11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

Skemmdarverk á eignum Hvals hf.

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að segja það í sambandi við þessar umræður að við verðum að sjálfsögðu að hyggja að okkar eigin öryggismálum, enda þótt við viljum ekki búa í einhverju lögregluríki. Við hljótum að hyggja að þeim samhliða því að þetta mál verður upplýst og það verður allt gert til þess að þeir sem að verki hafa staðið verði látnir bera ábyrgð skv. lögum. En við skulum umfram allt athuga það hvar við erum raunverulega stödd í dag og við verðum að hyggja að innra öryggi okkar sjálfra.