15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

4. mál, umboðsmaður barna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að hreyfa hér mjög þýðingarmiklu máli sem lýtur að auknum réttindum barna. Ég tel sanngjarnt að það komi fram að hv. flm. buðu Kvennalistanum aðild að þessu frv. og kom vissulega mjög til greina að þiggja það boð. Við höfum lengi velt þessu máli fyrir okkur og höfum mikinn áhuga á að rétta hlut barna og tryggja hagsmuni þeirra eins og meiningin er með frv. sem er hér til umræðu. En ástæðan til þess að við þáðum ekki þetta góða boð er sú að innan Kvennalistans er starfandi hópur sem hefur haft þetta til umfjöllunar og einmitt verið að leita leiða til að ná sama markmiði sem frv. stefnir að og hugmyndir þess hóps hafa fallið að nokkru leyti í annan farveg en hér er valin. Niðurstaðan varð því sú að við mundum halda áfram á þeirri braut og kynna okkar leið þegar þeirri vinnu er lokið. Þetta þýðir engan veginn að við styðjum ekki þetta mál, þ.e. við tökum heils hugar undir sjónarmið og markmið í þessu frv. og greinargerðinni með því og fögnum því mjög að þetta mál verður nú rætt og skoðað í þingnefnd.

Ég vil nota tækifærið og taka undir hvert orð sem hv. flm. hafa sagt hér um aðbúnað barna í þjóðfélagi okkar. Og líklega er algjör ofætlan að ein manneskja með heitið „umboðsmaður barna“, sem starfar innan ráðuneytis og skipuð er af pólitískum ráðamanni, geti í rauninni breytt miklu í þessum efnum. Sú manneskja þarf vissulega á öflugum stuðningi að halda og það er spurning hvort unnt væri að tryggja slíkan stuðning eða skapa slíkum starfsmanni starfsgrundvöll sem dygði. En það þarf auðvitað algjöra hugarfarsbreytingu hvað varðar stöðu barna, aðstöðu þeirra og réttindi í þessu þjóðfélagi og öll umræða um þetta mál getur stuðlað að slíkri hugarfarsbreytingu.