15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

4. mál, umboðsmaður barna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð í sambandi við það mál sem hér liggur fyrir, frv. til l. um embætti umboðsmanns barna. Ég lýsi stuðningi mínum við tilgang þessa máls og sérstaklega vil ég taka undir framsöguræðu hv. flm. sem greip á vandamálinu í heild, sem blasir við okkur öllum að þörf er á að takast á við í okkar nútímaþjóðfélagi. Ég vil hins vegar láta það koma fram að um leið og ég hef mikinn áhuga fyrir vernd fjölskyldunnar vil ég taka fram að mér finnst það vera aðalatriðið í þessum málum hvaða leiðir við getum fundið til að efla fjölskyldutengslin í landinu, efla vægi fjölskyldunnar. Ég tel hana vera og hafa alltaf verið burðarás hvers þjóðfélags, og mikilvægt að fjölskyldan rofni ekki, að þannig sé búið að fjölskyldunni í þjóðfélaginu að hún geti verið sá burðarás sem ég tel hana þurfa að vera og þar með að hún verndi börnin okkar og komi þeim til þess þroska sem brýnast er hverju sinni. Börnin eru framtíðin, við hljótum að vera öll sammála um það, og mér finnst þess vegna að málið í heild sé mikilvægt og þörf á að taka það til mikillar umræðu í okkar þjóðfélagi þar sem eru svo miklar breytingar. Þjóðfélagsgerðin hefur vissulega breyst, en hún má ekki breytast af sjálfu sér. Það verður að hafa áhrif á í hvaða farveg þetta litla þjóðfélag okkar fer og ekki hvað síst með þá framtíðarsýn þar sem börnin leika aðalhlutverkið. Þess vegna vil ég fagna svona frumvarpsgerð og þeirri umræðu sem það skapar og leggja áherslu á að við þurfum að taka þessi mál mjög alvarlega til meðferðar. Þar á ég við fjölskyldumálin eða vernd fjölskyldunnar í heild. Það finnst mér vera tímabært og umræðan á að falla í þann farveg. Þetta er svo viðamikið mál og kemur svo víða við að við þurfum að eyða í þetta miklum tíma og vanda okkur vel við lagasetningu.

Ég vil geta þess að ég skipaði í sumar nefnd til að endurskoða hin gömlu framfærslulög sem eru frá 1947. Framfærslulögin eru, eins og við vitum, mjög þýðingarmikill þáttur í þessum málum öllum og voru sett á sínum tíma til að vernda þá sem versta stöðu hafa og grípa inn í heimilislífið og fjölskyldumálin almennt. Ég tel að þessi nefnd þurfi að vinna mikið starf einmitt með tilliti til þessarar breytingar á þjóðfélaginu okkar og raunar í umheiminum og það er næsta ljóst að það verður að taka inn í þessa endurskoðun afstöðu til ýmissa málaflokka sem þjóðfélagið þarf að sinna á sem bestan hátt.

Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þessi mál. Ég vildi aðeins koma upp til að lýsa yfir samþykki mínu við að þessi mál séu tekin til ítarlegrar umræðu og áhuga mínum fyrir því að við getum náð saman á einhvern hátt til að efla fjölskylduna og þar með öryggi barna okkar og framtíð þeirra