11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

100. mál, aukning fjár til Byggingarsjóðs verkamanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Hann upplýsti að um lántöku yrði að ræða. Ég hygg að aðilar vinnumarkaðarins hafi litið svo á að þarna yrði um beint framlag frá ríkissjóði að ræða, en eins og menn að sjálfsögðu átta sig á er ekki alveg sama hvernig þetta fé fæst til viðbótar þar eð þetta þýðir þá enn aukna vaxtabyrði fyrir sjóðina. En það hlýtur að þurfa heimild Alþingis til og vænti ég þá að hennar verði fljótlega leitað.

Ég hlýt svo að minna hæstv. ráðh. á að það er líka spurning um framhald. Í samkomulaginu, sem gert var s.l. vetur, var ekki aðeins talað um aukningu ráðstöfunarfjár Byggingarsjóðs verkamanna í ár. Það var enn fremur sagt: „Lánsfé Byggingarsjóðs verkamanna verði síðan aukið miðað við fast verðlag.“

Skv. fjárlagafrv. og töflu á bls. 347 í frv. kemur í ljós að framlag ríkissjóðs er ekki aukið um eina krónu frá því í ár. Það er áfram 300 millj. Lífeyrissjóðunum er ætlað að bæta við það fé sem þeir leggja til Byggingarsjóðs verkamanna, en þá gleymist þetta viðbótarfé sem um er rætt og nú er upplýst að verði lagt fram. Þegar það er tekið með í reikninginn verður aukningin engin. Það verður minnkun.