11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

134. mál, búseta í heimabyggð

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Umrætt svar við þeirri könnun sem hv. fyrirspyrjandi vísaði til hefur ekki sem slíkt komið á mitt borð eða til ríkisstjórnarinnar. Ég hef séð þessa könnun og mér er kunnugt um að þar kemur mjög eindregið fram sá vilji ungs fólks að festa rætur eða búa í sinni heimabyggð. Því hefur ríkisstjórnin ekki tekið afstöðu til þess sem slíks.

Hins vegar er ríkisstjórninni fullkomlega ljóst það sem hv. fyrirspyrjandi rakti í sinni ræðu. Henni er fullkomlega ljós sú þróun sem hefur orðið og sá flótti af landsbyggðinni. Að sjálfsögðu er öll viðleitni sem er til að auka atvinnumöguleika á landsbyggðinni til þess að mæta þessari ósk unga fólksins og gæti ég í því sambandi nefnt ýmislegt.

Ég vil nefna í fyrsta lagi landbúnaðinn. Við leggjum til að koma á fót nýjum búgreinum, t.d. í loðdýraræktinni o.fl., og ég minni á það mikla fjármagn sem Framleiðnisjóður hefur fengið í þeim tilgangi. Sömuleiðis hefur Byggðastofnun verið með til athugunar byggðaskýrslu þingmannanefndarinnar sem svo hefur verið nefnd. Ég fól Byggðastofnun sérstaklega að fjalla um þá skýrslu og þær tillögur sem þar eru lagðar fram, að sjálfsögðu með það í huga að reynt verði að sporna við þeirri þróun sem verið hefur.

Ég get nefnt líka samþykkt Byggðastofnunar um stjórnsýslustöðvar sem kom á mitt borð og fjallað var um í ríkisstjórninni. Ég fól Byggðastofnun að halda því máli áfram. Þarna er um að ræða viðleitni til að auka þjónustu við landsbyggðina á heimavettvangi.

Ég verð að svara þessu almennt. Okkur er vel ljós þessi vandi og það er ýmiss konar viðleitni í gangi til að snúa við þeirri þróun sem því miður hefur verið.