12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

125. mál, opinber innkaup

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um opinber innkaup á þskj. 129. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. er það samið af nefnd sem fyrrv. hæstv. fjmrh., Albert Guðmundsson, skipaði 1984 til þess að yfirfara starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunarinnar.

Um Innkaupastofnun ríkisins gilda lög nr. 72 frá 1947 og reglugerð frá 1959. Upphaflega heyrði stofnunin undir viðskrn. þar til gefin var út og staðfest af forseta Íslands í desember 1969 reglugerð um stjórnarráðið sem kveður á um að Innkaupastofnunin heyri undir fjmrn. Í lögunum frá 1947 eru ákvæði um að ríkisstofnanir, svo og þeir sem hafa með höndum stjórn sérstakra framkvæmda sem kostaðar eru af ríkissjóði, skuli fela Innkaupastofnun ríkisins innkaup þeirra nauðsynja sem falla undir starfssvið hennar nema ráðherra heimili annað. Þessu ákvæði hefur í reynd aldrei verið framfylgt. Hefur ríkisstofnunum verið í sjálfsvald sett hvernig þær haga innkaupum sínum, bæði innanlands og erlendis frá. Nokkrar stofnanir og fyrirtæki ríkisins hafa sett upp innkaupadeildir sem annast öll eða svo til öll innkaup til eigin starfsemi. Hér má nefna Póst- og símamálastofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, en sumar stofnanir fara með erlend innkaup í gegnum Innkaupastofnun ríkisins en annast innlendu innkaupin upp á eigin spýtur.

Aðild Innkaupastofnunar ríkisins að innkaupum til framkvæmda var upphaflega ætluð þannig að stofnunin næði hagstæðu verði á ýmiss konar framkvæmdavörum. Þetta gildir enn þann dag í dag. T.d. hefur Innkaupastofnunin annast innkaup fyrir hafnarframkvæmdir, fyrir flugvallarframkvæmdir og tækjabúnað á sjúkrahúsum. Hins vegar hafa sjálfar framkvæmdirnar færst í auknum mæli í formi útboða yfir til verktaka og þá er það meginregla að verktakarnir sjálfir útvega efni og önnur aðföng sem til framkvæmdanna þarf. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um að innkaup skuli að öllu jöfnu gerð með útboðum en Innkaupastofnun ríkisins hefur eftir því sem við verður komið beitt því viðskiptafyrirkomulagi. Þegar um útboð er að ræða þarf Innkaupastofnunin yfirleitt að leita annað um gerð útboðslýsingar. Getur bæði verið um að ræða opin útboð eða útboð bundin við tiltekna framleiðendur eða seljendur. Innkaupastofnunin hefur því nokkra þekkingu á því hvernig leita skal hagstæðra verðtilboða og semja um þau en auk þess að sjá um tollafgreiðslu og aðra vinnu sem sjálfum kaupunum tengjast. Stofnunin þarf að hafa og hefur auk þess sjálfstæða skoðun á því verði sem varan er boðin til kaups á.

Í lögum og reglugerð eru ákvæði um að Innkaupastofnun ríkisins skuli selja ríkisstofnunum vörur á kostnaðarverði að viðbættum ómakslaunum er standi undir rekstrarkostnaði við stofnunina. Þessari reglu hefur verið fylgt og er þóknunin að jafnaði um 2–3% af kaupverði vörunnar. Nefndin aflaði upplýsinga um gjaldskrá Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar og eru gjaldskrár beggja stofnananna áþekkar samkvæmt þeim upplýsingum. Stefna gildandi laga er að innkaup vöru og þjónustu til ríkisstofnananna eigi að vera á sem hagstæðustu verði. Þess skal getið hér að fyrir liggur ríkisstjórnarsamþykkt frá 11. jan. 1984, þar sem fram er sett annað sjónarmið í innkaupum, þ.e. efling innlends iðnaðar og atvinnustarfsemi. Hjá sumum nágrannaþjóðum okkar er mjög mikið lagt upp úr þessum þætti í stefnumörkun að því er varðar opinber innkaup.

Ég hef fallist á þá skoðun nefndarinnar að lögum og reglugerð um starfsemi stofnunarinnar þurfi að breyta og mæli því fyrir þessu frv. hér. Ekki liggur fyrir hve miklum fjármunum og mannafla ríkissjóður og ríkisstofnanir ráðstafa til innkaupa á vörum og þjónustu. Á árinu 1985 var velta Innkaupastofnunar ríkisins um 600 millj. kr. í innlendum og erlendum vörukaupum. Veltan hjá Pósti og síma nemur álíka fjárhæð. Skipaútgerð ríkisins og Rafmagnsveitur ríkisins annast innkaup sem nema verulegum fjárhæðum einnig. Þau lög, sem um opinber innkaup gilda, eru sett við aðstæður gjörólíkar þeim sem nú ríkja. Lögin eru mjög almenns eðlis og jafnvel svo að stjórnvöldum hefur ekki þótt ástæða til þess að framfylgja þeim í einu og öllu. Reglugerð um Innkaupastofnunina frá 1959 er að mörgu leyti í ágætu horfi. Hún tekur m.a. á því hvernig að innkaupum skuli staðið, þ.e. með opnum útboðum og samkeppni.

Ég tel að lagasetningin þurfi að vera markvissari en nú er. Heildaryfirsýn um opinber innkaup er ekki fyrir hendi. Veigamikið er að einn aðili hafi umboð til að móta innkaupastefnu ríkisins, hvort heldur innkaupin fara fram hjá Innkaupastofnun eða einstökum opinberum aðilum, en grundvallaratriði er að þar sé hægt að móta reglur eftir því sem aðstæður krefja hverju sinni. Ef hagkvæmt þykir að einstakir opinberir aðilar, einstakar opinberar stofnanir sjái sjálfar um innkaup, þá á að vera unnt að annast innkaupin með þeim hætti. Aðalatriðið er það að samræmdum meginreglum sé fylgt, hvor hátturinn sem á er hafður.

Auðvitað getur það verið til ávinnings að fela einum eða fáum aðilum opinber innkaup. En kerfið þarf og verður að vera sveigjanlegt þannig að einstakir opinberir aðilar geti annast þau upp á eigin spýtur og sú skipan þarf á hinn bóginn að lúta almennum reglum þannig að unnt sé að treysta því að sem mestrar hagkvæmni sé gætt, hvaða háttur sem annars er á hafður varðandi innkaupin. Sameiginleg útboð á vöru fyrir margar stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga geta vissulega gefist vel og jafnvel orðið til þess að lækka verð vörunnar á íslenskum markaði. Dæmi um þetta eru ýmsar einnota vörur til sjúkrahúsa. Verulegur árangur hefur náðst einnig í tölvu- og bílakaupum fyrir ríkisstofnanir. Mun fleiri vörur af þessu tagi mætti bjóða út, eða gera verðkönnun á, en nú er gert. Sama máli gegnir um ýmsa þjónustu, t.d. tryggingar og viðgerðarþjónustu. Í öðru lagi geta bein innkaup innkaupastofnana verið hagstæðari heldur en ef vara er keypt út af lager hjá umboðsaðila. Aftur á móti verður að hafa í huga að afgreiðslutími með þeim hætti getur orðið lengri og valdið óþægindum og of miklum kostnaði.

Með starfrækslu innkaupastofnunar er í ýmsum tilvikum unnt að spara hjá ríkisstofnunum mannafla og aðstöðu. Hér er þess vegna lagt til að lög um Innkaupastofnun ríkisins frá 1947 verði felld úr gildi og að við taki lög um opinber innkaup. Ný lög eru æskileg til þess að ná heildarstjórn innkaupa hjá ríkinu. Með nýjum lögum er, auk heimildar til stefnumörkunar í öllum opinberum innkaupum, lagt til að sett verði stjórn yfir opinber innkaup, hvort sem þau fara fram á vegum innkaupastofnunar eða einstakra opinberra aðila. Ég fellst á þá skoðun nefndarinnar að heimild verði til að fela einstökum ríkisstofnunum innkaup til eigin þarfa eftir aðstæðum hverju sinni, en meginatriðið er, eins og áður hefur komið fram, að innkaupastarfsemin lúti sömu meginreglum burtséð frá því með hvaða hætti að henni er staðið.

Frv. gerir ráð fyrir að Innkaupastofnun ríkisins starfi áfram en með breytta sniði. Í því tilliti er lagt til:

að stjórn opinberra innkaupa geti sent starfsmenn til lengri eða skemmri tíma í stofnanir til leiðbeiningar og eftirlits með innkaupum,

að Innkaupastofnunin hafi heimild til að afla sérfræðiumsagnar um þjónustu og vöruval komi upp ágreiningsmál, að stofnunin liggi ekki með vörubirgðir fyrir ríkisstofnanir,

að forstjóri stofnunarinnar starfi með stjórn hennar og að hann verði ráðinn til takmarkaðs tíma,

að upplýsingagjöf stofnunarinnar um útboð og töku tilboða verði bætt.

Verði ofangreindum tillögum hrundið í framkvæmd má bæta opinber innkaup og ná því tvíþætta markmiði að spara opinberum stofnunum og fyrirtækjum umtalsverðar fjárhæðir og koma á styrkari framkvæmd og eftirliti með öllum innkaupum.

Frú forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.