12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

125. mál, opinber innkaup

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Sjálfsagt er og ábyggilega ýmislegt gott í þessu frv. þó að svipurinn yfir því sé kannske fyrst og fremst staðfesting á því að hæstv. fjmrh. stefnir að því að láta markaðinn ráða sem víðast. Ég tek undir það sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, að með framkvæmd þessa frv. verða ýmsir hlutir sjálfsagt hagkvæmari og það verður litið til ýmissa hagkvæmnisþátta í sambandi við framkvæmd þess. Einnig tek ég undir það og fagna því að forstjóri þessa fyrirtækis verði ráðinn til fjögurra ára og að stofnuninni skuli vera skipuð stjórn þó að hún sé náttúrlega fyrst og fremst stjórn sem ráðherrann hefur fyrir sig, stjórn sem er skipuð af ráðherranum sjálfum.

En það sem vekur kannske sérstaklega athygli í sambandi við þetta frv. er það að hvergi í frv. er nein tilætlun til opinberra aðila um það að nota innlendar framleiðsluvörur eða að láta innlendar vörur ganga fyrir erlendum. Og svo það, eins og hv. 11. þm. Reykv. benti á, að í frv. er beint tekið fram að jafnan skuli tekið því boði sem hagkvæmast er miðað við verð, vörugæði, afgreiðslu og aðra skilmála. Þarna er náttúrlega vísað beint til markaðarins og þá um leið að erlendir aðilar hafa þarna allt að því forgangsaðstöðu ef þeir bjóða lægra verð en Íslendingar.

Það er kannske ekki úr vegi að minna a það og taka undir það, sem hæstv. ráðherra sagði hér í ræðu sinni, að núv. ríkisstjórn hefur gert ákveðnar samþykktir í þá átt að ríkisstofnanir skuli haga innkaupastefnu sinni þannig að hún stuðli að íslenskri iðnþróun, styðji íslensk fyrirtæki, og að 2. apríl 1981 samþykkti Alþingi þáltill. sem flutt var af hv. þm. Eggert Haukdal, þeim þm. sem býður sig fram fyrir Sjálfstfl. á Suðurlandi ásamt hæstv. fjmrh. Sú till. var svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, að fram fari athugun á því eftir hvaða leiðum sé unnt að auka verulega frá því sem nú er innkaup ríkis, sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja þeirra er leiði til eflingar íslenskum iðnaði og útboð verði notuð á markvissan hátt til þess að stuðla að iðn- og vöruþróun í landinu.“

Hv. þm. Eggert Haukdal spurði þáv. iðnrh., Sverri Hermannsson, um það hvernig staðið hefði verið að því að framkvæma þessa ályktun Alþingis 18. desember 1984. Hæstv. iðnrh. svaraði m.a. með því að lesa upp þá samþykkt sem hæstv. núv. fjmrh. nefndi áðan að ríkisstjórnin hefði gert í þessum málum. Sú samþykkt er þannig, með leyfi forseta. Ráðherra segir:

„Vegna opinberrar innkaupastefnu flutti ég í núverandi ríkisstjórn hinn 11. janúar tillögu um opinbera innkaupastefnu, þar sem segir svo:

„Ríkisstjórnin samþykkir að beina eftirfarandi fyrirmælum til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins í því skyni að efla innlenda atvinnustarfsemi:

1. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að kaupa íslenskar vörur til opinberra nota.

2. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að hafa útboð á hönnunar- og verksamningum þannig að þeir miðist eins og frekast er kostur við íslenskar vörur og atvinnustarfsemi.

3. Hvert ráðuneyti skal sjá um framkvæmd þessara fyrirmæla gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum sem undir það heyra.“

Síðan, hinn 18. janúar, skrifaði ég til stofnana og fyrirtækja, er heyra undir starfssvið iðnrh., bréf þar sem ég vitnaði til þessarar samþykktar, en sagði síðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið leggur á það mikla áherslu að stjórnendur stofnunar eða fyrirtækis hafi þessa samþykkt framvegis til hliðsjónar við öll innkaup.““ Og fleira segir hann um þetta mál.

En í tilefni af þessu frv., sem er nú flutt og fjallar ekkert um það að verja íslenskan iðnvarning og beina viðskiptum frá ríkisfyrirtækjum til íslenskra iðnaðarfyrirtækja, vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. hvort ríkisstjórnin hafi fallið frá þessari samþykkt sinni og hvort það sé meiningin með þessu lagafrv., að því samþykktu, að Innkaupastofnun ríkisins sé gert að haga viðskiptum sínum á þann veg að fyrst og fremst sé um arðsemissjónarmið að ræða, ekki tengt íslenskum iðnaði eða íslenskum framleiðsluvörum.