12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

119. mál, umferðarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. eða þann mikla lagabálk sem hér hefur verið lagður fram.

Á s.l. ári þegar þetta var til umræðu lagði ég fram fsp. til hæstv. ráðherra varðandi skráningu ökutækja. Í 64. gr. í þessu frv. er það alfarið lagt á herðar dómsmrh. að setja reglur um skráningu ökutækja. Mig fýsir að vita hvers konar reglur hæstv. dómsmrh. hefur hugsað sér að setja um skráningu ökutækja, hvort hann hyggst breyta því fyrirkomulagi sem nú er til betri vegar að mínu mati, þ.e. að einfalda það kerfi sem við búum við, eða hvort í þessu felist að hafa tvöfalt skráningarkerfi, sem sagt bókstaf eftir umdæmum eins og nú er auk þess sem menn geta valið það kerfi að hafa sama skráningarnúmerið þrátt fyrir að bifreið sé seld á milli umdæma.

Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns varðandi rannsóknarnefnd umferðarslysa. Ég held að mjög brýnt sé að sett verði á laggirnar rannsóknarnefnd því við megum ekki gleyma því að á milli 10 og 20% af umferðarslysum má rekja til gatnakerfis og með því að sett verði nefnd á laggirnar sem kanni hvaða orsakir liggi að baki umferðarslysum erum við nær því að geta bætt þar úr. Því miður er það ekki inni í frv. en ég tek heils hugar undir það að brýn þörf er á því að hafa rannsóknarnefnd.

Á þeirri ráðstefnu sem við sátum í morgun þar sem rætt var um þessi mál kom fram m.a. í erindi sem flutt var um hlutverk löggæslu sú skoðun, sem ég held að sé rétt, að ný lög verði að hafa hljómgrunn meðal almennings þannig að þau nái sínu markmiði. Það má ekki ofmeta gildi laga. Þar kom einnig fram að hér á landi væri viss lagaþreyta þannig að ég held að kynning og áróður um það sem við viljum breyta í umferðinni sé það sem skili meiri árangri en lagagreinar. Þar vil ég nefna til bæði ljósanotkun, bílbeltanotkun og það sem við viljum að verði komið á hér. Ég held að áróðurinn og viðhorf almennings gildi meira en það að við samþykkjum það hér á Alþingi. Ég er ekki á móti því að þetta verði samþykkt. Ég er aðeins að benda á að það verður líka að fara þá leið að reka áróður fyrir gildi þess að nota bæði ljós og bílbelti.

Ég hef ekki átt sæti í þeirri nefnd sem hefur farið í gegnum þetta frv. né á ég sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um þetta frv. Þess vegna vildi ég koma hér og benda á þessi tvö atriði sem mér finnst mikilvæg, þ.e. rannsóknarnefndin og skráning ökutækja. Ég held að það verði gífurlegur sparnaður í því að einfalda það kerfi sem nú er, gera það einfalt í framkvæmd. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara nánar út í greinar frv. enda gefst til þess tækifæri við 2. umr.