11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

Skemmdarverk á eignum Hvals hf.

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það eru í sjálfu sér engin tíðindi að erlendis séu starfandi aðilar sem stundi skemmdarverk eða hryðjuverkastarfsemi. Hitt eru tíðindi að Íslendingar eru aðilar að þessum samtökum. Og fljótt á litið sýnist mér sem flest bendi til þess að þau skemmdarverk sem hér hafa verið unnin hafi verið unnin af Íslendingum en ekki hinum erlendu aðilum. (Gripið fram í: Passaðu þig nú, maður.) Ástæðan fyrir því að ég varpa þessu fram er að mér þykir fremur ólíklegt að þeir aðilar sem hingað komu til landsins hafi haft þann háttinn á að hafa ekki samband við þann hóp manna sem hér starfar og vinnur með þeim. Eru það ekki hinar alþjóðlegu leikreglur í þessu sambandi? Og e.t.v. er það fyrst og fremst til að blekkja lögregluna að láta hana eltast við þessa tvo út um allan heim. Kannske var nauðsyn að þeir kæmu hingað til þess að hinir gætu í því skjóli skákað. Og þegar íslenskur fjölmiðill hefur viðtal við aðila úr þessum hóp og hann lýsir því yfir að þetta sé ill nauðsyn að vinna slíkt verk fer illilega um mann þó ekki sé meira sagt. Ég held að það sé ærin ástæða til þess að Íslendingar athugi það eftir þeim leiðum sem færar eru hvaða Íslendingar það eru sem eru aðilar í alþjóðasamtökum sem stunda skemmdarverk eða hryðjuverkastarfsemi.