15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

4. mál, umboðsmaður barna

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Það er að vísu ekki miklu við að bæta þær upplýsingar sem nú hafa komið fram hjá 1. flm. þessa frv., hv. 10. landsk. þm., en mig langaði til þess að það kæmi enn skýrar fram en einungis með nafninu mínu á frv. hvað ég styð þetta mál, vil ég þá helst bæta því við að það hefur ekki farið fram hjá neinum að þjóðfélagsmyndin hefur tekið stórstígum breytingum á undangengnum árum og að það er einnig staðreynd að þjóðfélagið hefur skipst upp í ákveðna hópa. Ég tek sem dæmi að stórfjölskyldan eins og hún var er nánast úr sögunni og það að svona hópar hafa myndast leiðir m.a. til þess að það fæst minni yfirsýn og þess vegna skapast í rauninni hætta á því að ákveðnir hópar einangrist og verði út undan. Þetta hefur helst orðið hvað varðar börn og aldraða. Þetta hefur leitt af sér þá þörf fyrir fólk að það myndi með sér ýmis félög, nefndir og ráð sem taka á hinum ýmsu atriðum og gæta hagsmuna félagsmanna sinna. Við höfum t.d. Jafnréttisráð og fagfélög og alls kyns stéttarfélög og meira að segja aldraðir hafa nú með sér samtök. Nú síðast er komið fram á þingi frv. til l. um umboðsmann Alþingis sem ég vona að nái fram að ganga. Það er sammerkt með öllum þessum félögum, nefndum og ráðum, sem ég var að tala um, að þau gæta réttar og hagsmuna hinna ýmsu hópa í þjóðfélaginu, en í öllum tilvikum á að gæta réttar og hagsmuna hinna fullorðnu. Börn hafa enga möguleika til að gera neitt tilsvarandi á eigin spýtur. T.d. hafa börn ekki neinn möguleika á að fullnægja þörfum sínum og gæta réttar síns með þátttöku í pólitísku lífi og hafa þar af leiðandi ekki þroska síns vegna sömu tækifæri í þá veru og fullorðnir. Samt sem áður telja fullorðnir að hag sínum og rétti sé best komið innan félaga eins og t.d. stéttarfélaga.

Börn standa yfirleitt ekki jafnvel að vígi. Þau eru veikari aðili þegar um ræðir að ná fram rétti sínum, þ.e. þeim rétti sem þeim ber skv. lögum. Fyrir það fyrsta hafa þau oftast ekki vit á því eða skilning á því að þau eigi þennan rétt og það er enginn félagsskapur sem berst sérstaklega fyrir þau annar en auðvitað foreldrar og svo ýmsar stofnanir í þjóðfélaginu sem eru stöðugt að vinna að bættum hag barna þannig að þau fái það atlæti sem þeim ber. En þetta mál snýst um að til verði á einum stað í þjóðfélaginu allar upplýsingar. Það verði unnt að halda utan um þessar upplýsingar og aðgerðir á einum stað þannig að kraftarnir dreifist ekki um allt og nýtist þar af leiðandi betur en ella.

Það kemur fram í frv. að slíkur umboðsmaður yrði óháður aðili sem mundi sinna þessu verkefni eingöngu. Hann mundi sem sagt sjá um að það yrði tekið tillit til þarfa og réttinda barna að öllu leyti. Umboðsmaður með það verksvið sem um er getið í þskj. hefur mun meira vægi en ef um væri að ræða nefnd eða ráð sem ætti að sinna slíku hlutverki. Hann hefur þá sér til stuðnings, eins og fram kemur í þskj., sjö manna ráð sem hann getur ráðfært sig við um þær ábendingar sem berast eða ef umboðsmanninum þykir ástæða til að benda á leiðir til úrbóta. En hann hefur þann kost að geta gripið inn í og brugðist snarlega við ef það koma upp kvartanir eða mál af þeim toga sem þola ekki bið. Ég tel að slík bið gæti í sumum tilvikum valdið óbætanlegu tjóni og um slíka bið gæti einmitt orðið að ræða ef það þyrfti alltaf að kalla saman einhverja nefnd áður en tekið yrði á málinu.

Ég nefni nokkur atriði sem gætu komið til kasta slíks umboðsmanns. Þar getur verið um að ræða ofbeldi, misþyrmingu, aðkast, fíkniefni eða áfengisvanda og jafnvel glæpamál. Slíkur umboðsmaður mun, eftir að hann hefur fengið tíma til að kynna starfssvið sitt, verða mjög auðveldur aðgangs, ég vil benda á það, bæði börnum og öðrum þeim sem til hans þurfa að leita.

Það kom fram í máli hv. flm. að þessi umboðsmaður er alls ekki hugsaður sem dómari í neinu máli, en hann getur að öllu leyti haft umsagnarrétt og komið með þær tillögur til úrbóta sem honum sýnast eiga rétt á sér.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir og það þurfi enginn að hafa áhyggjur af því að það er ekki á neinn hátt verið að ganga á rétt foreldra til að hafa yfir- eða umráðarétt yfir börnunum sínum og það að öllu leyti. Þessu frv. er ekki beint gegn foreldraréttinum heldur einmitt þvert á móti. Ekki er þetta heldur gert til að draga úr ábyrgð foreldranna gagnvart börnunum sínum. Umboðsmaðurinn er í rauninni miklu frekar hugsaður til að styrkja og styðja við foreldra- og fjölskylduhlutverkið. En hins vegar ber umboðsmanni samkvæmt þessu að gagnrýna í bæjar- og sveitarfélögum og hvar sem opinberlega er gengið á rétt barna ef ekki er staðið við áður gerða samninga og lög sem snerta börn og aðstæður þeirra.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á, eins og hv. flm. gerði, að kostnaður við þetta embætti verður í raun og veru hverfandi, einkum og sér í lagi ef tekið er tillit til þess að embættið kemur til með að leysa aðra í opinbera geiranum að vissu leyti undan ýmsum störfum og skyldum sein þeir hafa haft með að gera áður og hafa fallið undir ákveðna aðila eins og t.d. innan félagsmálastofnunar.