sem tryggir þetta fjármagn.