11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

83. mál, fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Hér er hreyft hinu athyglisverðasta og þarfasta máli, ekki síst frá sjónarhóli sveitarstjórnarmanna. Umræðan um fárhagsleg samskiptamál ríkis og sveitarfélaganna hefur lengi verið í gangi og á því er full þörf að gera úttekt á þessum fjármunalegu samskiptum. Umræðan rís hins vegar hærra nú en oftast áður vegna þess hvernig ríkisvaldið undir forustu núv. stjórnarflokka hefur haldið á hinum fjárhagslegu samskiptamálum að undanförnu.

Framlög ríkisins til sameiginlegra verkefna með sveitarfélögunum, til hafnargerða, grunnskólabygginga, dagvistarstofnana, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, hafa dregist gífurlega mikið saman í stjórnartíð Sjálfstfl. og Framsfl. og hefðu raunar þurft að hækka um 124% á þessu ári til að ná verðgildi samsvarandi fjárveitinga á árinu 1983. Sveitarfélögin hafa hins vegar verið tilneydd til þess að halda áfram framkvæmdum og uppbyggingu í ofangreindum málaflokkum vegna knýjandi nauðsynjar. Það hefur því leitt til þess að vangreiddur ríkishluti hefur hlaðist upp og stórfelld skuld ríkissjóðs við sveitarfélögin myndast. En sveitarfélögin í landinu eru mjög misjafnlega í stakk búin til að fjármagna ríkishlutann í sameiginlegum framkvæmdum þannig að þessi fjársveltisstefna ríkissjóðs hefur bitnað mun harðar á hinum minni og fátækari sveitarfélögum en hinum fjölmennari og efnaðri. Með öðrum orðum: Landsbyggðin hefur orðið verst úti í þessum efnum eins og reyndar öðrum, enda virðist landsbyggðin vera sérstakt bitbein þessarar ríkisstjórnar.

En fjárhagsleg samskiptamál ríkisins og sveitarfélaganna eru einnig af öðrum toga en í sambandi við framkvæmdir eins og hér hefur raunar komið fram. Lögboðin framlög til eftirtalinna sjóða, er skipta sveitarfélögin fjárhagslega ákaflega miklu máli, hafa verið skert um rúmlega 1,3 milljarða á s.l. þremur árum, þ.e. til Bjargráðasjóðs, Félagsheimilasjóðs, Byggðasjóðs, Framkvæmdasjóðs fatlaðra og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Skerðingin á jöfnunarsjóðsframlaginu vegur þarna auðvitað langþyngst og enn er í fjárlagafrv. fyrir næsta ár vegið í þennan sama knérunn. Í atlögunni að Jöfnunarsjóðnum er nú gert ráð fyrir að skerða hann um 300–400 millj. kr. Þar á meðal er nú gert ráð fyrir að 130 millj. kr. af hlut ríkisins í skólaakstri o.fl. greiðist með samsvarandi frádrætti frá tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna eru mjög mikilvægur tekjustofn sveitarfélaganna í landinu. Með lækkun þeirra framlaga um 300–400 millj. kr. er ríkisvaldið raunar að knýja sveitarfélögin til að hækka útsvör næsta árs sem þeirri upphæð nemur. Með þessari fjármunatilfærslu frá sveitarfélögum til ríkisins er hæstv. fjmrh. raunverulega að spara sér fyrir lofaðri tekjuskattslækkun sem nemur nokkurn veginn sömu upphæð. Hæstv. félmrh. hefur hins vegar boðað frelsi sveitarfélaganna til að ákveða á eigin spýtur útsvarsálagningu á næsta ári.

En ég spyr: Hverju verða skattgreiðendur bættari þó tekjuskattur lækki um 300 millj. ef sveitarfélögin þurfa að hækka útsvör um sömu upphæð vegna þess að ríkisvaldið hefur rænt þau lögbundnum tekjum sem nema þessari sömu tilteknu tölu?

Það harkalegasta við aðför stjórnvalda að sveitarfélögunum er auðvitað það að hún bitnar harðast á þeim er síst skyldi, minni sveitarfélögunum og landsbyggðinni. Félagsleg þjónusta sem sveitarfélögin sinna kostar meira í strjálbýli en þéttbýli, svo einfalt er það nú, og henni verður einungis sinnt með öflun fjár úr sameiginlegum sjóðum landsmanna allra. Núverandi ríkisstjórn hefur rekið harkalega og hættulega stefnu, fjársveltisstefnu gagnvart sveitarfélögunum. Stefna fjárlagafrv. fyrir næsta ár er hin sama í þessum efnum. Þessi stefna gengur þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar og einstakra stjórnmálaflokka um afstöðu ríkisvaldsins til sveitarfélaganna. Framkvæmd þessarar stefnu af hálfu núv. ríkisstjórnar leiðir til þess að nauðsynlegt er að gera úttekt á fjárhagslegum samskiptamálum ríkisins og sveitarfélaganna sem allra fyrst og út á það gengur sú till. sem hér er til umræðu og ég styð eindregið.