12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

119. mál, umferðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Frv. til umferðarlaga hefur legið fyrir Alþingi á síðustu tveimur þingum án þess að hljóta afgreiðslu. Er frv. þetta nú flutt á ný nokkuð breytt svo sem nánar verður rakið hér á eftir.

Frv. er upphaflega samið af umferðarlaganefnd og felur í sér heildarendurskoðun gildandi umferðarlaga sem að stofni til eru frá árinu 1958. Hafði nefndin hliðsjón af breytingum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum á umferðarlögum og umferðarreglum annars staðar á Norðurlöndum er byggðust á tillögum samnorrænnar nefndar um umferðarmál og alþjóðlegu samstarfi, m.a. alþjóðasamningi um umferð sem gerður var 1968 og kenndur er við Vínarborg. En auk þessa var og höfð hliðsjón af hérlendum aðstæðum og ábendingum og tillögum aðila sem fara með umferðarmál og umferðaröryggi.

Á síðasta Alþingi höfðu allshn. þessarar deildar borist margvíslegar umsagnir allmargra aðila og við þinglok hafði nefndin eigi lokið yfirferð sinni á frv. og þeim tillögum sem borist höfðu. Varð þá að ráði til að undirbúa frv. fyrir þetta þing að skipa nefnd fjögurra þm. úr allshn. til þess að endurskoða frv. m.a. með hliðsjón af athugasemdum og umsögnum sem fram höfðu komið. Nefnd þessa skipuðu þau Jón Kristjánsson formaður, Eiður Guðnason, Helgi Seljan og Salome Þorkelsdóttir. Með þeim starfaði svo Ólafur Walther Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmrn., sem sæti átti í nefnd þeirri sem samdi frv. upphaflega og því gjörkunnugur efni þess.

Endurskoðunarnefndin skilaði niðurstöðu sinni til ráðuneytisins í byrjun október og lagði hún til að gerðar yrðu á frv. allmargar breytingar áður en það yrði lagt á ný fyrir Alþingi. Þær breytingar fela ekki í sér breytingu á meginstefnu frv. eða uppbyggingu en varða þó flestar greinar frv., ýmist málfar eða efnisatriði. Hafa þessar breytingar í öllum meginatriðum verið felldar inn í frv. auk nokkurra frekari breytinga sem rétt hefur þótt að gera og fyrst og fremst varða samræmingu á orðalagi.

Frv. felur í sér fjölmargar breytingar og nýmæli borið saman við gildandi lög. Eru helstu breytingar taldar í 55 liðum og varða þær öll svið frv., umferðarreglur, reglur um ökuhraða, um ökumenn og ökutækni, fébætur og vátryggingu, viðurlög o.s.frv. Ég tel ekki ástæðu til að tíunda þau atriði öll hér en vísa til upptalningar á bls. 33–35 í frv. Ég tel þó rétt að geta sérstaklega nokkurra þeirra nýmæla sem felast í frv. nú skv. tillögum endurskoðunarnefndarinnar.

Ljósatími allan sólarhringinn verði frá 1. sept. til 30. apríl. Notkun ökuljósa eykur til muna öryggi þar sem bifreið sést þá betur.

Gildistími fullnaðarskírteinis til aksturs venjulegrar bifreiðar og bifhjóls verði til 70 ára aldurs í stað þess að það er nú gefið út til 10 ára í senn. Forsvaranlegt er talið að lengja gildistíma ökuskírteinis án þess að það skerði umferðaröryggi. Aðhaldi gagnvart ökumönnum má hins vegar koma á með færslu ökuferilsskrár sem gert er ráð fyrir að haldin sé við embætti lögreglustjóranna. Starfskrafta sem farið hafa í vinnu við endurnýjun ökuskírteinis má í staðinn nota til að fylgjast með breytingum á ökuferilsskrá.

Reglum um bótaábyrgð er breytt nokkuð. Hin ríka ábyrgðarregla er látin ná til allra vélknúinna ökutækja en nær nú einungis til skráningarskyldra ökutækja. Ábyrgðarreglan er víkkuð þannig að alfarið er tekin upp hlutlæg ábyrgð og þá fellur niður sá munur sem verið hefur eftir því hvort flutt var gegn gjaldi eða ekki. Ábyrgðarreglan tekur til tjóns sem hlýst af vélknúnu ökutæki vegna umferðarslyss eða annars umferðaróhapps eða vegna sprengingar eða bruna sem stafar frá eldsneyti í ökutækinu. Er þar um nokkra takmörkun á hinni sérstöku ábyrgðarreglu umferðarlaga að ræða en núgildandi regla miðar við allt tjón sem hlýst af notkun ökutækisins. Dregið er úr heimild til að fella niður eða lækka bætur vegna líkamstjóns eða missis framfæranda þegar sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur. Þá er reglum um bótaábyrgð, þegar um er að ræða líkamstjón eða tjón vegna missis framfæranda vegna áreksturs vélknúinna ökutækja, breytt þannig að ábyrgðin lendi á. ökutækinu sem hinn slasaði eða látni var í. Reglur þessar miða allar að því að auka bótarétt þess sem verður fyrir líkamstjóni eða missi framfæranda. Eru þær teknar upp í samræmi við þróun sem orðið hefur erlendis á undanförnum árum, síðast í Danmörku í lok síðasta árs. Samhliða þessu er lagt til að breytt verði reglum um vátryggingarskylduna og vátryggingarfjárhæðir verði hækkaðar verulega.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. taldi endurskoðunarnefndin af ýmsum ástæðum rétt að nokkur atriði biðu meðferðar Alþingis. Er þar m.a. um að ræða ákvæðin um ökuhraða, ákvæðin um aldur til að stjórna dráttarvél, léttu bifhjóli og vélsleða og ákvæðin um skipan Umferðarráðs. Eru þau atriði því óbreytt að efni frá fyrri gerð frv.

Frv. það til umferðarlaga sem liggur fyrir felur í sér breytingu á umferðarreglum til samræmis við alþjóðlega þróun og á þannig að stuðla að auknu öryggi vegna aukinna samskipta þeirra í milli. Það felur í sér aukna vernd óvarinna vegfarenda. Það felur í sér aukinn bótarétt þeirra sem verða fyrir líkamstjóni eða missi framfærenda.

Loks felur frv. í sér hagræðingu á ýmsum sviðum til hagsbóta fyrir borgarann og stjórnsýsluna, svo sem ákvæðin um lengingu á gildistíma ökuskírteina, ákvæðin um flutning ökutækjaskráningar frá lögreglustjórum til Bifreiðaeftirlits og ákvæðin um breytta meðferð mála vegna brota á reglum um stöðvun og lagningu ökutækja og ákvæðin um heimild til að flytja brott ökutæki sem með ýmsum hætti brjóta í bága við reglur um stöðvun eða lagningu, valda truflun eða hættu eða skilin hafa verið eftir.

Með samþykkt þessa frv. á því ekki einungis að skapast grundvöllur fyrir auknu umferðaröryggi heldur og fyrir bættri stjórnsýslu og hagræðingu.

Eins og ég hef þegar rakið hefur veruleg vinna verið lögð í að endurskoða frv. í ljósi athugasemda og umsagna sem borist höfðu. Það fer ekki á milli mála að umferðarmál eru málaflokkur sem fjöldinn lætur sig skipta og hefur skoðun á og vel má vera að enn komi fram athugasemdir. Endurskoðunin á hins vegar að létta meðferð frv. um sali Alþingis nú og í þingnefnd. Vænti ég þess eindregið að tími gefist til að afgreiða frv. á þessu þingi.

Rétt er að vekja athygli á því að frv. gerir ráð fyrir gildistöku 1. júní 1987. Má þá ætla að nauðsyn beri til að breyta því ákvæði en gera verður ráð fyrir tíma til að ganga frá ýmsum reglugerðum sem setja á skv. frv. og einnig að kynna hinar nýju umferðarreglur og önnur nýmæli. Kemur það væntanlega betur í ljós við meðferð frv. hér á Alþingi.

Umferðarlögin ein sér eru aðeins rammi utan um frekari reglur. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að heildarendurskoðun reglugerðar um gerð og búnað ökutækja. Er það allmikið verk og undirbúningurinn langt kominn. Verður trúlega heppilegt að ganga frá nýjum reglum um það efni í áföngum og er stefnt að því að á næstunni verði settar reglur um blá ljós fyrir lögreglu-, sjúkra- og slökkvibifreiðar og á nýjum bílum um föst ljós er loga alltaf við akstur og öryggisbelti í aftursæti fólksbifreiða.

Í umferðarlögum er sérstakt ákvæði er heimilar ráðherra að hækka hámarkshraða á tilteknum vegum úr hinum almenna 70 km hámarkshraða í allt að 90 km og binda þá heimild við ákveðinn árstíma. Þessi heimild hefur einungis verið notuð að takmörkuðu leyti. Er nú heimilaður 80 km hámarkshraði á um 175 km þjóðvegakerfisins. Var um 65 km bætt við á síðasta vori jafnframt því sem ákveðið var að þessi hámarkshraði skyldi gilda allt árið. Endurbætur á þjóðvegakerfinu ættu að leyfa aukinn hraða á fleiri vegarköflum svo sem frv. gerir og ráð fyrir. Stóð til í samráði við Vegagerðina að fjölga vegarköflum með auknum hámarkshraða en ekki tókst að ljúka þeirri vinnu en nauðsyn ber til að gera það fyrir næsta sumar. Reglur um hámarkshraða þurfa að vera með þeim hætti að þær séu virtar af þorra ökumanna. Ofsahraði er hins vegar hættulegur og þarf að vinna gegn honum. Er talið að einna bestum árangri í umferðarlöggæslu megi ná með eftirliti með ökuhraða og ölvunarakstri. Talið er að á hinum Norðurlöndunum megi rekja verulega fækkun slasaðra í umferðinni síðustu 15 árin m.a. til minni ökuhraða í kjölfar lækkunar hámarkshraða og vegna ýmissa endurbóta á vegakerfinu.

Á síðasta sumri stóð ráðuneytið að sérstöku átaki lögreglu og Umferðarráðs er einkum beindist að ökuhraða og ölvunarakstri. Nú í byrjun vetrar hafa sömu aðilar staðið fyrir hliðstæðu átaki er beinist að stefnuljósanotkun og virðingu fyrir rauðu umferðarljósi og stöðvunarskyldu. Þörf er á að auka og skipuleggja slíkt samstarf þessara aðila og jafnframt samstarf við fjölmiðla, einkum útvarp og sjónvarp. Reynslan sýnir að með samræmdu átaki má ná verulegum árangri til bættrar umferðarmenningar og aukins öryggis. Slíkar aðgerðir kosta hins vegar óhjákvæmilega talsverða fjármuni og þarf að tryggja Umferðarráði auknar fjárveitingar í því skyni. Þá getur lögreglan ekki aukið að ráði þátt sinn án þess að skerða aðra þætti löggæslunnar. Með ákveðinni skipulagningu má þó styrkja þessa löggæslu. Hefur að því verið unnið að undanförnu í kjölfar úttektar sem gerð var á embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Ekki er síður mikilvægt til árangurs á þessu sviði þátttaka annarra aðila en hins opinbera. Því ber að fagna framréttri hendi bifreiðatryggingafélaganna sem einmitt í dag halda ráðstefnu um öryggismál í umferðinni. Ekki fer á milli mála að saman fara hagsmunir hins opinbera, tryggingafélaganna og bifreiðaeigenda. Allar aðgerðir er miða að bættri og öruggari umferð hljóta að skila árangri í fækkun umferðarslysa og óhappa, lækkun kostnaðar við heilsugæslu í landinu og lækkun bótagreiðslna hjá tryggingafélögunum sem aftur leiðir til lækkaðra tryggingariðgjalda.

Umferðarslysin eru öllum áhyggjuefni. Skv. skýrslu Umferðarráðs um umferðarslys, sem byggð er á skráningu lögreglu, létust í umferðarslysum 24 á síðasta ári og 889 slösuðust, þar af 375 alvarlega. Þetta eru uggvænlegar tölur. Þó er vitað að þessar tölur segja ekki allt. Í mörgum tilvikum fær lögregla enga vitneskju um slys, hinn slasaði er fluttur beint á sjúkrahús.

Fleiri tölur eru uggvekjandi. Á síðasta ári færði lögreglan 2481 mann til blóðrannsóknar vegna meintrar ölvunar við akstur og er þetta nokkuð árviss tala. Af þessari tölu áttu 252 aðild að umferðarslysi og 80 höfðu slasast. Af skráðum umferðarslysum í Reykjavík árið 1985, alls 2597, voru 138 tilvik þar sem grunur var um ölvun við akstur. Rétt er að taka fram að af heildartölunni, 2481, reyndust 349 vera með áfengismagn innan refsimarka. Nauðsyn ber til að vinna gegn þeim vágesti sem ölvunarakstur er. Að því miða ýmis ákvæði frv., m.a. þau er veita lögreglu heimild til að taka öndunarsýni jafnvel þótt ökumaður sé ekki grunaður um ölvun við akstur.

Þá er ekki síður nauðsynlegt að standa þannig að málum að ökumenn verði ekki fyrir meiri óþægindum en þörf er á og þeir ekki látnir gangast undir blóðrannsókn nema full ástæða sé til. Því er nú verið að taka í notkun hjá lögreglunni ný tæki til að taka öndunarsýni þar sem unnt er að greina þá betur frá sem eru með áfengismagn innan refsimarka.

Eins og þegar hefur komið fram gefur Umferðarráð árlega út skýrslu um umferðarslys skv. skráningu lögreglu. Hefur svo verið um allmörg ár. Ráðuneytið hefur talið tímabært að endurskoða þessa upplýsingasöfnun þannig að fá megi gleggri upplýsingar um orsakir og eðli umferðarslysa. Hefur ráðuneytið því fyrir nokkru falið lögreglustjóraembættinu í Reykjavík að vinna að hönnun nýrra eyðublaða fyrir skráningu umferðarslysa og samningu leiðbeininga um notkun þeirra. Er þá m.a. haft í huga að slíkar upplýsingar nýtist fleiri aðilum en nú er, svo sem Vegagerð og sveitarfélögum. Úrvinnsla upplýsinga mundi síðan fara fram í samráði við þessa aðila.

Ráðuneytið hefur einnig lýst stuðningi við áætlanir Borgarspítalans í Reykjavík um að koma á allsherjarskráningu slysa með upplýsingum frá öllum sjúkrahúsum á landinu. Hefur þá verið haft í huga að bera megi saman að fengnu leyfi Tölvunefndar upplýsingar lögregluyfirvalda og heilbrigðisyfirvalda.

Auk tölfræðilegra upplýsinga um umferðarslys sem þannig má vinna telur ráðuneytið og brýnt að efla almennar rannsóknir meiri háttar umferðarslysa. Vill ráðuneytið stuðla að því að umferðarslys verði ekki eingöngu rannsökuð með það í huga að afla gagna til meðferðar hugsanlegs refsimáls eða bótamáls heldur verði jafnframt í ríkara mæli en hingað til kannaðar orsakir slyss og hvað betur megi fara, hvort heldur einstök slys eða með hliðsjón af tíðni sams konar slysa eða slysa á sama stað. Verði skýrsla gerð um þess háttar slys í tengslum við lögreglurannsókn og í samráði við Vegagerð eða tæknimenn sveitarfélaga, Bifreiðaeftirlit og lækna.

Hæstv. forseti. Ég hef hér í niðurlagi máls míns vikið að ýmsum atriðum sem varða umferð og öryggi í umferð og allt tengist frv. til umferðarlaga sem hér er til meðferðar. Umferðin er svo stór þáttur lífs okkar. Við tökum öll þátt í henni, en umferðin er eins og við viljum sjálf láta hana vera. Umferðarlög og reglur hjálpa til að móta umferðina en til þess að árangur náist verðum við að tileinka okkur umferðarreglurnar, góða aksturshætti og umgengni. Frv. þessu er ætlað að stuðla að bættu umferðaröryggi.

Ég legg til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.